„Ég held ég hafi alltaf þjáðst af kvíða“

Þórhallur Þórhallsson er 31 árs og hefur getið sér gott orð sem grínisti og uppistandari. Hann var með útvarpsþáttinn Örninn og Eggið á X-FM, en einnig var hann með grínþátt á Rás 2 sem hét Tímaflakk. Árið 2012 var hann einn af þáttarstjórnendum Morgunþáttarins Magasín á Fm957. Þórhallur var valinn Fyndnasti maður Íslands árið 2007 og hefur haft nóg að gera í gríninu í gegnum tíðina. Hann á nú ekki langt að sækja grínið en hann er sonur eins ástsælasta leikara Íslands, Ladda.

Á dögunum setti Þórhallur stöðuuppfærslu á Facebook sem var svona:

Screen Shot 2014-08-27 at 4.35.13 PM

Það voru margir sem líkuðu við þessa færslu hjá Þórhalli og nokkrir sem skrifuðu eitthvað við færsluna. Ég ákvað að fá Þórhall til að hitta mig til að spjalla aðeins, um daginn og veginn, já og kvíðann.

„Mamma þurfti að breyta
vaktaplaninu sínu til þess
að geta fylgt mér í skólann“

Við hittumst á kaffihúsi og Þórhallur var mættur á undan mér og tekur á móti mér brosandi og hlýlegur eins og hans er von og vísa. Hann segir mér að hann sé að vinna á Frístundaheimili eftir hádegi og kunni vel við það. Auðvitað sé oft krefjandi að vinna með börnum en samt sem áður mjög gefandi. Við pöntuðum okkur kaffibolla og fórum svo að spjalla um æskuárin.

„Ég held að ég hafi alltaf þjáðst af kvíða. Ég man eftir fyrsta skóladeginum en það þurfti að rífa mig úr fanginu á móður minni, ég var öskrandi og grátandi því ég var svo hræddur við nýja hluti,“ segir Þórhallur og bætir glettinn við: „Ég reif í hárið á kennaranum sem hefur örugglega verið mjög spenntur að fá þennan nýja nemanda.“ Þórhallur segist alltaf hafa verið viss um það að mamma ætlaði að stinga sig af og vildi ekki taka augun af henni. „Mamma þurfti að breyta vaktaplaninu sínu til þess að geta fylgt mér í skólann, en ég vildi samt ekki að hinir krakkarnir vissu af þessu, svo mamma var í felum bakvið runna, þannig að ég sæi hana en krakkarnir í skólanum máttu ekki sjá hana.“ Eins segist Þórhallur ekki hafa getað gist hjá vinum sínum en hafi samt reynt það, það hafi oft endað í því að mamma hans þurfti að sækja hann.

Þórhallur var kvíðinn alla sína æsku og á unglingsárunum, en þegar hann var orðinn um það bil 18 ára gamall, var honum bent á það af nákomnum ættingja að hugsanlega sé hann að eiga við kvíðaröskun. Það var þá sem Þórhallur fór að leita sér hjálpar í fyrsta sinn og fór hann á lyf við kvíðanum. „Ég tók eiginlega ekki eftir breytingunni sjálfur fyrr en einn daginn þegar ég var að keyra með vini mínum og við vorum að velta fyrir okkur að fara í hvalaskoðun. Ég bauðst til að stökkva inn og ná í bækling og vinur minn missti andlitið. Ég hefði ekki getað gert þetta nokkrum vikum áður, að hafa samskipti við ókunnuga,“ segir Þórhallur. Hann var í nokkur ár á lyfjunum en hætti svo á þeim þegar hann beit það í sig að hann vildi sko ekki þurfa á lyfjum að halda, allt sitt líf.

thorhallur2
Alltaf stutt í grínið hjá honum Þórhalli

Kvíðinn hefur haft áhrif á margt í lífi Þórhalls, þar á meðal vinnur og skóla: „Ég var kannski of kvíðinn til að mæta í vinnuna og of kvíðinn til að hringja mig inn veikan og þannig klúðraði ég nokkrum vinnum“ segir Þórhallur. Eitt af því sem Þórhalli var boðið, þegar hann var að leita sér hjálpar, var hópnámskeið til þess að vinna bug á kvíðanum. „Ég fór ekki,“ segir Þórhallur og hlær, en eitt af því sem getur fylgt kvíðanum í mörgum tilfellum er félagsfælni.

Í mörg ár fór Þórhallur ekki á skyndibitastaðinn Subway vegna kvíðans og sagði við alla að honum þætti maturinn þar vondur. Sannleikurinn var hinsvegar sá að hann vildi ekki fara þarna inn af því hann vissi að það var úr svo mörgu að velja: „Ég ætlaði alls ekki að koma mér í þær aðstæður að fólk væri farið að bíða eftir mér af því ég væri svo lengi að velja svo ég sleppti þessu bara,“ segir Þórhallur, sem þrátt fyrir allt hefur húmor fyrir sjálfum sér og kvíðanum. Hann segist seinna hafa eignast kærustu sem vann á Subway og hún valdi fyrir hann bát: „Ég er enn að borða þann bát“ segir Þórhallur glettinn.

Þórhallur segir að margir hafa lýst yfir furðu sinni á því að maður með þennan kvíða geti staðið fyrir framan fólk og verið með uppistand. „Auðvitað get ég alveg kviðið því en það er ekkert óyfirstíganlegt. Fyrir mér var miklu erfiðara að vera úti í sal og þurfa að spjalla við fólk þar heldur en að standa uppi á sviði. Uppi á sviðinu er ég búinn að ákveða hvað ég ætla að segja, get bara komið og farið svo. Þó ég fari ekki í búning þá er þetta ákveðinn karakter sem ég hef skapað mér, sem er ekkert kvíðinn, með fullt af sjálfstrausti og voða gaman.“

„Svo þegar þeir voru búnir
að taka sitt eigið líf þá varð
fólki það ljóst að ástandið var
svona alvarlegt“

Kvíðinn hefur hamlað Þórhalli í vinasamböndum og í ástarsamböndum en hann segir að hann hafi aldrei verið duglegur að hafa samband við fólk og að rækta sambönd. Honum finnist það erfitt og það geti oft orðið til þess að vinskapurinn þróast ekki. Þórhallur hefur átt 3 vini sem allir tóku sitt eigið líf en á aðeins einu og hálfu ári missti hann tvo þeirra. „Þeir áttu allir við þunglyndi að stríða en áttu það allir sameiginlegt að vera þekktir sem hressu gaurarnir, fyndnir gleðigjafar, sem engum datt í hug að væru að berjast við svona djöful. Svo þegar þeir voru búnir að taka sitt eigið líf þá varð fólki það ljóst að ástandið var svona alvarlegt.“ Hann segir jafnframt að hann hafi ekki séð það fyrir að eitthvað stefndi í það að vinir hans myndu taka sitt eigið líf. „Við töluðum alltaf mjög opinskátt um allt þetta, þunglyndið og kvíðann. Ég gerði mér enga grein fyrir hversu langt þetta var komið eða í hvað stefndi. Þó þeir lokuðu sig af í nokkra daga og svöruðu ekki símanum þá yfirleitt komu þeir til baka og allt varð gaman og gott aftur. En þannig er það ekkert alltaf. Maður sér það bara eftirá,“ segir Þórhallur og segist vilja hvetja alla til að leita sér hjálpar sem á því þurfa að halda.

„Stundum áttar fólk sig ekki á því hversu djúpt það er sokkið en ef fólk er að loka sig af í marga daga, vill ekki svara í símann og helst bara liggja í rúminu, þá er eitthvað að. Það er engin skömm að því að leita sér hjálpar við andlegum veikindum, frekar en líkamlegum,“ segir Þórhallur en hann byrjaði nýlega að taka lyf aftur vegna kvíðans síns eftir að honum var góðfúslega bent á það að hann gæti verið farinn að stjórnast af kvíðanum sínum. „Ég var einmitt hræddur við það að lækninum þætti ég ekki vera nógu kvíðinn og hafði miklar áhyggjur af því fyrir tímann hjá honum,“ segir Þórhallur og hlær.

„Ég var einmitt hræddur við það að
lækninum þætti ég ekki vera nógu kvíðinn“ 

Þórhallur segir að eina ástæðan fyrir því að hann hafi sett þessa stöðuuppfærslu á Facebook og veitt mér þetta viðtal, sé að vonandi geti það hjálpað öðrum. Kannski muni einhver tengja við hann og sjá að eitthvað sé ekki eins og það á að vera.

„Þetta er eins og að detta ofan í brunn, því lengra sem þú dettur því minna ljós sérðu. Ljósið er samt alltaf þarna og maður verður bara að muna það,“ segir Þórhallur að lokum.

 

SHARE