Á Vogi er byggt til framtíðar

 

BjörnLogi Þórarinsson

Eftir Björn Loga Þórarinsson

Þann 13. september sl. tók öflugur hópur kvenna sem starfa við meðferð SÁÁ fyrstu skóflustunguna að viðbyggingu við sjúkrahús SÁÁ á Vogi. Skóflustungan markar verulegt framfaraskref í meðferð áfengissjúkra á Íslandi því henni er ætlað að hjálpa veikustu skjólstæðingum Vogs mun betur en nú er hægt.

Þessi skóflustunga er tekin á sama tíma og Vogur nálgast 30 ára afmæli sitt nú í desember. Á þessum 30 árum hafa yfir tuttugu og fjögur þúsund einstaklingar komið til meðferðar á Vog og reynt að stíga sín fyrstu skref til endurhæfingar að nýju og betra lífi án áfengis. Á þessum tímamótum þakka samtökin einstaklingum, stofnunum og stjórnvöldum þann velvilja og stuðning sem þau hafa sýnt samtökunum til þessa.

Í gegnum árin hefur aldur, neyslumynstur og önnur samsetning sjúklingahópsins sífellt breyst og hefur það kallað á þróun sérstakra meðferðarúrræða fyrir ólíka hópa með ólíkar þarfir, t.d. sérstakrar meðferðar fyrir unglinga, konur, eldri einstaklinga o.s.frv.

Hin síðari ár hefur ákveðinn hópur sjúklinga orðið meira áberandi í starfseminni á Vogi og allar vísbendingar eru um að hann muni áfram fara stækkandi. Þetta eru einstaklingar sem eru líkamlega veikari en áður og þurfa mun meiri hjúkrun á fyrstu stigum meðferðar, oft eldri einstaklingar sem hafa fengið alvarlega fylgikvilla vegna áfengisdrykkju. Þessi hópur krefst mun meiri aðstoðar, hjúkrunar og vöktunar en aðrir.

Starfsfólk Vogs vill hjálpa þessum hópi en húsnæði Vogs er ábótavant. Það býður ekki upp á afeitrun svo líkamlega veikra einstaklinga en þess má geta að ekki eru salerni né sturtur inni á herbergjum nú. Einnig er aðstöðu til hjúkrunar, lyfjavörslu og lyfjagjafar ábótavant og uppfyllir hún ekki nútímakröfur um öryggi og þessu verður að breyta.

Skóflustungan nú er tekin fyrir þennan stækkandi hóp, hún er skýrt mark um að SÁÁ vill aðlaga meðferð sína að þörfum og öryggi sjúklinganna og þannig er hún skóflustunga til framtíðar. Hún er til marks um vilja í verki að veita þessum hóp faglega, örugga og mannsæmandi afeitrun.

Af því að SÁÁ þarf að greiða kostnað við verkið af sjálfsaflafé, munum við óska eftir fjárhagsstuðningi velviljaðra einstaklinga og fyrirtækja næstu vikur og mánuði til að hjálpa okkur að svara kalli þessa hóps. Ríkuleg ástæða er til að leggja starfsfólki Vogs lið, því áfengis- og vímuefnasýki er erfiður sjúkdómur sem rænir okkur fjölmörgum einstaklingum. Erfitt og sárt er að horfa upp á vini, ættmenni, foreldra, afa og ömmur drekka frá sér svo illa heilsu og lífsgetu. Þessum hóp viljum við hjálpa til að rísa á ný á fætur með faglegum, öruggum og mannsæmandi hætti en það er ekki hægt án ykkar stuðnings.

 

Höfundur er sérfræðingur í taugalækningum og almennum lyflækningum og félagi í framkvæmdastjórn SÁÁ

 

SHARE