Dagatal/myndakubbar

Ég verð að viðurkenna, þetta verkefni er ekki mín hugmynd, heldur sá ég þetta á Pinterest. En þegar ég sá þetta kubbadagatal í Tiger þá vissi ég að þetta gæti ég notað til að búa til svona myndakubba.

Ég byrjaði á því að pússa númerin af og merkja miðjuna. Svo fékk ég einn af vinnufélögunum mínum til að bora í gegnum kubbana. Ég hefði getað borað í gegnum þá sjálf, en ég á ekki standbor og ég þurfti svoleiðis til að fá gatið alveg beint í gegnum kubbinn. Hinsvegar þá tókst mér að bora í gegnum standinn, passaði mig á þvi að hafa götin nógu ofarlega og framarlega til að kubbarnir gætu snúist óhindrað. Ég boraði aðeins í kúlurnar til að gera holu fyrir stöngina og notaði svo trélím til að líma aðra kúluna fasta á stöngina.

Þegar þetta var allt komið þá málaði ég allt svart.

Svo var komið að því sem mér finnst alltaf erfiðast, að velja myndir. Það tókst á endanum og til að hafa þetta í stíl við svarta litinn þá prentaði ég prentaði ég myndirnar út í svart/hvítu. Mundu, þú þarft bara 4 myndir fyrir hvern kubb vegna þess að hliðarnar með borgötunum verða myndalausar.

Þá var bara að líma myndirnar á (passa að þær snúi allar eins), ég fór yfir með límlakki en það er ekki nauðsynlegt, láta kubbana inn í standinn, stinga stönginni í gegn og líma kúluna á hinum megin með trélími. Ég er rosalega ánægð með hvernig þetta kemur út, hvað finnst ykkur?

SHARE