Bíður enn handaágræðslu í Lyon: „… samkvæmt þessu ætti allt að vera klárt núna í september“

Nú er liðið rúmt ár síðan Guðmundur Felix, sem missti báða handleggi í skæðu vinnuslysi árið 1998, fluttist til Lyon í Frakklandi ásamt foreldrum sínum og yngri dóttur sinni í þeirri von að undirgangast handaágræðslu á báðum höndum en ferlið hefur verið langt og strangt.

Guðmundur, sem heldur úti vefsíðunni hendur.is, segir í nýlegri bloggfærslu að kominn sé tími á að fræða þá sem hafa áhuga um stöðu mála í Frakklandi, hvernig veran ytra hefur reynst fjölskyldunni og hverjar horfur séu, en hann segir m.a.:

… „Í september stóð svo til að setja mig á langþráðan lista og hefja leit að heppilegum „gjafa“. Einhver undirbúnings pikles var þó í gangi og þurfti að hafa eina æfingu til viðbótar svo læknaskarinn væri klár. Það reyndist þó alls ekki duga til því það þurfti líka að sérhanna skurðarborð, rúm og spelkur til að halda örmunum í skorðum fyrstu sex vikur eftir aðgerðina. Þetta kallaði á þó nokkrar ferðir á spítalann þar sem mér var ýmist skellt uppá ískalt skurðarborðið, klæddur í forljóta „korsilettu“ (spelkan) með gallabuxnavasamunstri eða látinn liggja í rúminu meðan hópur af fólki horfði á mig og blaðraði frönsku.„

 

2013-10

Hér má sjá Guðmund í „mátun“ á skurðarborðinu með franska læknateyminu

Þá var Guðmundur beðinn að heimsækja endurhæfingasjúkrahúsið í framhaldinu, þar sem framkvæmd voru próf og þrautir til að hafa sem viðmið fyrir og eftir aðgerðina. Ferlið vatt upp á sig í kjölfarið og hver heimsókn kallaði á smávægilegar breytingar sem svo urðu til þess að hann þurfti að mæta aftur. Og aftur.

Þetta varð til þess að dagsetningin breyttist úr september í október, svo desember, svo byrjun janúar, svo fyrir mánaðarmót jan/feb, svo febrúar.

Guðmundur, sem er í fantagóðu formi vegna hlaupa, var í framhaldinu sendur í blóðprufur og ómskoðun sem áttu að staðfesta hvort hann væri örugglega „til í slaginn“ eins og hann sjálfur kemst svo skemmtilega að orði:

Ég flaug í gegnum það með glans enda kominn í þetta fína form eftir að vera búinn að hlaupa rúmum þremur árum lengur en ég átti von á þegar ég fékk upphaflega grænt ljós á aðgerðina.

Slegið á létta strengi með vinum: Guðmundur „mátar hendur”  

 

Þegar kom svo að því að setja Guðmund á listann sjálfan, fékk hann skilaboð sem innihéldu óskiljanlegar skammstafanir sem tók langan tíma að lesa úr.

Þegar ég átti síðan að fara á listann fékk ég skilboð sem innihéldu orðin ANSM og prodocal. Ég var lengi vel engu nær hvað þetta þýddi en vissi bara að ég var ekki kominn á neinn lista og það hafði eitthvað að gera með stofnun í París.

Það var ekki fyrr en læknateymið bauð Guðmundi, ásamt dóttur hans og móður út að borða að útskýring fékkst á orðunum:

Þeir sögðu mér það að þar sem aðgerðin mín væri „out of prodocal“ þ.e.a.s fyrsta sinnar tegundar og næði yfir lengri arma heldur en til hefði staðið að fara í þá ætluðu þeir að framkvæma hana innan lagaramma sem gæfi heimild til sérstakrar aðgerðar af mannúðarástæðum. Þessum lögum hafði svo verið breytt í vetur og voru ekki lengur til staðar. Sjúkrahúsið þurfti því að fara í það verkefni að breyta þessum „prodocals“ eða verklagsreglum og skrifa mig inní þær. Einhver hópur var settur í það og skiluðu þeim af sér í lok maí. Þá voru þær sendar til þessarar ANSM stofnunar til samþykktar en þar á bæ gefa menn sér 60 – 90 daga í svona.

 

564217_10150800213287532_297217823_n

Svona líta gervihendur Guðmundar út: Ljósmynd úr einkasafni – Facebook

 

Guðmundur segist vongóður um að enn sé allt á réttri leið en að biðin taki vissulega sinn toll:

Samkvæmt þessu ætti allt að vera klárt núna í september nk og er unnið út frá því. Eftir margra ára brostnar vonir og væntingar tek ég þessu með hæfilegum fyrirvara og held í það að ég er allavega degi nær í dag en ég var í gær.

Móðir Guðmundar er stödd ytra ásamt syni sínum og segir hann stuðning hennar hafa skipt sköpum í öllu ferlinu, en fjölskylda Guðmundar hefur staðið afar þétt við bakið á honum og var faðir hans þannig lengi með honum ytra. Þetta segir Guðmundur ekki hafa orðið mögulegt án stuðnings styrktaraðila og WOW Air, sem gáfu flugmiða svo ferðalagið mætti ganga upp.

Forsögu og afleiðingar vinnuslyssins sem olli því að Guðmundur missti báða handleggi má lesa HÉR en pistil Guðmundar á vefsíðunni HENDUR.IS sem vitnað er í að ofan má lesa HÉR

SHARE