Í alvöru það er með ólíkindum að við konur hreinlega lifum þetta af, hitakóf, sviti, bumba, andlitshár, geðvonska, grátur, ýktur hlátur og allskona kvillar sem eru ónefndir.

Fyrir sex árum síðan fór ég að undra mig á breytingum á tíðarhringnum hjá mér, ég hafði alltaf verið eins og klukka en núna…. Alltaf á túr, já næstum alltaf á tveggja vikna fresti í alltof marga daga í senn.  Hvorki mér né kjallaralækninum datt í hug breytingaskeið, uhhh nei ég var 42 ára kornung kona.

En svona hélt þetta áfram og ekkert fannst að mér, tékkað á krabbameini og allskonar. Mér sjálfri leið svo sem ágætlega en fann að ég var miklu hrifnæmari en áður þurfti minna til að tárinn trilluðu, ég hélt bara að ég væri orðin ofur andleg og sérstaklega næm. Meira að segja byrjaði ég að mála málverk og var eins og verksmiðja svo mikið málaði ég og var full að andargift. Maðurinn minn var stundum með einhver leiðindi og talaði um að ég væri geðill og já á köflum þunglyndisleg, ég kannaðist ekki neitt við það og taldi honum trú um að hann væri bara fávís karl sem kynni ekki að lesa og skilja konuna sína sem væri listræn með meiru og næmari en nokkurntíman.

Mér fannst að vísu hundleiðinlegt hvað ég svitnaði á nóttunni, við erum að tala um rennandi blautt rúm. Sturta á hverri nóttu svo aftur sturta í sturtunni þegar ég var farinn á fætur. Frekar pirrandi og mjög undarlegt því mér var alltaf svo fáránlega kalt þegar ég var að fara að sofa og sofnaði því oft með tvær sængur á mér og önnur lenti alltaf á gólfinu.

Algerlega upp úr þurru á einni nóttu gerðist svo eitthvað, ég vaknaði og fékk hitakóf. Hitnaði innan í mér eins og ofn og varð eldrauð í framan, þetta var að gerast annað slagið allan daginn. Úff ég hlaut að vera lasin, ræddi þetta við vinkonu sem sagði “þú ert byrjuð á breytingaskeiðinu‘‘

Ég á breytingaskeiðinu, nei það getur ekki verið það á ekki að koma fyrr en um fimmtugt!

Kjallaralæknirinn staðfesti þetta og upp hófst líf fullt af hitakófum og svita. Læra að bregðast við því og prófa hitt og þetta til að draga úr hitakófunum, taka svo alla vanlíðanina út á karlinum sem átti auðvitað ekkert af þessu, en mannlegt eðli vill gjarnan berja á þeim sem þeir elska mest.

Ekki nóg með þetta allt þá varð sú breyting á að ég má ekki borða neitt ef ég borða 100 gr þyngist ég um kíló, feit og falleg á breytingaskeiðinu myndi ævisagan mín heita ef ég skrifaði hana núna.

Allt í lagi þetta er svo sem ekki alslæmt ég meina ég komst að því að ég er góður listamaður og mála fallegar myndir, allavega hafa einhverjir viljað kaupa þær og hengja upp.

Svo varð líka sú breyting að ég hætti að reykja, eignaðist með því hellings tíma og pening.

Fjallgöngur og aðrar gönguferðir hafa fest sig í sessi á þessum árum (skil ekki þetta með spikið) en fátt toppar stund í náttúrunni.

Léttklædd sumar og vetur og ódyrt að kynda heimilið, karlinn reyndar alltaf í ulpu og með húfu inni en hey það er bara hans stíll.

Meira um breytingaskeiðið síðar, þetta er jú stórmerkilegt tímabil.

Ást og friður

Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og a þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiðin miðaldra kvenna, með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar motto er jákvæðni út í cosmmosið því af lífnu hefur hún lært að jákvæðni kemur manni ansi langt!

SHARE