8 ráð til að hjálpa þér að ná markmiðum þínum

Ég hef mjög oft átt erfitt með að ná markmiðunum mínum, bæði vegna frestunaráráttu og svo vegna hálfgerðs verkkvíða. Ég á það til að mikla einföldustu hluti fyrir mér og oft líður mér eins og þeir séu hreinlega óyfirstíganlegir.

Hinsvegar þegar að ég virkilega ætla mér og þrái að gera eitthvað hef ég því notað þessi ráð hér og ég vona innilega að þetta hjálpi þér við að ná þínum markmiðum.

  1. Settu þér lítil og auðveld markmið í byrjun
    og alls ekki of mörg. Gefðu þér tíma til að klára þau og ákveddu hvenær þú ætlar að gera þau. Eitthvað sem þú veist að þú munt ná að klára.
    Oft þarf maður bara að ýta sér af stað mjúklega, njóta góðu tilfinninganna sem maður finnur þegar hlutirnir sem maður þarf og vill eru kláraðir.
  2. Skrifaðu markmiðin niður á blað, ásamt því hvenær þau eiga að gerast og hvað þú þarft að gera til þess að ná þeim. 
    Um leið og þú ert búin/n að skrifa það niður verður það ekta. Oft er gott að hafa miðann með markmiðinu þar sem þú sérð hann reglulega.
  3. Hrósaðu þér fyrir hvert skref sem þú tekur í áttina að markmiðinu
    og klappaðu þér á bakið, rétt eins og þú myndir gera fyrir vin þinn ef hann hefði gert það sama.
    Oft er erfitt að viðurkenna það sem maður gerir, maður er harðasti dómarinn við sjálfan sig og oftar en ekki er auðveldara að finna hluti til að gagnrýna á slæman hátt í stað þess góða. ,,Ég hefði nú getað gert þetta betur”. 
    Það sem hjálpar mér í þessari stöðu er að ímynda mér að vinur minn hefði gert það sama og ég og hvað ég myndi segja við hann.
  4. Settu skýr markmið og ef þau eru stór, reyndu þá að gera þau frekar að fleiri markmiðum heldur en að einu stóru.
    Dæmi;
    ,,Ég ætla að þrífa allt húsið fyrir mánudaginn næsta”
    Skiptu því sem að þarf að gera niður á tímann sem þú hefur til að klára. Einfaldaðu allt sem þú getur og ekki vera hrædd/ur um að biðja um aðstoð.
    Ef húsið er hreint á Mánudeginum, þá er markmiðinu náð – alveg sama hvernig þú fórst að því að ná því. Með því að biðja um aðstoð eða jafnvel bara að segja frá markmiðinu gerir það að verkum að þau verða framkvæmanlegri. 
  5. Settu raunhæf markmið. 
    – Þú missir ekki tíu kíló á korteri. Þú hleypur ekki maraþon án þess að æfa þig fyrir það og þú nærð ekki markmiðunum þínum ef þau eru óraunhæf og ósanngjörn.
  6. Passaðu þig á skuggamarkmiðunum.
    Ég fór í smá framhaldsskólanám í fyrra og var með nemendum á fyrstu önninni sinni í tímum, ég náði ekki að klára framhaldsskóla á sínum tíma og er því komin ansi stutt hvað það varðar. Ég var búin að ákveða það að ég ætlaði að gera bara mitt besta og að ef að ég næði áfanganum að þá skipti ekki máli hvað ég fengi í einkunn. En innst inni fannst mér að ég, verandi eldri og virkilega að reyna, ætti að fá hæstu einkanirnar og vera ,,best” í faginu. Ég varð fok reið þegar að ég fékk 9,7 en ekki 10 á prófi afþví að annar nemandi fékk 10. Mér fannst eins og ég gæti þá allt eins sleppt því að vera að læra þetta og ég missti sjónar á markmiðinu mínu. Ég var of kröfuhörð við sjálfa mig og brann út mjög fljótt. Verandi að sinna öllum mínum skildum og bæta svo ofan á það að vera lærandi langt fram á nótt, vinna sama verkefnið nokkrum sinnum til að reyna að gera það fullkomið og berja mig niður fyrir allt sem ég gat. 
  7. Ef markmiðið er erfitt skaltu nota verðlaunakerfi.
    Ó, ertu ekki þriggja ára? Nei, ekki ég heldur. En það virkar!
    Keyptu þér það sem þig er búið að langa í þegar að markmiðinu hefur verið náð eða dekraðu við þig á þann hátt sem þú kýst. Fáðu jafnvel vin til þess að plana eitthvað skemmtilegt fyrir þig þegar að þú ætlar að vera búin/n að ná markmiðinu, það er ekkert eins drífanidi og surpræs verðlaun í lok verkefnissins.
  8. Ekki berja þig niður ef þú nærð ekki markmiðunum þínum.
    Ef þú nærð því ekki ertu klárlega að byrja á vitlausum enda og þarft að endurskoða markmiðið þitt, vera raunsæ/r og heiðarleg/ur. 
    Oft þegar að ég setti mér markmið voru markmiðin mín sjúklega flott og litu sjúklega vel út á blaði. 
    ,,Borða holt, fara í ræktina daglega, missa 5 kíló, vera dugleg að skrifa pistla og greinar, leika meira við dætur mínar, fara snemma að sofa, halda heimilinu hreinu, hitta vini oftar, rækta sambandið okkar Manna, elska migog vera dugleg að rækta sjálfa mig og dekra.” 
    Þetta er allt eitthvað sem mig langar sjúklega mikið til að ná að græjja bara einn tveir og bingó! En hvernig í ósköpunum á ég að ná að halda utan um þetta allt þegar að ég hef ekki meiri tíma en ég hef nú þegar? Raunhæft markmið er lausnin, að tímasetja markmiðið og standa við það, að fá aðstoð og að vera sjálfum sér trúr.
    Kannski er þetta eitthvað sem þig langar að stefna að í framtíðinni, en hvar er byrjunin?
    Ekki gefast upp, það er yfirleitt hægt að reyna aftur – svo gangi þér vel!

SHARE