Blóðleysi vegna fólínsýruskorts

Hvað er blóðleysi vegna fólínsýruskorts?

  • Blóðleysi felur í sér skort á rauðum blóðkornum. Rauðu blóðkornin ferðast um líkamann eftir æðunum, vinna súrefni úr lungunum og skila því til frumna líkamans. Frumurnar nota súrefnið til brennslu sem gefur okkur orku. Úrgangsefni brennslunnar er koldíoxíð (CO2) sem binst rauðu blóðkornunum sem hafa skilað súrefninu til frumnanna. Koldíoxíð flyst til lungnanna þar sem því er skilað út með öndun.
  • Ef rauðu blóðkornin eru of fá eða starfa ekki sem skyldi koma fram einkenni súrefnisskorts, þ.á.m. þreyta, slappleiki o.fl.
  • Blóðleysi verður yfirleitt vegna minnkaðrar framleiðslu rauðra blóðkorna og/eða óeðlilega mikils taps á þeim.
  • Rauðu blóðkornin eru framleidd í beinmerg og lifa í u.þ.b. 4 mánuði. Til framleiðslunnar þarf m.a. járn, B12 vítamín og fólínsýru. Ef eitthvert þessara efna vantar eða er í litlum mæli í líkamanum minnkar framleiðsla rauðu blóðkornanna með tímanum og einkenni blóðleysis koma fram.
  • Ef líkamann skortir fólínsýru (sem er eitt af B vítamínunum) koma fram einkenni frá meltingarvegi ásamt einkennum blóðleysis.

Sjá einnig: Blóðleysi vegna járnskorts

Orsakir fólínsýruskorts

  • Fólínsýruskorts verður oft vart hjá alkóhólistum og eiturlyfjaneytendum einkum vegna mjög einhæfs fæðis. Það sama á við um eldra fólk sem lifir á einhæfu fæði, eins og hvítu brauði og kaffi eða te. Þeir sem borða mikið af skyndibitamat eru einnig í sömu hættu.
  • Aukin þörf verður við hraðari frumuskipti. Þá er til að mynda vegna aukinnar framleiðslu rauðra blóðkorna í ættgengu blóðleysi, þar sem líftími rauðu blóðkornannna er óeðlilega stuttur vegna óeðlilegrar lögunar þeirra og því þarf framleiðslan að aukast að sama skapi. Þungun, þar sem sýnt hefur verið fram á að fólínsýra minnki líkur á að barn fæðist með klofinn hrygg. Þar að auki getur fólínsýruskorts orðið vart þegar börn taka vaxtarkippi og hjá sjúklingum sem þurfa endurtekið að fara í blóðskilunarmeðferð. Þá er einkum átt við fólk með langvinna nýrnasjúkdóma, en við meðferðina skilst fólínsýran einfaldlega út úr blóðrásinni.
  • Sjúkdómar í smáþörmun geta haft áhrif á upptöku fólínsýru, auk þess að minnka upptöku annarra næringarefna, t.d. gluten–óþol.

Hver eru einkennin?

  • Nokkuð er einstaklingsbundið hvenær fólk fer að finna fyrir einkennum. Blóðleysi er skilgreint þannig að konur sem hafa hemoglobin minna en 118 g/l og karlar með minna en 134 g/l af hemóglóbín teljast vera blóðlítil. Einnig er einstaklingsbundið hversu mikið hemóglóbín fólk hefur og gildi sem veldur einkennum hjá einum þarf ekki að valda einkennum hjá öðrum.
  • Fyrstu einkennin eru þreyta, ör eða þungur hjartsláttur, andþyngsli og svimi.
  • Ef blóðleysið er mikið getur það leitt til hjartverkja, höfuðverkja og verkja í fótum við gang eða áreynslu sem hverfa aftur í hvíld.
  • Einkennandi fyrir fólínsýruskort: Rauð og jafnvel slétt tunga sem viðkomandi hefur jafnframt einhver óþægindi í. Minnkað bragðskyn, meltingartruflanir, vindgangur og breytingar á hægðavenjum, oft niðurgangur. Einkenni frá meltingarvegi eru oft meiri við fólínsýruskort en við skort á B12 vítamíni.
  • Fólínsýruskortur veldur ekki einkennum frá taugakerfi, ólíkt B12 vítamínskorti. Skortur á báðum þessum vítamínum kemur oft fram samtímis.

Sjá einnig: Blóðleysi á meðgöngu

Hvað getur maður gert til þess að forðast fólínsýruskort?

  • Borða fjölbreytt fæði.
  • Vera á varðbergi ef aðrir fjölskyldumeðlimir hafa blóðleysi sem tengist fólínsýruskorti eða B12 vítamínskorti.
  • Fólki sem hefur gengist undir uppskurði á maga eða smáþörmum er hættara við þessari tegund blóðleysis og ætti því að vera vakandi fyrir einkennum.

Hvernig greinir læknirinn blóðleysi vegna skorts á fólínsýru og B12 vítamíni?

  • Blóðsýni er tekið til þess að ganga úr skugga um að um blóðleysi sé að ræða.
  • Rauðu blóðkornin eru skoðuð í smásjá og við bæði skort á fólínsýru- og B12 vítamíni eru blóðkornin yfirleitt fremur stór en hafa eðlilegan lit.
  • Hægt er að mæla hvort í blóðinu sé of lítið magn af fólínsýru og/eða B12 vítamíni.

Síðan mun læknirinn finna orsök blóðleysisins og taka ákvörðun um meðferð í framhaldinu.

Hvað gerir ástandið verra?

  • Sjúklingar með kransæða- og/eða lungnasjúkdóm þola blóðleysi síður en aðrir.
  • Einkenni frá efri hluta meltingarvegar, þ.e. maga, skeifugörn og smáþörmum, versna við blóðleysi.

Þróun sjúkdómsins

  • Með því að fjarlægja orsakavaldinn og/eða með því að bæta upp vítamínskortinn mun líklega draga úr sjúkdómnum.

Hvað er hægt að gera?

  • Borða fjölbreytt fæði.
  • Veita einkennum athygli og leita læknishjálpar.

Leita þarf ráða hjá lækni um töku fólínsýru fyrir þungun og á meðgöngu.

Sjá einnig: Hvað er blóðleysi vegna skorts á B12 vítamíni?

Hvað getur læknirinn gert?

  • Fundið orsök fyrir blóðleysinu og mælt með eða hafið meðferð í kjölfarið.
  • Gefin er fólínsýra.

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

 

SHARE