Afhjúpaður!

Á Cheeriospökkum er tilvitnun í einhvern karl sem er ágæt og er eitthvað á þessa leið: Að vera fullkomlega hreinskilinn við sjálfan sig er góð æfing. Það að standa fyrir framan spegilinn og horfast í augu við sjálfan sig, galla og fordóma, er kannski ekki alltaf auðvelt en það er hollt. Gallinn er bara sá, að yfirleitt eru það aðrir sem afhjúpa mann með einhverjum hætti.

Ég upplifði tvö þannig móment fyrir ekki svo löngu. Ég var að horfa á leik í sjónvarpinu og mínir menn voru með allt niður um sig, eins og svo oft í vetur. Þjálfaraómyndin ákvað að skipta inn á leikmanni sem mér hefur yfirleitt þótt lítið til koma og, ótrúlegt en satt, þá stóð drengstaulinn sig óvenjulega illa og tókst að klúðra jafnvel einföldustu sendingum. Strákurinn minn sat við hliðina á mér í sófanum með iPadinn og fylgdist með liðinu sínu spila við einhverja fallkandíadata. Eitthvað fór frammistaða minna manna í taugarnar á mér og sérstaklega varamaðurinn hæfileikalitli, sem átti undir lok leiksins skot sem var álíka fjarri því að hitta markið og hefði ég skotið úr sófanum.

„Meiri djöfulsins aumingi sem þessi maður er,“ sagði ég og blótaði. „Og allt liðið. Spila eins og andskotans kerlingar,“ bætti ég við og slökkti á sjónvarpinu. Það tísti í þeim stutta við hliðina á mér, enda hans menn búnir að skora fjögur mörk og honum leiddist ekkert að upplýsa mig um stöðuna í leiknum hjá Liverpool.

Skömmu síðar var komið að kvöldmatnum og ræddum við konan mín saman. Ég hafði galdrað fram hamborgara og naut þess að kjammsa á einum tvöföldum með góðum skammti af beikoni og frönskum með bernaisesósu. Ef ég hefði súkkulaðihúðað beikonið þá hefði þessi máltíð uppfyllt allar kröfur um næringu, þ.e. beikon, súkkulaði og bernaise. Sonur okkar sat og sveiflaði fótunum, sem öðru hvoru strukust við fætur systur hans. Hún urraði reglulega á hann að hann ætti að hætta því en hann lét sem hann heyrði ekki í henni. Þegar hann hafði klárað franskarnar af disknum sínum og gætt þess að næga tómatsósu væri að finna á borðinu í kringum diskinn sagði hann:

„Meiri franskar!“

„Nei, ekki fyrr en þú klárar hamborgarann,“ svaraði konan mín. Dóttir okkar greip tækifærið og hlóð glottandi fleiri frönskum á diskinn sinn.

„Af hverju fær hún fleiri franskar?“ spurði sonur minn og setti á sig snúð. Ég fylgdist með dóttur minni. Hún dýfði einni franskri í tómatsósu og stakk henni hægt upp í sig, án þess svo mikið sem að virða bróður sinn viðlits. Það munar ekki nema tæplega ári á þeim, þannig það er stutt í meting og skæting.

„Af því systir þín er búin með hamborgarann sinn,“ svaraði konan mín. „Svona nú, skelltu þessu upp í þig. Ég nenni ekki að reka á eftir þér með þetta.“

„En ég vil franskar,“ sagði sá stutti niðurlútur.

„Borðaðu hamborgarann þinn.“

„Nei, ekki nema ég fái franskar,“ svaraði hann og leit á móður sína. Konan mín andvarpaði og leit á mig með svipnum sem sagði að nú væri hann sonur minn.

„Hlýddu, karlinn minn! Mamma þín sagði að þú fengir franskar þegar þú værir búinn með hamborgarann,“ sagði ég og ýtti borgaranum að stráknum. Þrátt fyrir að dóttir mín væri fyrir löngu búin að borða sat hún sem fastast og virtist virkilega njóta þess að dýfa kartöflunum einni í einu vandlega í tómatsósu og smjatta á þeim við hlið hans.

„Nei, ég vil FRANSKAR!“

„Vá, hvað þú ert frekur, ég er aldrei svona frek,“ sagði dóttir mín. Konan mín hastaði á hana.

„Heyrðu mig, ekkert svona,“ sagði ég hvass.

„Ekki þessa frekju, þú stjórnar ekki hér,“ bætti konan mín. „Þú ræður ekki hér!“

„Þú verður ábyggilega bara sveitarstjóri með þessu áframhaldi,“ sagði dóttir mín og glotti.

Frænka konunnar er sveitastjóri einhvers staðar fyrir vestan. Mjög skelegg kona svo ekki sé nú meira sagt og við höfum stundum notað það sem viðmið fyrir börnin, þegar þau ganga of langt í frekjunni þá minnum við þau á að þau hafi ekki sömu völd og frænka þeirra, sveitastjórinn.

„Nei, ég er ekki einhver djöfulsins kerling!“ svaraði sonur minn reiður.

„Heyrðu, ég vil ekki heyra svona frá þér,“ svaraði konan mín reið. „Svona tölum við ekki um kvenfólk á þessu heimili og allra síst við matarborðið.“

Strákurinn leit upp til mömmu sinnar og síðan á mig.

„Já, en pabbi gerir það!“

Konan mín leit af drengnum á mig. Eitt augnablik óskaði ég þess að Obi-Wan Kenobi sæti við hliðina á mér, sveiflaði fingrunum framan í konuna mína og segði: „These are not the droids your looking for.“ Eða eitthvað þannig.

Svipurinn á andliti hennar sagði allt sem segja þurfti. Dóttir mín varð skyndilega mjög södd og lét sig hverfa inn í herbergi og strákurinn kláraði hamborgarann í þremur bitum en var svo horfinn út án þess að líta við fleiri frönskum.

Það þarf kannski ekki að fjölyrða um það að ég fékk örlítið tiltal um hvað sé æskilegt og óæskilegt að segja svo drengurinn heyri. Sem ég átti svo sem alveg skilið.

Seinna atvikið gerðist í fyrradag. Eins og svo oft áður sátum við í kaffi í vinnunni og ræddum saman. Einhverra hluta vegna vorum við að ræða kynskiptiaðgerðir, kynáttunarvanda og transfólk.

„Hugsið ykkur, þegar Baldur og Friðrik voru að alast upp þá var þeim sem voru með kynáttunarvanda bara ýtt út í horn, sumir jafnvel lokaðir inni. Ég meina, samkynhneigð var geðsjúkdómur. Sjáið hvað við höfum þroskast mikið sem samfélag síðan þá,“ sagði Þór.

„Ég veit það ekki,“ sagði Baldur hægt, „er þetta skref í rétta átt? Og hvað verður þá næst? Hvar ætlum við að draga mörkin?“

„Hvað ef ég vil vera svört?“ spurði Sif.

„Ekki láta eins og kjáni,“ svaraði Þór. „Það skiptir enginn um kynþátt.“

„Bíddu, af hverju ekki?“ spurði ég og fannst spurning Sifjar ekki með öllu heimskuleg.

Þór leit á mig.

„Af því það meikar ekkert sense.“

„Af hverju meikar meira sense að skipta um kyn? Hvers vegna get ég ekki upplifað mig sem svarta konu? Gæti ég ekki verið haldin kynþáttaráttunarvanda? Er það eitthvað ólíklegra en að ég telji mig vera karlmann í konulíkama? Sko, ég er alveg á því að við eigum að hafa frelsi til að velja og vera þau sem við erum og ef þetta transfólk vill skipta um kyn þá það, en ég myndi aldrei gera það.“

„Veistu, Sif, stundum ertu alveg treg í hausnum. Veistu hversu mikla fordóma transfólk og samkynhneigðir þurfa að líða út af svona fólki eins og þér?“ sagði Þór pirraður.

„Hvernig tengjast samkynhneigðir þessari umræðu? Hvaða fordóma er ég með?“ spurði Sif.

„Þú heldur að þú sért voðalega víðsýn og allt það, en þú ert blind. Sérð hreinlega ekki hve fordómafull þú ert í raun og veru, talandi um þetta fólk og þannig. Þú ert eins og þarna bloggarinn, Friðrik Vestdal, sem heldur hann sé svo svakalega fyndinn á kostnað konunnar sinnar en sér ekki að hann er svo stútfullur af karlrembing og typpafýlu að hann er að kafna!“

Mér svelgdist á kaffinu. Það suðaði fyrir eyrum mínum og mér hitnaði í framan. Ég hafði aldrei átt von á því að vinnufélagar mínir myndu lesa þessar færslur mínar og enn síður að þeir litu þessum augum á það sem ég hef aðallega verið að gera mér til gamans.

Þau ræddu þetta eitthvað áfram en ég heyrði ekki hvað þeim fór á milli. Það eina sem komst fyrir í kollinum á mér voru þessi ummæli Þórs. Og þau sækja enn á mig. Getur verið að ég, sem hef hingað til talið mig hlynntan jafnrétti, sé ekkert annað en karlremba þegar allt kemur til alls? Getur verið að Þór hafi afhjúpað mig eins og sonur minn gerði fyrir nokkrum dögum? Er ég hluti af vandanum? Eða er ég bara hluti af stærra vandamáli? Ég veit það ekki. Núna, eftir að hafa verið afhjúpaður með þessum hætti, þá er ég bara ekki viss.

SHARE