Við eigum að vita betur! – Er þetta ekki tímaskekkja?

Ég var að keyra heim úr vinnunni um daginn þegar ég sá konu á reiðhjóli, á töluverðri ferð og hún var ekki með neinn hjálm. Ég var nýverið að tala við mitt eigið barn um það, hversu mikilvægt það er að vera með hjálm og það megi alls ekki gleyma því. Hjálmurinn á að fara á höfuðið hvort sem verið er að fara á hlaupahjól, hjólaskauta eða venjulegt hjól.

Hafandi lesið svoleiðis yfir barninu mínu þá þætti mér það fáránlegt að fara svo sjálf út að hjóla án hjálms, en ég á að sjálfsögðu sjálf minn eigin hjálm sem ég nota þegar ég fer með út að hjóla. Ég segi það ekki, ég hef alveg verið meira töff, en þegar ég er með hjálminn, en ég veit líka að ég er fyrirmynd barnsins míns og verð því að sýna gott frumkvæði, fyrir utan það að ég vil líka eiga séns á því að sleppa við meiriháttar meiðsl ef ég skyldi nú fljúga á hausinn.

Mér finnst fullorðnir án hjálms vera tímaskekkja. Við eigum að vita betur! Mér finnst þetta nánast vera eins og þegar fólk reykti í bílnum með börnin sín. Ég man eftir því þegar við systkinin vorum lítil og við vorum kannski að keyra í eða úr skóla og mamma og pabbi reyktu bæði í bílnum. Þau gerðu það svo stundum „fyrir okkur“ að reykja ekki á sama tíma þegar veðrið var vont því þá snjóaði inn í bílinn og ef báðir gluggarnir voru opnir (og þegar ég segi opnir þá er ég að meina svona eins og hálfs sentimetra rifa) þá kom svo mikill trekkur, svo þau skiptust frekar á að reykja. Svo komum við í skólann eins og nýreykt hangikjöt, græn í framan af reyknum, guðslifandi fegin að komast út í hreina loftið.

Þetta gerir fólk ekki lengur, af því við vitum betur í dag. Mér finnst líka rosaleg tímaskekkja að liggja í ljósabekkjum nokkrum sinnum í viku. Við vitum betur en það eru samt fjölmargir að gera þetta, vitandi það að þetta er bráðkrabbameinsvaldandi og maður verður eins og gömul brún leðurtaska um þrítugt.

Skilaboðin mín eru því þessi: Verið með hjálm á hjóli, ekki reykja yfir börnunum ykkar og hættið að liggja í ljósum! 🙂

SHARE