Að láta sig fljóta hefur magnaða kosti

„Eitt stærsta heilsufarsvandamál nútímans er streita og flot er mjög gott svar við því. Að fljóta í þyngdarleysi í vatni losar um streitu og veitir gífurlega vellíðan,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir, sem á og rekur heilsuhofið Systrasamlagið á Seltjarnarnesi, ásamt systur sinni Jóhönnu Kristjánsdóttur.

Þegar systurnar opnuðu Systrasamlagið fyrir þremur árum var eitt af því fyrsta sem þær gerðu að efna til samflota. „Við byrjuðum nú bara eins og hverjir aðrir nördar upp í Neslaug,“ segir Guðrún og hlær. „Okkur fannst vöruhönnuðurinn Unnur Valdís Kristjánsdóttir vera með gullmola í höndunum en hún hannaði flothettu og fótaflot sem gerir það að verkum að þú getur gjörsamlega sleppt þér og flotið í laug. Við prófuðum hönnunina og sáum strax að þarna var eitthvað sem við þyrftum að koma á framfæri við almenning, þannig að við fórum að efna til samflota þar sem fólk gat fengið lánaðar hettur og prófað.“

Að sögn Guðrúnar hefur orðið sannkölluð sprenging síðan þær systur voru fyrst að láta sig fljóta fyrir þremur árum. „Það hefur orðið sprenging hvað vinsældir flotsins varðar, það hefur eiginlega orðið einhverskonar vakning og að láta sig fljóta hefur aldrei verið vinsælla. Núna eru þó nokkrar sundlaugar farnar að bjóða upp á samflot og við finnum ótrúlegan áhuga allsstaðar frá, bæði frá Íslendingum og ferðamönnum.“

Mikið hefur verið rannsakað hvaða áhrif flot hefur á heilann. „Svokallaðir flottankar hafa verið mjög vinsælir í Bandaríkjunum og víðar. Þá fer fólk inn í flot og lætur sig fljóta í söltuðu vatni í klukkutíma og eru vísindamenn mikið að rannsaka núna hvaða áhrif það hefur á heilann að fljóta um í þyngdarleysi. Þessar rannsóknir hafa verið að koma alveg rosalega vel út. Vísbendingar eru um að fólk sé að ná svo mikilli slökun í flotinu að það geti til dæmis unnið á áfallastreituröskun og þyngri málum.“

26790_flot2

Guðrún segir flot hafa ótal marga og magnaða kosti. „Það fyrsta sem fólk upplifir yfirleitt að loknu floti er rosalega góður nætursvefn. Að láta sig fljóta í þyngdarleysi er líka verkjastillandi og tekur álag af hryggnum. Flotið jafnar blóðþrýsting, getur hjálpað þeim sem eiga við námsörðugleika að stríða, dregið úr mígreni og haft góð áhrif á andlega sjúkdóma á borð við þunglyndi.

Guðrún á erfitt með að lýsa því hversu dásamlegt það er að láta sig fljóta í laug eða potti utandyra og horfa upp í himininn. „Þetta er svo góð leið til þess að slaka á, hugleiða og fá hlé frá daglegu amstri. Flot kemur á jafnvægi á milli heilahvela og gagnast mjög til dæmis skapandi fólki og íþróttamönnum til þess að sjá hluti fyrir sér. Með því að koma á jafnvægi á milli heilahvela getur flot meðal annars eflt hugmyndaflæði. Það hefur einnig sýnt sig að þeir sem stunda flot reglulega eru miklu rólegri í daglegu lífi og láta streituna síður ná til sín.“

26790_flot3

Birtist fyrst í …amk fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE