Var kominn á botninn 2013 vegna margra ára eineltis, sem byrjaði í grunnskóla.

Dagur Björnsson er 25 ára gamall maður sem býr í Bakkagerði í Norður Múlasýslu.

Sem barn byrjaði Dagur að fá skallabletti og var hár hans rakað af. Þá byrjaði stríðnin og eineltið bæði frá börnum og fullorðnum sem stóð yfir allan grunnskólann og menntaskólann. Leiddi eineltið til kvíða og þunglyndis hjá Degi sem að eigin sögn var kominn á botninn í byrjun árs 2013.  Í dag er hann búinn að ná tökum á lífi sínu og brosir framan í heiminn og er tilbúinn til að deila sögu sinni til hjálpar öðrum sem standa í sömu sporum og hann.

535818_4327223492523_1308932165_n

Dagur skrifaði eftirfarandi pistill á facebooksíðu sinni í gær sem hann hefur góðfúslega gefið hun.is leyfi til að birta:

Í ljósi þess að eineltismál hefur verið mikið á brennidepli uppá siðkastið fór ég að hugsa ansi langt tilbaka – Alveg tilbaka frá þvi að ég var krakki.

Þegar ég var 4 ára gamall fór ég að byrja að fá skallabletti og hvorki foreldrar minir né læknar vissu hvað var raun og veru i gangi. Siðan fór þetta að verða það slæmt að það var tekin sú ákvörðun að raka allt hárið af, þar sem augnhár og augabrúnir duttu af – Að alast upp á Borgarfirði var yndislegt þar sem ég varð aldrei fyrir aðkasti útaf hárleysinu og i minningunni voru margir krakkarnir hérna heima sem tóku svar mitt þegar mér var stritt af öðrum krökkum á austurlandi.

Ég fékk að heyra að ég væri krabbameinssjúklingur, geimvera, hvitblæðingur, barn sem gleymdist að þroskast og margt fleira sem stakk mig alveg hryllilega, að hugsa sér að heyra þetta þegar maður er 5-10 ára gamall frá fólki sem maður þekkir ekki neitt – Það stingur mig ennþá i dag að hugsa tilbaka.

Pabbi minn var og er að sjálfsögðu ennþá, ótrúlega mikill og sterkur klettur þegar ég var krakki, t.d þegar ég fór i sund með honum á austurlandi eða annarsstaðar eða á veitingastaði, þá fór ekkert jafn mikið i taugarnar á honum og þegar fólk glápti mig. Krakkar bentu og hlógu, fullorðnir störðu og hvisluðu. Pabbi tók alltaf svarið mitt og sagði einfaldlega við krakkana “Maður gerir ekki svona” og glápti yfirleitt á fullorðna fólkið sjálfur þangað til að það var vandræðalegt og snéri sér i aðra átt. Ég áttaði mig aldrei alvarlega á þessu þá en það fór fljótt að renna fyrir sjónir.

Ég var alinn upp við að þykja vænt um og bera virðingu fyrir náunganum – Hvort sem hann var samkynhneigður eða gagnkynhneigður, svartur eða hvitur, fatlaður eða heilbrigður, stór eða litill, feitur eða mjór og ég hef alla tið reynt mitt besta að bera virðingu fyrir fólki sem á það skilið. Ég ólst upp i kringum einhverfan frænda minn sem kenndi mér rosalega margt og ég lærði þá að það væru ekki allir eins i þessum heimi.

Þegar ég fór siðan að eldast og kominn i Menntaskóla, þá var ég viss um að þessu hvisli og bendingum mundi linna en guð minn góður, var ég langt frá þvi.

Ég hafði ekkert sjálfstraust, mér fannst ég einfaldlega ljótur – Hárlaus, með stórt nef, stór eyru, stórar varir, stóran haus, skarð i tönnum … ég hataði útlitið mitt og sökk djúpt. Eitt sinn sagði ein ónefnd stelpa við mig “að hún gæti aldrei verið með svona hárlausu ógeði eins og mér” Mér fannst ég ekki hafa neina hæfileika og allir væru einfaldlega betri en ég. Fólk talaði niðrandi hlut um mig á timabili og var þá yfirleitt notað orðið “skalli” sem hefur ALLTAF farið i minar finustu taugar en ég þakka æðri mætti fyrir það að ég hef alltaf átt yndislega vini sem hafa stutt við bakið á mér og þar ber helst að nefna Steinar Pálma Ágústsson sem er minn allra besti vinur og eitt sinn á djammi á Akureyri tók hann barsmiðar frá 10 strákum bara afþvi að einn byrjaði að særa mig með “Krabbameinssjúklinga-tali” Einstakur vinur, ekki satt?

Ég sökk dýpra og dýpra – Ég fór að verða óheiðarlegur, ég sagði ósatt og særði fólk i kringum sig sem átti það aldrei skilið og snemma árið 2013 fór ég endanlega á botninn.

Ég var atvinnulaus, ég var byrjaður að fá mér bjór daglega, leið illa á hverjum degi og fór að sofa með kviðahnút i maganum og vaknaði með hann sömuleiðis daginn eftir – Einn daginn i mars fékk ég ægilega góða vakningu frá góðu fólki og þaðan lá leiðin upp – Ég hafði samband við sálfræðing og skráði mig inná Vog til að ná tökum á lifi minu. Þar lærði ég ótrúlega margt um sjálfan mig, hluti sem lágu beint fyrir framan nefið á mér en ég var aldrei búinn að sjá.

Nú i dag segi ég stoltur frá þvi að ég stend á tveimur fótum, hreinn og beinn og hef aldrei fundið jafn mikla gleði frá þvi að ég var barn. Kviðinn og þunglyndið nánast horfið og allt lifið blasir bjart við mér 🙂

Ég er búinn að lesa ansi margar lesningar frá krökkum sem hafa opnað sig með eineltið og finnst mér það alveg stórkostlegt, það hjálpaði mér að opna sjálfan mig og deila þessari reynslu með ykkur. Ég er loksins búinn að sætta mig við hlut sem ég hef aldrei viljað viðurkenna, að ég var lagður einfaldlega i einelti.

Ég þakka öllum minum frábæru vinum, frábæru ættingjum, yndislegu systkinum minum og þó sérstaklega mömmu minni og pabba, fyrir ótakmarkaðan stuðning og hlýju á erfiðum timum i lifinu – Það er ykkur að þakka að brosið mitt er komið aftur sem ég er búinn að sakna i langa, langan tima.

Það þarf einfaldlega að kenna börnum að það eru ekki allir eins i þessum heimi og það þarf að kenna þeim að þeir sem eru öðruvisi eru ekki verri en hinir – Fáviska er ansi hátt rikjandi hérna á þessu landi og um allan heim en það er hægt að breyta þvi.

Þeir sem vilja vita um sjúkdóm minn mega endilega feimnislaust senda mér skilaboð og ég svara með bros á vör og endilega deila þessari sögu ef þið hafið tilhneigingu til þess.

Eitt sem ég vil segja að lokum við fólk sem á bágt og liður illa vegna eineltis eða þess háttar “Þetta er ekki endirinn”

Takk.

1170690_10201206101808359_648126646_n

Þrátt fyrir mikla umræðu í þjóðfélaginu og vilja til að útrýma einelti þá viðgengst það enn. Alltaf eru að koma fram nýir og nýir einstaklingar sem hafa sögu að segja af einelti og oft hefur það staðið yfir í mörg ár og stendur jafnvel enn yfir.
Við verðum að byrja hjá okkur sjálfum, hætta að leggja í einelti og kenna börnunum okkar að við erum öll fædd einstök, ólík en samt svo lík og eigum öll rétt á að lifa okkar lífi án þess að veröa fyrir aðkasti andlega og félagslega af völdum annarra.
Dagur gangi þér vel í því sem þú tekur þér fyrir hendur.

 

 

SHARE