Blæðingar á meðgöngu

Ef blæðir á meðgöngu borgar sig að leita ráðlegginga hjá ljósmóður eða lækni. Blæðingar geta verið algerlega meinlausar og átt uppruna sinn neðst í leghálsi eða í leggöngum. Stundum blæðir aðeins frá leghálsinum eftir samfarir vegna þess hve gljúpur hann verður á meðgöngunni. Það getur líka blætt lítilsháttar á byrjun meðgöngu, um það leyti sem tíðablæðing hefði átt að verða, þegar frjóvgaða eggið er að taka sér bólfestu í legslímhúðinni. Einnig getur blætt seint á meðgöngunni og oft er þá blæðingin fyrirboði fæðingar og lýsir sér þá gjarnan sem blóðugt slím.

En blæðingar á meðgöngu geta líka verið af alvarlegri toga. Fylgjulos er það kallað þegar fylgjan losnar frá legveggnum, að hluta eða öll, áður en fæðingin á sér stað. Fylgjulos lýsir sér oftast með blæðingu en einnig fylgja því spenna og eymsli eða verkir í leginu. Fylgjulosi fylgir mikil hætta fyrir móður og barn.

Önnur ástæða blæðingar á meðgöngu getur verið vegna fylgjunnar ef hún liggur neðarlega í leginu (lágsæt) eða jafnvel yfir leghálsinn. Þegar leghálsinn fer síðan að opnast í lok meðgöngu blæðir frá fylgjunni. Hægt er að sjá staðsetningu fylgjunnar í ómskoðun.

Hvað ber að gera ef blæðingar gera vart við sig á meðgöngu?

Ef blæðingar hefjast skyndilega er ráðlegast að leggjast niður og hafa samband við fæðingardeild. Oftast er konunni ráðlagt að koma í skoðun þar sem leitað er skýringar á blæðingunni.

Sjá einnig: Meðganga og hægðatregða – Hvað er til ráða?

Hvað er hægt að gera?

Á fæðingardeildinni er ástand móður og barns metið og reynt að finna orsök blæðingarinnar. Meðferðin byggist síðan á því hvernig móður og barni líður. Ef blæðingin er lítil og einkennin væg eða óljós og/eða meðgangan stutt á veg komin er konunni oftast ráðlagt að taka það rólega í nokkra daga og sjá til hvort blæðingin hættir ekki. Fylgst er þá með móður og barni og reynt að láta meðgönguna hafa sinn gang. Sé konan komin nálægt fæðingu er tekin afstaða til þess hvort betra sé fyrir hana og barnið að flýta fæðingunni með gangsetningu. Í einstaka tilvikum getur þurft að gera keisaraskurð til að flýta fyrir fæðingu barnsins.

 

Fleiri greinar tengdar meðgöngu má finna á doktor.is logo

 

SHARE