Danska illmennið fékk forræðið

Umræðuhefð okkar Íslendinga er söguhefðin. Við segjum sögu frekar en að ræða málin. Saga er sögð, það er gerandi og þolandi atburða og oftar en ekki er ekki kafað dýpra en þetta. Þá verður það gjarnan þegar nógu margir eru búnir að segja söguna og betrumbæta hana að tvær fjaðrir verða að fjórum hænum eins og H.C. Andersen skrifaði svo snilldarlega um í ævintýrinu. Þegar svona er staðið að málum er talað um að „sögur komist á kreik“, það verða „sögusagnir“ segir fólk.  Frakkar hafa þróað allt aðra samtalshefð. Þeir eru meistarar í að ræða málin frá öllum hugsanlegum hliðum, skoða fletina fram og aftur, leita að skýringum, leita að útgönguleiðum, draga ekki ályktanir án þess að hafa skoðað alla þá fleti málsins. Þetta er einfaldlega annars konar menning en tíðkast á Íslandi.

En hugleiðum nú hvaða áhrif „sögusagnirnar“ hafa gjarnan. Veltum t.d. fyrir okkur hvað gerist þegar átök verða  í forræðismálum eins og nærtæk dæmi sýna þar sem börn voru sótt með lögregluvaldi til móður sem misst hafði forræði yfir börnum sínum eftir að dómstólar höfðu dæmt henni í óhag. Sögur fara sannarlega á kreik og almannarómurinn – Gróa á Leiti fer mikinn og segir sögur af hegðun og framgangi  annars aðilans.  Það sorglega er að í mörgum tilfellum tromma fjölmiðlar undir með Gróu sem venjulega er búin að úrskurða um það hvor er vondi aðilinn og hvor er góði aðilinn, en vondi og góði aðilinn er algjört skilyrði í góðri sögu, í stað þess að fjalla um málið frá öllum mögulegum sjónarhornum án þess að taka upp málstað annars aðilans og gera hann að hinum „góða“. Maður hefur það sterklega á tilfinningunni að það hafi einmitt gerst í ofangreindu máli þar sem móðir kom fram í fjölmiðlum sem fórnarlamb, fílefld sveit lögreglumanna reif af henni börnin og færði þau í hendur ofbeldisfulls manns frá öðru landi sem hafði með klækjum haft betur fyrir dómstólum, en dómstólar höfðu með sínum ísköldu og tilfinningasnauðu aðferðum fundið leið til að rífa börnin af henni.

Stöldrum nú aðeins við og nýtum rökhyggjuna sem oft er sett til hliðar þegar tilfinningarnar ná yfirhöndinni.

Dómstólar, sem byggðir eru upp af fagfólki og eru skyldugir til þess að fá sérfræðinga til að veita umsagnir, til dæmis sálfræðinga sem sérhæfa sig í málefnum barna og heimilisofbeldis í þessu tilfelli, eru búnir að fjalla um málið í tveimur löndum og báðir komast að sömu niðurstöðu, þ.e.a.s. að dæma föður forræði yfir börnunum.

Af hverju setja fjölmiðlar ekki spurningarmerki við það og grafa dýpra í þetta grafalvarlega mál þar sem raunverulegu fórnarlömbin eru börnin, hvað svo sem hefur gengið á hjá þessari fjölskyldu. Af hverju spyrja fjölmiðlar ekki erfiðu spurningana sem oft á tíðum eru ekki vinsælar og myndu í mörgum tilfellum skapa þeim ádeilur og heitar umræður.

Ef þeir telja að það  að birta frásagnir af átökum í brothættum og viðkvæmum málum, eins og t.d. forræðismálum  auki  líkur á farsælum lausnum og verði þar með börnunum til góðs er hér með lagt til að gætt sé  jafnræðis í umfjölluninni. Með þessu er einfaldlega átt við að leitað sé til beggja aðila þegar sagðar eru fréttir af einkamálum sem varða tvo fullorðna einstaklinga og börnin þeirra.

Fylgstu með frekari umfjöllun um málið hér á Hún.is

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here