Ég á afmæli og þá er þetta MINN dagur

Ég er rosalega mikið afmælisbarn. Ég á afmæli mánuði fyrir jól, 24. nóvember og það er alltaf snjór, myrkur og skítaveður á þessum tíma. Þegar ég fæddist komst pabbi minn ekki að sjá mig fyrr en ég var orðin 2 vikna því hann var veðurtepptur úti á landi. Já svona er þetta bara.

Þegar ég var að alast upp var aldrei mikið um fagnaðarlæti þegar ég átti afmæli. Ég var í heimavistarskóla og ef afmæli mitt lenti á helgi, var bara fjölskyldan mín til að fagna með mér, ég fékk köku og afmæliskerti og pakka. Ef ég var hinsvegar í skólanum, var bökuð skúffukaka handa okkur í kaffinu og sungin afmælissöngurinn. Ég fékk stundum engar gjafir á afmælinu sjálfu en kannski bara þegar ég kom heim um helgina. Sjaldnast gat mamma haldið einhverja veislu fyrir okkur systkinin því það var, yfirleitt ófær vegurinn frá því í október og fram í maí. Bróðir minn sem er einu ári eldri en ég á afmæli í febrúar svo hann hélt ekkert partý heldur á þeim árstíma. Ég held samt að ég hafi einu sinni getað haft partý fyrir vinina heima hjá mömmu og pabba en sá vetur var með afbrigðum snjóléttur.

Svona var þetta bara. Ég tel mig ekki hafa skaðast neitt mikið varanlega eftir að hafa ekki fengið 2-3 afmælisveislur eins og mörg börn fá í dag. Eina fyrir fjölskylduna, eina fyrir skólafélagana og eina fyrir vini foreldranna. Eini skaðinn sem ég gæti hugsanlega orðið fyrir er að ég er sjúklega mikið afmælisbarn. Núna bý ég í bænum og ég ætlast til þess að þessi dagur sé helgaður mér.

Ég vil að allir viti að ég eigi afmæli. Þetta er dagurinn minn og ég vil að fólk viti það, jafnvel þó það þekki mig ekki neitt. Ég vil að allt gangi snuðrulaust fyrir sig, ég vil ekki rífast við neinn, börnin eiga að hlýða og vera eins og sól í heiði. Ég er ótrúlega ánægð með allar kveðjurnar á Facebook þær gleðja mig meira en talist getur eðlilegt.

Ég fór í bústað um helgina með tveimur vinkonum mínum. Þær vita náttúrulega alveg hvað mér finnst hátíðlegt að eiga afmæli og á laugardeginum útbjuggum við dýrindis „brunch“ og fínerí. Einhversstaðar í miðju ferlinu ákvað ég samt að fara út að moka snjó frá heita pottinum og gera hann tilbúinn fyrir okkur (já ég veit adhd) því ég var búin að steikja pönnukökurnar.

Þegar ég kom svo inn var búið að leggja á borð og allt að verða tilbúið. Þær ætluðu að sækja eitthvað sem vantaði og ég horfði bara á borðið og velti fyrir mér hvað það væri eiginlega sem vantaði… ég gat ekki séð að neitt væri ekki til staðar á borðinu. Þá komu þær með pakka og köku með kerti á. Æðislegt! Ég átti ekki orð og kannski… já bara kannski varð ég örlítið meyr.

2015-11-21 14

 

Mig langaði bara svo að deila þessu með ykkur. Ég á semsagt afmæli á morgun og tek við öllum kveðjum á Facebook.

Góðar stundir!

Fylgstu með!

Kidda á Instagram

Hún.is á Instagram

Hún.is á Snapchat: hun_snappar

SHARE