„Ég grét í vinnunni í dag með ókunnum manni, öldungi“

Pálína Vagnsdóttir birti stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni í gær. Hún starfar í Húsgagnahöllinni og aðstoði gamlan mann við að finna skemil fyrir eiginkonu sína:

Ég grét í vinnunni í dag með ókunnum manni, öldungi  Ég skammast mín fyrir hvernig þjóðfélagi við búum í, að við skulum ekki búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Maðurinn er fæddur 1937, 81 árs að aldri. Konan hans á sama aldri er búin að vera mikið veik í nokkur ár, heilablóðfall, krabbamein, hefur dottið og brotið bein. Hún er nýkomin heim af spítala. Það er enga hjálp að fá fyrir þennan yndislega öldung, fyrir konuna hans. Hann var að velja fótskemil svo það færi betur um konuna hans. Við tókum spjall. Svo brotnaði hann niður. Hann var útkeyrður á sál og líkama. Ég tók utan um hann og við grétum saman. Hann grét með ekka. Það er ekkert í boði, engin hvíldarinnlögn, engin lausn í þjónustu heim til þeirra hjóna, engin lausn að hlúa að sóma hjónanna á þessum aldri. Af hverju í ósköpunum er þetta svona. Af hverju er ekki séð um fólkið sem byggði þetta land með sómasamlegum hætti. Af hverju er ekki farið inn á heimili og svona mál sett í þann farveg að sómi sé að fyrir alsnægtarþjóð. Það er skömm af þessu. Hann sagði mér að hann væri ekki sá eini. Það væri svo margir í sömu stöðu og hann. Hann á 95 ára bróður sem missti konu sína fyrir fjórum árum, hann býr einn og fær enga aðstoð, engar lausnir. Ísland þetta gengur ekki. Búum öldungum áhyggjulaust ævikvöld. Borðum minni humar, lokum sendiráðum, sleppum víni í opinberum veislum. Eigum minna fyrir okkur og meira fyrir þá sem okkur ólu. Ég vil ekki búa í svona þjóðfélagi. Ég vil ekki eldast í svona þjóðfélagi. #meirafyrirþauminnafyrirokkursjálf #sameinumkraftaokkar#berumvirðingufyrirfólkinusembyggðiþettaland Myndin er fengin að láni af alnetinu.

Ég er búin að breyta þessu í Public þannig að ykkur er hjartanlega velkomið að deilda 

Við hvetjum ykkur til að deila færslunni sem víðast. Gamla fólkið á virðingu skilið og eiga að eiga áhyggjulaust ævikvöld.

SHARE