Lífið heldur sínum takti og við hjón orðin nokkuð góð í að tækla breytta tilveru.

Lífið hefur verið lagað að krabbameininu og er tekið í 3 mánaða skömmtum. Það er tíminn sem er á milli niðurstöðudaga. Nú nálgast einn slíkur, við köllum þessa daga dómsdaga en það er nauðsynlegt að hafa húmorin að vopni ég held að það sé ekki hægt að komast í gegnum erfið verkefni án húmors!

Það sem gerist þegar dómsdagur nálgast er að spennan eykst. Herra kvíði kíkir reglulega við frú ótti fylgir með.  Síðasti dómsdagur hafði að geyma jákvæðar fréttir, meðferðin er að skila árangri og æxlin hafa minnkað. Þrátt fyrir það er niðurstöðudagurinn sem er framundan kvíðvænlegur. Í raun er engin ástæða til að ætla annað en að lyfin séu að skila sínu og æxlinu séu enn að minnka, en hausinn er samt dauðhræddur og já reynslan hefur líka kennt manni að krabbamein er óútreiknanlegt. Aldrei hefði það hvarflað að mér fyrir 21 ári að við myndum takast á við þennan sjúkdóm annað slagið í 21 ár. Nei og það var eins fjarri mér og Hawaii að hann myndi endurgreinast núna í sumar þegar hann átti að útskrifast úr eftirlitinu, 5 ár krabbameinslaus. Eða að hann fengi þriðju tegundina, akkúrat óútreiknanlegur sjúkdómur. Ég hef lært margt af þessu ferðalagi og eitt af því er að  draga mig inn í núið þegar herra kvíði og frú ótti banka uppá, en ég væri að ljúga ef ég segði að þau kíktu ekki við.

Ég hugsa eins fast og ég get um að þetta verði áframhaldandi jákvæðar niðurstöður og að við eigum eftir að njóta elliáranna saman. Ég trúi því að jákvæð hugsun hjálpi til, en er svo mannleg að stundum fell ég í óttann og já það er eðlilegt.

Það er svo magnað að svona ferðalag sem lífið gefur manni alveg upp úr þurru og algerlega án þess að maður vilji fara í það gefur manni þroska og sérstakan frið í sálina, svo ég tali nú ekki um lífsviðhorf og gildi.

Maður metur lífið á allt annan hátt og lærir að lífið er sannarlega núna, engum er lofaður morgundagur.  Hættir að bíða með að gera hlutina enda eftir hverju er alltaf verið að bíða. Kann betur að metafjölskylduna sína og samverustundirnar en á sama tíma týnist burtu eitthvað af fólki eins og vill gerast þegar lífið tekur sveiflu en það koma líka í ljós gullmolar sem birtast algerlega óvænt.

Munið að lífið er núna og bara það er næg ástæða til að framkvæma og njóta. Já og láta fólkið ykkar vita að þið elskið að elska það.

Ég ætla að hugsa bjartar og fallegar hugsanir næstu 3 dag og senda ljós a dómsdaginn sem er þá.

 

Ást út í cosmosið

Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og a þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiðin miðaldra kvenna, með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar motto er jákvæðni út í cosmmosið því af lífnu hefur hún lært að jákvæðni kemur manni ansi langt!

SHARE