Breytingaskeið kvenna

Breytingaskeið kvenna hefur ævinlega verið hjúpað mikilli dulúð. Fyrr á tímum, áður en skilningur fékkst á flókinni hormónastarfsemi kvenna, var talið að þegar konan hætti að hafa á klæðum myndu kynkirtlarnir umbreytast og gera konuna geðbilaða.

Hvað er breytingaskeiðið?

Breytingaskeiðið kallast einnig tíðahvörf. Það tímabil fer oftast í hönd í lífi konunnar á fimmtugsaldri. Oft hafa blæðingar verið óreglulegar í nokkur ár fyrir tíðahvörf. Talað er um að breytingaskeiðið sé um garð gengið, þegar konan hefur ekki haft tíðablæðingar í eitt ár.

Hvað veldur tíðahvörfum?

Talið er að tíðahvörfin verði vegna þess að eggjavísum í eggjaleiðurunum hefur fækkað niður í ákveðinn fjölda, sumir nefna 1000 eggjavísa markið. Þegar skipanir frá hormónum geta ekki lengur örvað eggjastokka konunnar, hætta þeir að framleiða tvær gerðir kvenhormóna, östrogen og progesteron. Þess í stað virkja boð frá heilanum nýrnahetturnar og fituvefinn til að framleiða meira af östrogeni en áður.

Hvernig er breytingaskeiðið?

Konur hafa mjög mismunandi reynslu af breytingaskeiðiðinu. Sumar finna mikið fyrir því og eiga við mikla vanlíðan að stríða á meðan aðrar fara í gegnum þetta skeið án þess að finna nokkuð sérstaklega fyrir því. Einkenni eru þó oft arfgeng og mæðgur geta því allt eins reiknað með að reynsla þeirra verði svipuð.

Hvaða óþægindi geta fylgt breytingaskeiðinu?

Ein af algengustu kvörtunum kvenna á breytingaskeiði eru vegna skyndilegra hitakasta eða svokallaðs hitakófs. Köstin koma alveg óháð aðstæðum og hjá sumum konum fylgja þeim svitaböð og roði í andliti og framan á hálsi. Köstin eru yfirleitt skammvinn, standa í 3-6 mínútur, í byrjun breytingaskeiðsins geta þau komið fram hvenær sem er sólarhrings. Svefnmynstur sumra kvenna riðlast. Erfiðleikar með að sofna, hitakóf og svitaböð um nætur eru ekki óalgengar kvartanir. Þær geta svitnað svo mikið á nóttunni að þær þurfa að skipta á rúminu.

Konur geta verið hrjáðar af þunglyndi, geðsveiflum, höfuðverk, minnistruflunum og óþolinmæði. Fjölskyldan á oft erfitt með að átta sig á aukinni tilfinningalegri viðkvæmni. Húð konunnar verður þynnri. Hárið lætur ekki að stjórn, tannholdinu hættir til að verða blóðrisa, kirtlarnar við legopið framleiða minna slím sem veldur þurrki í kynfærum og óþægindum við samfarir. Svæðinu við kynfæri og þvagrásarop er hættara við sviða.Það slaknar á bandvefi í leggöngum og þvagrás sem getur leitt til þvagleka,einkum við áreynslu.  Hárvöxtur eykst í andliti, sérstaklega á hökunni og áhugi og ánægja sumra kvenna á kynlífi minnkar.

Á síðari árum hefur athyglin í auknum mæli beinst að beinþynningu (osteoporosis) í tengslum við tíðahvörf og einnig að aukinni hættu á vissum hjartasjúkdómum. Mánaðarleg hækkun á östrogeni ver konur gegn beinþynningu og hjartasjúkdómum á meðan þær eru frjóar.

Hvað er til ráða?

Þetta er tímabilið sem vert er að nýta sér til gagns og ánægju. sérstaklega ætti að hugsa vel um sjálfan sig og heilsuna. Það er mikilsvert að átta sig á því að tíðahvörfin eru  upphafið á síðari kafla ævinnar,börnin yfirleitt komin vel á legg og nú gefst meiri tími til að huga að eigin heilsu og áhugamálum.

Gott er að vera dugleg að stunda líkamsrækt. Regluleg hreyfing, til dæmis hressilegir göngutúrar í 20-30 mínútur, 3-4 sinnum í viku, geta bætt heilbrigðum árum við lífið. Hreyfing styrkir beinin og ver gegn beinþynningu, bætir almenna líðan, og það verður auðveldara að sofna vegna eðlilegrar þreytu.

Grindarbotnsæfingar hjálpa við þvagleka.

Slökunaræfingar með nuddi, íhugun,jóga eða öðrum öndunaræfingum geta dregið úr einknnum.

Mataræði er gífurlega þýðingarmikið. Neysla mjólkurafurða og/eða kalkríkrar fæðu skiptir miklu máli í þeim tilgangi að beinin fái nægjanlegt kalk (kalsíum), til að sporna við beinþynningu. Þá er engin spurning að við erum það sem við borðum og eigum að forðast aukaefni eins og MSG og reyna eftir fremsta megni að temja okkur að borða hollan og góðan mat úr úrvals hráefni. Koffein,alkóhól og sterkt kryddaður matur eykur svitakóf hjá sumum og ber þá að forðast það.

Vegna þurrks í leggöngum, þá eru náttúruefni á borð við hindberjalauf og rauðsmára talin efla slímhúð legsins. Þessi efni má fá í heilsubúðum. Í apótekum er einnig til úrval sleipefna sem hjálpa gegn þurrki við samfarir.

Kvöldvorrósarolía hefur hjálpað mörgum konum að takast á við breytingarnar sem eiga sérstað og virðist draga úr einkennum.

Ef breytingaskeiðið veldur óbærilegum óþægindum, getur læknirinn orðið að liði með lyfjameðferð. Í dag eru ýmsir möguleikar á að leiðrétta þær hormónabreytingar sem verða á breytingaskeiðinu.

Sumar konur kjósa að fá hormónameðferð sem framkallar tíðahring. Aftur á móti eru margar konur mótfallnar því að byrja aftur á blæðingum. Þess vegna hafa einnig verið þróuð hormónalyf sem ekki hafa þau áhrif. Hormónalyf eru afar mismunandi og nauðsynlegt að ræða þessa meðferðaleið vel við sinn lækni og vega og meta kosti og galla þess að fara á hormóna. Hormónalyf eru lyfseðilsskyld.

doktor.is logo

Ráðstefna um breytingaskeið kvenna í Hörpu: “Ég er orðin fullþroskuð kona”

Hormónameðferð fyrir karla á breytingaskeiði?

7 ástæður þess að kynlífið getur verið best eftir fimmtugt

SHARE