Ætlar að hafa kjötbollur í jólamatinn

Ásdís Bendiktsdóttir og fjölskylda hennar hafa ákveðið að hafa kjötbollur í matinn um jólin. Hún segir okkur frá því hvers vegna í pistli sem hún sendi okkur:

 

Á morgun er aðfangadagur og amstur aðventunnar senn á enda. Fólk spyr sífellt „Hvað á að hafa í jólamatinn?“, því þetta er auðvitað ein mikilvægasta spurning ársins.

Flestir eru með einhverskonar kjöt í aðalrétt og á mörgum heimilum er nostrað við sósuna. Ísinn er búinn til nokkrum dögum fyrr (eða amk daginn áður) og allir vilja fá möndlugjöfina. Það er lagt fallega á matarborðið, fólk klæðir sig (oftast) í jólafötin og sumir hlusta á messuna, aðrir fara í messu á meðan enn aðrir hlusta á Jólahjólið.

Hvað er það helst sem við sækjumst eftir á þessari stundu? Krakkarnir vilja örugglega bara að matartíminn líði sem hraðast og fullorðna fólkið er eflaust meira í því að vilja njóta stundarinnar. Er það maturinn sem er aðalmálið? Undirbúningurinn? Samveran? Hátíðlegheitin? Eflaust sitt af hvoru tagi og misjafnt frá einum einstaklingi til annars.

Fjölskyldur og þeirra mynstur eru jafnmismunandi og við erum mörg. Þegar unga fólkið fer að halda sín eigin jól verða oft árekstrar um ‘hvað á að gera’ en yfirleitt finnur fólk þær venjur sem þeim þótti vænst um og heldur í þær og býr síðan til sínar eigin.

Það er of-framboð af kjöti og kræsingum í verslunum um hátíðirnar. Allskonar kjöt, nammi, gos og áfengi. Jóla þetta og jólahitt. Öll verðum við að kaupa það sem við þurfum áður en jólin koma. En aftur að þessari mikilvægu spurningu. Hvað er það sem við erum í raun og veru að sækjast í?

Nú til dags geta margir veitt sér góðar máltíðir um helgar, eða á öðrum tyllidögum. ‘Jólasteikin’ er ekki sú eina yfir árið og epli fást nú allt árið um kring í búðum. Þetta eru breyttir tímar en enn eldum við ‘steikina’ á jólunum. Þegar öllu er á botninn hvolft að þá er þetta ein kvöldmáltíð af 365 á árinu.

Lasagne, kjötbollur, hamborgari, pítsa, pasta, brauð og grjónagrautur. Þetta eru allt réttir sem stelpurnar mínar elska. Þær eru fjögurra og tveggja og hálfs árs. Þær hafa ekki hugmynd um að jólasteikin verði í boði á aðfangadag. Stelpurnar hafa engar væntingar fyrir jólamatinn þar sem þau jól sem þær hafa upplifað eru ekki mörg og þær muna jafnvel ekki hvað þessi jól snúast um. Þær hafa sett skóinn út í glugga fyrir einhverja sveina sem koma inn til okkar á meðan við erum sofandi og hafa fengið ýmsilegt skemmtilegt í skóinn. Piparkökur, heitt kakó og jólamyndir hafa verið í boði á aðventunni, allt er þetta uppbygging fyrir
JÓLIN. En hvert er innihald jólanna?

Úr minni barnæsku finnst mér standa upp úr (fyrir utan pakkana) hátíðlegheitin, jólatónlistin, notalegar stundir með kertaljósi, teiknimyndir, hreinleikinn og fyrst og fremst rólegar samverustundir. Maturinn varð ekki minnistæður fyrr en ég varð unglingur eða farin þegar ég var farin að slá í að vera fullorðin. Af matnum var ég spenntust fyrir maísbaununum, laufabrauðinu og appelsíninu (af því mér fannst malt og appelsín ekki gott fyrr en í seinni tíð). Ég man eftir því að hafa verið með allar nýju gjafirnar mínar inni í hreinu herbergi áður en ég fór að sofa á aðfangadagskvöld. Það voru stundir sem ég tengi sterkt við jólin.

Þetta er það sem stóð upp úr hjá mér og það sem ég vil koma áfram til stelpnanna minna. Af því þær eru litlar ætlum við ekki að vera með steik. Við ætlum ekki að elda í nokkrar klukkustundir með tvær spenntar skottur í kringum okkur. Þess í stað verða á boðstólnum eitthvað sem okkur þykir öllum gott: kjötbollur í brúnni sósu með kartöflum og títuberjasultu. Þessa máltíð borðum við með jólatónlist undir, kertaljós í nokkrum stjökum og höfum það kósí. Hér verður engin jólasteik í boði, heldur jólabollur.

Svarið við „Hvað á að hafa í jólamatinn?“ hefur því sett marga í kringum okkur í skrítnar stellingar. Viðbrögðin hafa verið allt frá „Já, en sniðugt hjá ykkur!“, yfir í „En hvað er svona jólalegt við það?“ og svo „Þið komið okkur sífellt á óvart“. Jólamaturinn fyrir okkur er jólalegur því við eigum saman notalega stund í skammdeginu. Maturinn er ekki aðalatriðið heldur öll umgjörðin í kringum hann.

Ásdís Benediktsdóttir

SHARE