Að horfa á konu: samtal föður og sonar – Skyldulesning

Nate Pyle skrifaði áhrifaríkan pistil sem birtist á síðunni natepyle.com. Pistillinn vekur mann til umhugsunar og þess væri óskandi að allir foreldrar ræddu þessi mál við börnin sín. Hér fyrir neðan birtum við þennan pistil, íslenskaðan.

Að horfa á konu: samtal föður og sonar 

 

Sá dagur mun koma að ég verð að tala við son minn. Nei, nei, ekki þetta samtal sem allir foreldrar kvíða og krökkunum finnst svo hallærislegt. Mér er alveg sama þó fólk fari hjá sér, það getur bara verið gaman.   

Nei. Ég er að tala um allt annað samtal. Ég er að tala um hvað ég segi við hann þegar ég hef tekið eftir að hann er farinn að horfa – eins og við karlmenn erum þekktir fyrir að gera- með losta í augum. Við gætum verið einhvers staðar úti við í margmenni t.d. í stórverslun, pabbar fara stundum þangað með strákunum sínum  og þá tek ég eftir því að hann er farinn að horfa. Þá er rétti tíminn til að ræða saman.  

Viltu rétt koma og tala við mig. Ég tók eftir að þú varst að horfa á hana og ég er ekki að skamma þig eða gera athugasemdir við það. Ég skil alveg af hverju þú varst að horfa. Ég skil það mjög vel. En það er hvernig þú horfir sem við þurfum endilega að spjalla saman um.

Margir munu eflaust segja þér að kona verði að gæta að hvernig hún klæðir sig svo að hún sé ekki að freista karla til að horfa á sig á rangan hátt. En nú ætla ég að segja þér svolítið.

Það er á ábyrgð konunnar að ákveða á morgnana hvernig hún klæðir sig. Svo berð þú ábyrgð á að horfa á hana sem manneskju hvernig sem hún er klædd.

Þér finnst kannski að það sé henni að kenna að þú ert að glápa á hana- þú ert að því- af því hún er klædd svona en ekki hinsegin. En ekki hugsa svona. Þú ert ekkert fórnarlamb. Þú getur alveg ráðið yfir augunum þínum. Þú ættir að æfa þig. Æfðu augun þín að horfa beint framan í hana. Settu þér að sjá hana, ekki fötin hennar eða líkamann. Ef þú ert að leika eitthvert varnarlaust fórnarlamb ertu kominn í þann lygavef að þú sért bara að bregðast við ytra áreiti og getir ekki greint rétt frá röngu, greinir ekki manneskjunna frá holdinu.

Taktu nú vel eftir. Þetta er bara fáránleg  lygi.

Þú ert merkilegri en þetta. Og konan sem þú ert að horfa á er meira en fötin. Hún er meira en líkaminn. Mikið er talað um hvernig karlmönnum hættir til að gera konur að –hlutum- og það er mikið til í því. Fólk  reynir oft að ná taki á því sem það er hrifið af, gera það að „hlutum“ svo að það geti haft stjórnina. Ef þér þykir vænt um einhverja manneskju ættirðu að passa að gera hana ekki að einhverjum hlut. Ef þú hugsar um eða álítur aðra manneskju sem hlut ertu sjálfur búinn að fyrirgera mennskunni.

Tvenns konar viðhorfum um klæðnað kvenna verður haldið að þér.  Annars vegar verður þér sagt að konur verði að klæða sig á vissan hátt svo að karlar taki eftir þeim. Hin skoðunin segir að konur verði að klæða sig til að vernda menn fyrir sjálfum sér. Sonur minn, þú skalt ekki hlusta á þetta rugl.

Kona- eða hvað manneksja sem er ætti ekki að þurfa að klæða sig á einhvern hátt til að ná athygli þinni. Þú ættir að veita manneskjum alla athygli þína af því einu að þau eru manneskjur. Og það er alveg ótækt að kona skuli þurfa að halda að hún þurfi að vernda þig fyrir sjálfum þér. Þú verður að stjórna þér sjálfur. 

Því miður er oft mikill ótti í samskiptum karla og kvenna. Fólk óttast að því verði hafnað, það óttast að verða fyrir ofbeldi og að missa stjórnina. Á vissan hátt hefur kirkjan ýtt undir þennan ótta. Við óttumst hvert annað af því okkur hefur verið kennt að næsti maður sé hættulegur. Okkur hefur verið kennt að líkami konunnar geri okkur, karlana að syndurum. Okkur er sagt að menn geri einhverja vitleysu ef þeir sjá of mikið af líkama konunnar. En við skulum hafa eitt alveg á hreinu. Líkami konunnar mun ekki valda þér skaða.

Ef þú gerir einhverja vitleysu er það af því að þú ákvaðst sjáfur að gera vitleysu. Vertu ekki að auka óttann sem er ráðandi milli karla og kvenna.

Líkami konunnar er fallegur, dásamlegur og leyndardómsfullur. Sýndu honum virðingu með því að virða hana sem einstakling sem á vonir, drauma, margslugna reynslu og tilfinningar og langanir. Þú skalt styðja við sjálfstraust hennar og hvetja hana. En gerðu það ekki með þvi hugarfari að hún sé veikbyggðari en þú. Það er alvitlausasta hugmyndin sem er á sveimi um konur. Konur eru ekki veikbyggðari en karlar. Þær eru ekki hið veika kyn. Þær eru hitt kynið, annað af tveim.

Ég er ekki að segja þér að hætta að horfa á konur. Nema síður sé. Ég er að segja þér að horfa á konur. Sjá þær eins og þær eru. Horfa á þær ekki bara með augunum heldur líka með hjartanu. Ekki leita að einhverju sem æsir upp skynjun þína, horfðu á manneskjuna.  

Ég er að vona að það breyti framkomu þinni við konur þegar þú breytir því hvernig þú horfir á þær. Ekki vera kringum konur. Vertu með konum. 

Þannig er nefnilega að þær langar líka að vera með þér, óttalausar við dóma, sektarkennd og fyrirlitningu. Þær vilja ekki að litið sé á þær sem hluti eða að þannig sé komið fram við þær. Það eru ekki bara konur sem óska eftir þannig samskiptum. Allt fólk þráir þannig samskipti.

Þegar að er gáð vilt þú líka að samskipti þín við aðra séu á þessum nótum.

 

 

Heimild
Íslenskun  – Hún.is

SHARE