“Nei, ég bý erlendis …”

Það sem mig dreymdi lengi um að geta sagt þessi orð. Í fantasíunni kveikti ég því næst í örmjóum vindling, fíngerðum og agalega útlenskum í laginu. Hallaði undir flatt og þagði. Auðvitað var ég stödd á kaffihúsi þegar þessi draumsýn fæddist og heyrði einhverja konuna segja orðin.

“… nei, ég bý erlendis.”

Í þá daga mátti enn reykja um borð í Flugleiðavélunum, þótti ægilega smart að tala með smá hreim eftir hæfilega veru hinu megin við hafið, klæðast sandölum í frosti og sveipa sig sjali. Útlensku sjali í alls konar litum. Einhverju sem aldrei hefur fengist á Íslandi.

Ég hef alltaf verið agalega svag fyrir fólki sem hefur verið búsett erlendis. Helst lengi. Og er komið heim aftur. Geymir skrýtin krydd í krukku og ilmar af olíum sem voru keyptar í öðru landi. Hefur auðgast á einhvern dularfullan máta og veit einhvern veginn svo mikið um lífið.

Ég er búsett í Osló, hafði ekki stigið fæti á fósturjörðina í rúm tvö ár þegar ég einhentist út á Gardemoen fyrir skömmu (ígildi Leifsstöðvar í Noregi) og kastaði mér nærri flatri upp í vél. Með Rassa glaðbeittan í eftirdragi. Vopnuðum slaufu, kaskeiti og köflóttri skyrtu.

1170991_1417945968465324_1488492335_n

Barnið hló alla leiðina til Íslands, starði út um gluggann og stundi af og til. Við værum á leið til Íslands, fyrirheitna landsins; fóstjarðarinnar.

Gat ekki beðið eftir því að fara með vandlega æfða þuluna fljótlega eftir lendingu og reiknaði fastlega með svarinu: “…. nú já? (velþóknunartónn) Og hvar býrðu þá?” en einhvern veginn frusu orðin í Fríhöfninni, meðan ég fálmaði eftir símanum og rembdist eins og rjúpan við staurinn að festa kaup á nýju SIM korti.

Ég tala með eilítið norskum hreim í dag. Og sletti. Já. Á skandinavískri tungu. Ægilega óþægilegt þegar maður er nýlentur og allt það. Ég var þess utan alltof þreytt til þess að setja upp seiðandi svipinn og svo var afgreiðslumanninum alveg sama þó ég byggi erlendis.

Í leit minni að viðurkenningu trúði ég loks barnungri afgreiðslustúlku í matvöruverslun fyrir því að ég væri jú búsett erlendis og hefði litla hugmynd um stöðu krónunnar.

Eigandi bílaleigunnar var örlítið mjúkmálli og gott ef það sefaði ekki aðeins þörf mína fyrir viðurkenningu, en öðru gegndi um bensínafgreiðslumanninn sem leit þolinmóður á mig seinna þann sama dag og brosti annars hugar þegar ég útskýrði fyrir honum að kortið sem ég væri að borga með væri fengið erlendis frá.

Íslendingar, sem horfa beint í augu fólks, svifu hjá mér næstu daga, ónæmir fyrir þeirri stóru staðreynd að sjálf bý ég erlendis. Stórir og litlir, lattelepjandi með lopatrefla, heimsvanir, ákveðnir og þóttafullir á svip. Það er sem ég geti svarið það; augnaráð af því taginu sem Íslendingar senda vegfarendum á leið þeirra niður Laugaveginn myndi seint tíðkast erlendis, þeim sjálfum að skaðlausu.

En Íslendingar eru sér á báti. Umkringd mínu eigin fólki mátti ég því endurtaka rulluna næstu daga. Mjóróma, leitandi og bjöguð á íslenskri tungu eftir langa dvöl erlendis. Í leit minni að viðurkenningu trúði ég loks barnungri afgreiðslustúlku í matvöruverslun fyrir því að ég væri jú búsett erlendis og hefði litla hugmynd um stöðu krónunnar í dag.

Það var notarlegt að koma heim. Að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið, heilsa gömlum kærasta í Hagkaup, flissa fram á nótt með mömmu á náttfötum og smakka á súkkulaði. 

Af er það sem áður var, þegar appelsínur voru fluttar í förmum til landsins rétt fyrir jól og sjónvarpið sýndi stillimynd á fimmtudögum. Í þá daga þóttu utanlandsferðir ægilega smart og þeir sem búið höfðu erlendis urðu oftar en ekki hálfguðir við heimkomuna. En öðru gegnir í dag. Íslendingar, sveipaðir veraldarvönum bjarma, horfa hiklaust beint í augu fólks. Iðulega og með þóttafullt blik í augum. Bera með sér sjálfstæða hugsun og gneista af sköpunarkrafti. Eru fallegir ásýndar. Með há kinnbein, norræna andlitsdrætti og virðast geysilega hugrakkir í limaburði.

Það var notarlegt að koma heim. Að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið, heilsa gömlum kærasta í Hagkaup, flissa fram á nótt með mömmu á náttfötum og smakka á súkkulaði. Spæna upp símainneignina á ljóshraða, brussast um á óhrjálegum bílaleigubíl, rifja upp gömul kynni við Norðurmýrina og smella kossi á mína gömlu heimabyggð; lattelepjandi Reykjavík 101.

Að koma heim var engu líkt. Meðan ég gekk undrandi niður litríkan Laugaveginn og las mig gegnum þær breytingar sem hafa orðið á gömlu verslunargötunni komu mér í huga orð félaga míns, sem er bandarískur og spurði mig einhverju sinni hvort “allir Íslendingar væru listamenn” – en svarið fann ég meðan ég ráfaði milli verslanna og tók í hendur þeirra hugrökku kaupmanna sem hafa sett verslanir á laggirnar undanfarin misseri í miðbæ Reykjavíkur.

 Íslendingar, skapandi og óhræddir, sem virðast horfa ögrandi augum fram á veginn og skelfast ekki neitt – eru listrænir, sterkir ásýndar og flestum er þeim alveg sama þó konan ég búi erlendis. 

Mig langaði að hrópa inn í minningu af manni sem, meðan ég var stödd erlendis, hvíslaði því hvort “allir Íslendingar væru listamenn” og þeyta jáyrðum á leifturhraða aftur til kaffihúsaferðarinnar sem ég lagði á mig það sama kvöld. Íslendingar, skapandi og óhræddir, sem virðast horfa ögrandi augum fram á veginn og skelfast ekki neitt – eru listrænir, sterkir ásýndar og flestum er þeim alveg sama þó konan ég búi erlendis.

Þessi einkenni vildi ég óska að ég hefði áður greint, meðan ég bjó enn í henni gömlu Reykjavík og rann saman við mannfjöldann, skar mig úr ef mér sýndist og rölti mér letilega niður litríkan Laugaveginn á góðviðrisdögum. Í þá daga horfði ég beint í augu fólks og gekk óttalaust yfir götu. Slúrpaði í mig Kókómjólk. Kastaði brauðmola í endurnar. Skoðaði Fríkirkjuna. Bölsótaðist út í veðurfarið. Hló upp í vindinn.

Vænst þykir mér þó um málið. Ég er kona orða og elsk á mállýskur; kann að raða hugtökum í ákveðið samhengi og hef alla tíð verið elsk að þjóðsögum. Það var móðurmálið, hin rammíslenska tunga, sem yljaði mér þegar ég lenti á Keflavíkurflugvelli fyrir skömmu og sagði öllum sem á vegi mínum urðu að ég “byggi erlendis” og fitjaði svo upp á nefið.

Íslendingar upp til hópa eru listrænir, sterknefjaðir og stórskemmtilegir í viðmóti og fasi. Og mig sjálfa má finna í þeim hópi. Það var merkileg reynsla að stíga aftur fæti á fóstjörðina eftir svo langa dvöl í öðru landi og finna mig sjálfa heima fyrir á litlu eyjunni í norðri. Það var auðmjúk og lítil Klara sem sté aftur um borð í farþegaflugvél að tveimur vikum liðnum, reiddi fram vegabréf og sagði við norska flugfreyjuna:

“Nei, ég er íslensk …”   

 

[youtube width=”600″ height=”320″ video_id=”7181bP_fedg”]

 
SHARE