Áfengi og vímuefni

Lög gera ráð fyrir að áfengisneysla hefjist ekki fyrr en um tvítugsaldurinn. Margir unglingar eru þó farnir að drekka mjög ungir. Vegna þess hve unglingar geta verið áhrifagjarnir getur áfengisneysla þeirra leitt það af sér að þeir leiðist mun frekar út í hluti sem þeir myndu ekki gera án áfengis s.s. afbrot og fíkniefnaneyslu.

Einstaklingar sem eiga erfitt með að finna sig í hóp og nota til þess áfengi lenda oft í því að drekka of mikið og jafnvel gera lítið úr sjálfum sér. Ýmislegt á sér stað sem þeir iðrast gjarnan daginn eftir sem gerir það síðan að verkum að það verður ennþá erfiðara að takast á við hópinn.

Hvað getur áfengisneysla gert mér?

  • Alkóhólið fer beint inn í blóðrásarkerfið og hefur þannig áhrif á öll líffærakerfin.
  • Mikil drykkja getur valdið skorpulifur og krabbameini í lifur.
  • Börn alkóhólista eru í meiri áhættu að verða alkóhólistar en aðrir.
  • Mikil drykkja getur dregið úr testósterón framleiðslu líkamans og þannig valdið getuleysi hjá karlmönnum.
  • Áfengisneysla eykur afbrotatíðni margfalt.
  • Áfengisneysla eykur tíðni sjálfsvíga.
  • Áfengisneysla veldur oft dauðaslysum – í Bandaríkjunum má rekja 38% drukknana til áfengisneyslu.
  • Langtímaáhrif mikillar áfengisneyslu eru lystarleysi, vítamínskortur, magasár, getuleysi, lifrarskemmdir, hjartaskemmdir, skemmdir á taugakerfi og minnisleysi.

Hvenær veit ég að drykkjan er orðin vandamál?

  • Það er mjög líklegt að drykkjan sé orðin vandamál þegar þú byrjar að velta þessari spurningu fyrir þér.
  • Þér gengur illa að stjórna drykkjunni – það virðist ekki skipta máli hversu mikið þú ákveður að drekka í upphafi þú endar oftast með því að drekka of mikið.
  • Þú notar áfengi til að flýja vandamálin þín.
  • Þú getur ekki beðið eftir því að skipta yfir í „djammkarakterinn” þinn.
  • Persónuleikabreytingar – breytir drykkjan þér úr Dr. Jekyll í Mr. Hyde.
  • Mikið áfengisþol – þú getur drukkið næstum hvern sem er undir borðið.
  • Minnistap – þú manst ekki hvað gerðist kvöldið sem þú varst að skemmta þér.
  • Þú lendir í vandræðum í skóla eða á vinnustað vegna áfengisneyslu.
  • Vinir og vandamenn eru farnir að tjá sig um neyslu þína og hafa áhyggjur af henni.

Alkóhól hindrar eðlileg boðskipti til heilans gegnum ákveðið efnaferli en þetta hefur þær afleiðingar að skynjun þín breytist, tilfinningar þínar geta blekkt þig, sjón þín og heyrn eru ekki eins skýr og samhæfing hugsana og hreyfinga er brengluð. Þegar samhæfingin truflast þá er viðbragðstíminn þinn t.d. mun lengri en venjulega og því er mjög varasamt að aka bíl eða hjóla undir áhrifum.

Alkóhólismi er sjúkdómur – alveg eins og sykursýki eða hár blóðþrýstingur. Það er mikilvægt að leita sér hjálpar sem fyrst áður en sjúkdómurinn fer að sýkja allt umhverfi þitt líka. Talað er um að fjölskyldur alkóhólista sýkist líka því sjúkdómurinn veldur svo mikilli vanlíðan hjá fjölskyldumeðlimum og hvetur til óheilbrigðra samskiptaaðferða.

Ef þú heldur að þú eigir við drykkjuvandamál að stríða þá eru margir í sömu sporum og þú. Leitaðu þér aðstoðar sem fyrst hjá foreldrum, vinum eða ættingjum sem þú heldur að geti stutt þig.

Ofskynjunarefni

Ofskynjunarefni eru efni sem breyta raunveruleikaskynjun einstaklingsins. Algengustu efnin hér á landi eru LSD og sveppir.

Einstaklingur undir áhrifum þessara efna missir skynjun á stund og stað og einnig breytist fjarlægðarskynið töluvert. Þessi lyf geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar s.s. ofbeldisfulla hegðun. Þessi hegðun leiðir oft af sér alvarlega atburði s.s. afbrot, líkamsmeiðingar og sjálfsvíg.

Einstaklingar undir áhrifum þessara efna valda sjálfum sér eða öðrum gjarnan alvarlegum áverkum.

Hvað getur neysla ofskynjunarefna gert líkamanum?

  • Eykur hjartsláttinn og hækkar blóðþrýstinginn.
  • Veldur svefnleysi og skjálfta.
  • Skerðir samhæfingu hugsunar og hreyfinga.
  • Veldur samhengislausu og bjöguðu tali.
  • Minnkar sársaukaskyn og snertitilfinningu og getur því orðið til þess að einstaklingar ganga langt í líkamsmeiðingum bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum.
  • Efnið getur valdið krömpum.
  • Efnið getur einnig valdið langvarandi meðvitundarleysi – „COMA”.
  • Hjarta og lungnabilun er þekkt í kjölfar neyslunnar.

Hvað getur neysla ofskynjunarefna gert sálinni?

  • Einstaklingnum finnst hann úr snertingu við umhverfið og verður mjög einmana.
  • Þunglyndi, kvíði og ofskynjanir eru algeng.
  • Ofbeldisfull hegðun vegna efnaskiptatruflana í heila.
  • Einstaklingurinn er ringlaður og óöruggur, veit oft ekki hvað er raunveruleiki og hvað er ímyndun. Hann verður tortrygginn og finnst hann vera að missa stjórn á aðstæðum og lífi sínu.
  • Skyndilegar minningar koma uppí hugann – „Flashbacks”.
  • Hegðunin minnir oft á geðklofasjúkling í slæmu ástandi.
  • Stundum má sjá einstakling í stjarfaástandi, þá situr hann og starir fram fyrir sig og erfitt er að ná nokkru sambandi við hann. Hann er áttar sig illa á stað og stund og endurtekur gjarnan merkingarlaus orð fyrir munni sér.

Enginn bregst eins við neyslu ofskynjunarefna og því gætir þú fengið öll verstu einkennin við þína fyrstu neyslu.

Sjá einnig: Hvað gerist ef þú hættir að drekka áfengi?

Áhrif ofskynjunarefna standa yfir í 12 klukkustundir!
Viltu virkilega missa stjórn á líkama og sál í allan þann tíma?

Innöndunarefni

Þegar talað er um innöndunarefni er átt við efni sem einstaklingurinn andar að sér – sniffar. Þau innihalda margvíslega efni s.s. bensínafurðir eða hreinsiefni.

Innöndunarefni geta valdið margvíslegum einkennum bæði á líkama og sál. Innöndun í eitt skipti getur valdið dauðsfalli.

Hvað gerist ef ég „sniffa”?

Notkun í aðeins eitt skipti getur valdið:

  • skyndidauða
  • köfnun
  • ofskynjunum og alvarlegum skapsveiflum
  • Tilfinningaleysi og náladofa í útlimum.

Langvinn neysla getur valdið:

  • höfuðverkjum, vöðvaslappleika og kviðverkjum
  • missi lyktarskyns
  • stanslausri ógleði og blóðnösum
  • lifrarbólgu
  • ofbeldisfullri hegðan
  • óreglulegum hjartslætti
  • lifrar, lungna eða nýrnabilun
  • heilaskemmdum
  • skemmdum á taugakerfi útlima
  • hættulegum efnaskiptatruflunum í líkamanum
  • htjórnleysi á hægðum og þvagi – þú gerir í buxurnar.

Hvers vegna get ég dáið af aðeins einu skipti?

Það eru að minnsta kosti 5 ástæður fyrir því að hægt er að deyja af því að sniffa aðeins einu sinni. Þær eru eftirfarandi:

  • Súrefnisskortur! Súrefnið er flutt um líkamann með ákveðnu efni sem heitir Hemóglóbín. Súrefnið bindur sig fast á hemóglóbínið rétt eins og við festum beltin í bíl okkar. Innöndunarefnin eru hins vegar frekari en súrefnið og henda því af og binda sig sjálf á í staðinn. Þetta gerir það að verkum að súrefnið kemst ekki rétta leið um líkamann og þú deyrð af súrefnisskorti.Það skiptir engu máli þó það sé blásið í þig því efnið hleypir engu súrefni að!
  • Köfnun! Það kemur fyrir að einstaklingar sem sniffa úr litlum plastpokum gleypa pokana þegar víman svífur á þá og þeir kafna af völdum þess.
  • Uppköst og meðvitundarleysi eru algeng í kjölfar neyslu innöndunarefna. Ef meðvitundarlítill einstaklingur kastar upp er mjög hætt við því að hann kafni í eigin uppköstum.
  • Kæruleysistilfinning! Veldur því að áhættur eru teknar sem oft enda með dauðsfalli.

„Sudden sniffing death syndrome” – er ákveðið ferli sem getur farið í gang í líkamanum og endar með hjartastoppi.

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

 

SHARE