Ég horfi á Dr. Phil

Ég er með játningu! Ég horfi á Dr. Phil!

Ég er ekki að tala um að ég sé með Skjá Einn og sé alla daga alveg óð úr spenningi að bíða eftir þættinum mínum. Þvert á móti! Ég hef ekki verið með Skjá Einn síðan þeir tóku þá ákvörðun að fara að rukka fyrir stöðina, en það eru nokkur ár síðan það var.

Þetta er meira þannig að ég dett inn í að horfa á þetta ef það er í boði, á biðstofum á læknamóttökunni, hjá vinum eða í ræktinni.

Þetta er eitt af þessum „guilty pleasure“ sem ég er með í lífinu mínu og set þetta í sama flokk og bólukreistingar eða að ryksuga upp mikið af sandi á gólfinu, ekki manns stærstu afrek í lífinu, en engu að síður eitthvað sem ég nýt þess að gera, hverja sekúndu!! Dr. Phil er svolítið þannig fyrir mér. Alger tímasóun en ég get ekki hætt að horfa ef ég kveiki á þessu! Einn vinur minn benti mér á góða þýðingu á „guilty pleasure“ sem á allavega vel við í þessu samhengi og það er að ég horfi á Dr. Phil „gegn betri vitund“.

Ég fór að spá í það um daginn, af hverju ég er að horfa á þennan þátt og meira að segja sækist í það ef ég er til að mynda í ræktinni, með fullt af öðru, meira uppbyggilegu sjónvarpsefni, en ég vel Dr. Phil. Ég meira að segja læt þetta allt fara í taugarnar á mér, að hann er alltaf að leiða konuna sína og hún situr tárvot af stolti í sjónvarpssalnum, allt svo amerískt og hallærislegt og hrokamælirinn minn springur.

Sumir gætu sagt að ég sé dramadrottning og sækist í að horfa á harmsögur annarra, fjölskyldur sem hafa tvístrast út af einhverju, foreldra sem hata maka dóttur sinnar o.s.frv, en það er ekki það. Hamingjan veit að það er nóg drama í kringum mig svo ég færi nú varla að leita það uppi til að fá meira af því.

Ég veit ekki hvað þetta er en ég mun allavega ekki fá mér Skjá einn á næstunni, því þá er það bókað mál að ég sæti föst við sjónvarpið, alla virka daga svona um 17:30 og biði eftir að Dr. Phil minn birtist á skjánum……….

…….gegn betri vitund!!!

SHARE