„Ég lifði óábyrgu lífi í mörg ár“ – Ungur maður skrifar á Facebook

Atli Bjarnason skrifaði pistil á Facebook sem hefur farið eins og eldur um sinu um veraldarvefinn í dag.

EF ÞÚ ERT MÓTFALLIN/N RITSKOÐUN LESTU ÞÁ ÞETTA!

Ég skrifaði eftirfarandi grein á grúppu sem stofnuð var af fólki innan Hagsmunasamtaka heimilanna til að berjast gegn verðtryggingu lána. Rúmlega 7000 meðlimir tóku þátt í grúppunni og sköpuðust miklar umræður á henni. Forsvarsmenn grúppunnar gátu ekki horfst í augu við þau rök sem ég og aðrir höfðu fært gegn málstað þeirra og tóku upp á því að eyða út allri grúppunni og öllum þeim umræðum sem þar höfðu skapast.

EF ÞÚ ERT MÓTFALLINN SLÍKRI ÞÖGGUN Á MÁLEFNALEGRI UMRÆÐU VINSAMLEGAST DEILDU EFTIRFARANDI PISTLI.

================================

Eftir stutta dvöl mína á þessum spjallþræði sé ég mig knúinn til að draga fram nokkrar mikilvægar staðreyndir:

 

Frá árinu 1989 hefur almennt verðlag þrefaldast.

Frá árinu 1989 hafa meðallaun á Íslandi fjórfaldast.

Frá árinu 1989 hefur húsnæðisverð rúmlega fjórfaldast (þrátt fyrir mikla lækkun eftir hrun).

 

*Hagstofan hóf ekki mælingar á vísitölu launa fyrr en árið 1989.

*Sömu tölur frá 2005 og sundurliðun eftir starfsstéttum má sjá í viðbót neðst í þessari grein.

Þetta þýðir að laun hafa hækkað um 1% á ári umfram verðlag frá árinu 1989, þ.e. kaupmáttur launa hefur aukist um 1% á ári að jafnaði á öllu þessu tímabili. Þetta þýðir líka að laun hafa hækkað um 1% umfram hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána! Og hvort sem fólki hér inni líkar betur eða verr, þá þýðir þetta eftirfarandi:

Ef þú lesandi góður keyptir fasteign á Íslandi árið 1989 (eða 2005, sbr. viðauka) með verðtryggðu láni, ER EKKI NOKKUR FRÆÐILEGUR MÖGULEIKI Á AÐ ÞÚ HAFIR LENT Í GREIÐSLUERFIÐLEIKUM, nema að uppfylla eitt eða fleiri af eftirfarandi þremur skilyrðum:

 

1. Laun þín hækka hægar en meðallaun.

2. Þú hefur eytt um efni fram.

3. Fasteign þín lækkaði meira í verði en aðrar.

 

Ef þú uppfyllir eitt eða fleiri af þessum þremur atriðum er það ekki á ábyrgð ASÍ, það er ekki á ábyrgð Alþingis, það er ekki á ábyrgð lífeyrissjóðanna og það er ekki á ábyrgð bankanna eða Íbúðalánasjóðs. Öll þessi þrjú atriði hér að ofan eiga það sameiginlegt að vera á ábyrgð eins (og aðeins eins) aðila – þín sjálfs!

 

Nokkur orð um þessi þrjú atriði:

================================

Atriði 1: 

Frá árinu 1989 hefur verið 3,7% atvinnuleysi að meðaltali á Íslandi og fór það hæst í 7,6% árið 2010. Á sama tíma hefur atvinnuleysi verið 9,5% að meðaltali á evrusvæðinu og 5,0% í Bandaríkjunum. Atvinnuleysi á Íslandi er því með því allra lægsta sem gerist í heiminum og menntun hefur verið að mestu leyti ókeypis á öllu þessu tímabili. Ef launin þín hafa hækkað hægar en hækkun meðallauna, er það í öllum tilfellum gerlegt og í öllum tilfellum á þinni ábyrgð að bæta úr því.

 

Atriði 2:

Að eyða um efni fram þýðir að útgjöldin þín eru hærri en tekjurnar og kallar í öllum tilfellum á auknar skuldir eða eignaskerðingu (sjá nánar: http://bit.ly/13tJ6uv). Vextir tilheyra hér útgjöldum og eiga þeir sérstaklega við um þá sem hafa tekið dýr yfirdráttarlán og önnur neyslulán (svo ekki sé minnst á hin sívinsælu smálán). Að kaupa eða flytja í dýrari fasteign en þú hefur efni á telst líka til þess að eyða um efni fram. Íslendingar hafa upp til hópa eytt um efni fram í gegnum árin og virðist engu máli skipta hvort hér sé góðæri eða kreppa (sjá: http://bit.ly/UXX5od). Þó að slík glórulaus hegðun hafi viðgengist á Íslandi í marga áratugi, er hún í öllum tilfellum óafsakanleg og í öllum tilfellum á ábyrgð hvers og eins!

 

Atriði 3:

Frá árinu 1989 hefur fasteignaverð hækkað jafn hratt og meðallaun í landinu ef frá er talin fasteignabólan sem hófst um mitt ár 2004 (sjá góða mynd af henni hér: http://bit.ly/VEVQwD) Fasteignabólan á Íslandi er ekkert öðruvísi en aðrar eignabólur sem hafa sprottið upp útum allan heim í mörg hundruð ár. Þeir sem kaupa og selja á réttum tíma hagnast mjög vel, en þeir sem kaupa á hápunkti bólunnar tapa miklu. Enginn getur þó með fullri vissu spáð fyrir um upphaf og endalok bólunnar og er oftast best að sleppa því að taka þátt í partýinu (og þ.a.l. þynkunni). Fasteignakaup eru í flestum tilfellum stærsta fjárhagslega ákvörðun sem einstaklingur tekur á ævinni og það ber enginn ábyrgð á þessari fjárfestingu annar en einstaklingurinn sjálfur. Í eignabólum eru góð ráð vissulega dýr, en það ber heldur enginn ábyrgð á því hvaða ráðum þú kýst að fylgja nema þú sjálfur.

 

Nokkur orð um ábyrgð einstaklinga:

================================

Frá því að við fæðumst og þar til við flytjum að heiman bera foreldrar okkar í flestum tilfellum ábyrgð á okkar eigin gjörðum. Þetta hugarfar breytist þó hjá flestum og fullorðið fólk lærir oftast að taka fulla ábyrgð á sínu lífi og öllum sínum ákvörðunum. Þetta á þó ekki við um alla. Sumir kjósendur vilja ekki kannast við að hafa kosið yfir sig sína fulltrúa á Alþingi. Sumir neytendur vilja ekki kannast við að hafa eytt um efni fram. Sumir húseigendur vilja ekki kannast við að hafa keypt fasteign á of háu verði. Og sumir lántakendur vilja ekki kannast við að hafa skrifað undir lán sín og þá skýru skilmála sem þeim fylgja. Í stað þess að bera ábyrgð, kennir þetta fólk öðrum um sínar eigin ákvarðanir. Því miður er þetta þó ekki alíslenskt fyrirbæri. Víða erlendis eru dæmi um að fólk kæri kaffihúsaeigendur fyrir að hafa brennt sig á tungunni og krefjast hárra bóta fyrir. Dæmi eru um að fólk halli sér of langt fram af stiga og kæri síðan framleiðanda stigans fyrir að hafa fallið til jarðar og slasast. Í öllum þessum tilfellum er fullorðið fólk að firra sig af eigin ábyrgð.

 

Í þessu samhengi er ágætt að rifja upp ástæður þess að bankar útum allan heim fóru á hausinn fyrir nokkrum árum. Því hefur margoft verið lýst hvernig bankamenn þurfa ekki að bera ábyrgð á eigin ákvörðunum, því ólíkt öllum öðrum fyrirtækjum er oftast vilji til að bjarga bönkum frá gjaldþroti á kostnað skattgreiðenda ef til þess kemur. Niðurstaðan er sú að bankamenn fara óvarlega, því þeir vita að þeir þurfa ekki að bera ábyrgð á eigin ákvörðunum. Hér á Íslandi hafa margir auðmenn ekki heldur þurft að bera ábyrgð á sínum eigin ákvörðunum og hafa fengið lán sín niðurfelld. Þetta er í öllum tilfellum algjörlega óásættanlegt! Ef menn fá að halda hagnaðinum ef allt fer vel, þá skulu þeir bera tapið ef illa fer – hvort sem þeir eiga 10 þúsund inn á bankabók eða 10 milljarða!

 

Því miður hef ég orðið var við allt of marga á þessum þræði sem hugsa nákvæmlega eins og þessir bankamenn. Fólk vill fría sig ábyrgð af eigin ákvörðunum og kæra allt og alla á grundvelli blekkingar. Þegar meðallaun hækka hraðar en verðlag, er ekki nokkur leið fyrir fólk að kenna verðtryggingunni um sína eigin greiðsluerfiðleika. Ekkert frekar en að kaffidrykkjumaður geti kennt kaffinu um að hafa brennt sig á tungunni. Með sama hætti getur fólk ekki kennt sjoppunni um að selja nammi ef börn þeirra borða of mikið af því. Eða kennt Vínbúðinni um að halda áfengi of aðgengilegu ef það drekkur í óhófi. Og fólk getur heldur ekki kennt bankanum um að bjóða upp á neyslulán ef það kýs sjálft að lifa um efni fram. Í öllum þessum tilfellum liggur ábyrgðin hjá fólkinu og aðeins hjá fólkinu!

 

Óábyrg heðgun í ríkisfjármálum og óábyrg heðgun landsmanna er okkar stærsta hindrun í baráttunni við verðbólguna og ýmis önnur þjóðfélagsleg mein. Það á alls ekki að vera nokkur þörf á verðtryggingu á Íslandi – en að kenna henni um glórulausa hegðun til margra áratuga er eingöngu til þess fallið að beina athygli frá rót vandans! Slíkt er því miður dæmt til að mistakast.

 

Nokkur orð um sjálfan mig:

================================

Því hefur verið kastað fram á þessari grúppu að ég hljóti að vera á launum hjá einhverskonar bankagrísum eða sjórnmálaklíkum við að gæta einhverra óljósra hagsmuna þeirra. Jafnframt hefur verið efast um að ég hafi sjálfur greitt af verðtryggðum lánum og að ég viti ekki af eign raun um hvað ég er að tala. Þess vegna finnst mér ágætt að leiðrétta þann misskilning strax.

 

Ég ólst upp hjá einstæðri 3ja barna móður og hef aldrei búið við nokkurs konar fjárhagslegt bakland eða sambönd inn í sérhagsmunaklíkur. Ég var tiltölulega slakur námsmaður í æsku og vann lengi vel við að afgreiða bensín (með fullri virðingu fyrir því starfi). Ég lifði óábyrgu lífi í mörg ár, lifði um efni fram og steypti sjálfum mér í verðtryggðar neysluskuldir sem námu margföldum árstekjum mínum á þeim tíma. Í lok árs 2007 tók ég þó fyrsta skrefið í átt að því að bera ábyrgð á eigin lífi. Ég hætti að neyta áfengis og hætti skömmu síðar að reykja. Ég ætlaði í nám haustið 2008, en þegar bankinn sagði mér að ég hefði ekki efni á því hélt ég til sjós um skamma stund. Mér tókst ekki að greiða upp mikið af mínum skuldum strax, en þó nægjanlega mikið til að hafa efni á námi að ári liðnu og kom þá líka tvíefldur tilbaka og staðráðinn í að standa mig vel. Ég hóf nám haustið 2009 og náði mjög miklum árangri þar, enda með skýr markmið og 100% ábyrgðartilfinningu að vopni. Ég sóttist eftir spennandi og krefjandi vinnu með námi og árið 2011 var ég ráðinn til starfa hjá gömlu og rótgrónu verðbréfafyrirtæki. Samhliða þessu stofnaði ég og byggði upp fyrirtæki sem í dag er með 60 manns á launaskrá og vegnar mjög vel. Snemma á árinu 2012 hafði ég greitt upp allar mínar skuldir.

 

Það hafa eðlilega margir vinir og vandamenn spurt mig hvað í ósköpunum gerðist hjá mér árið 2007. Svarið er mjög einfalt – ég breytti um hugarfar. Ég hætti að kenna ytri aðstæðum um mitt eigið líf. Ég hætti að kenna öðru fólki um mínar eigin ófarir. Ég varð auðvitað hundfúll þegar þjónustufulltrúinn „bannaði mér“ að fara í nám haustið 2008, en ég vissi innst inni að það var engum öðrum að kenna en sjálfum mér. Ég ákvað því líka að taka framvegis fulla ábyrgð á því hvernig ég bregst við ytri aðstæðum, enda hef ég mjög litla stjórn á þeim. Síðan þetta gerðist hef ég ekki hætt að brosa og ég er alltaf jákvæður og bjartsýnn. Ég verð aldrei reiður út í neinn, því ég veit að ég einn ber ábyrgð á öllum mínum gjörðum og því hvernig ég bregst við ytri aðstæðum.

 

Ég hef líka tekið eftir því að líkur sækir líkan heim og í dag umgengst ég annað fólk sem er nákvæmlega eins og ég. Neikvætt fólk sem eyðir öllum sínum tíma og orku í að kenna öðru fólki um sitt eigið líf, fær venjulega ekki símtal frá mér aftur. Þess vegna finnst mér líka mjög gaman að sjá vettvang eins og þennan þar sem fólk er samankomið með margra áratuga reynslu í því að kenna öðrum um og hlusta á umræðurnar sem hér fara fram.

 

Við ykkur hef ég bara eitt að segja:

„Stórkostlegasta uppgötvun mannkynsins er sú að maður getur breytt lífi sínu með því að breyta hugarfari sínu.“

Hér er færslan í heild sinni.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here