Fordómar gagnvart feitu fólki!

Hugleiðing um samfélagslega pressu.

Ég ætla að fjalla um það sem er búið að vera ofarlega í huga mínum síðustu daga. Nú er sá tími ársins að líkamsræktarstöðvarnar eru að taka á móti fjölda fólks sem hefur það eitt að markmiði að koma sér í þetta umtalaða form í eitt skiptið fyrir öll.
Til er mikið af fólki sem eru beinlínis “styrktaraðilar” líkamsræktarstöðvanna eins og ég kýs að kalla það.  Oft er staðreyndin sú fólk kemur og fjárfestir í árskortum og eru þar með oft búin að skuldbinda sig til 12 mánaða. Ég þekki mörg dæmi þess að fólk það mætir fyrsta mánuðinn ef það nær því og svo ekki söguna meir!

Ástæðurnar fyrir þessu eru auðvitað margar og ólíkar eins og gefur að skilja en það eru hlutir sem spila inn í þetta sem maður ef til vill hugsar ekki um of oft :

Í minni hugmyndafræði er líkamsrækt eða heilsurækt sú vinna sem hjálpar fólki að vinna á ýmsum líkamlegum kvillum. Það vilja allir verða betri útgáfan af sjálfum sér.  Það er ekkert leyndarmál að þegar þú ferð að vera sáttari við sjálfan þig þá bætist líkamsímynd þín og í nær flestum tilfellum bætist sjálfsímynd þín við það, það er að minnsta kosti mín reynsla, ég hef horft á fólk umturnast gjörsamlega með því að vera Jón Jónsson 1.0 í að verða Jón Jónsson 2.0. Það er síður en svo átakalaust og margar hindranir sem margir þurfa að yfirstíga. Það er ekki sjálfgefið að ná árangri í líkamsrækt, það kostar oftast heilmikla vinnu og margir hafa sig oft ekki í þessa vinnu. Það eru endalaus loforð hér og þar sem eru auglýstar skyndilausnir sem lofa þér árangri, það er ástæða fyrir því að þessar lausnir eru “skammlífar”. – Þetta er easy money í stuttan tíma fyrir seljendur en kaupendur sitja uppi með brostnar vonir. – Ég nefni til að mynda í þessi 12 ár sem ég hef verið viðloðandi þennan bransa þá hef ég ekki töluna á því hversu margar töfraformúlur hafa komið fram þá sérstaklega þegar kemur að næringar – hlutanum. Hérna fyrir ekki svo mörgum árum var það mjög vinsælt að ráðleggja fólki að borða frekar kolvetnasnautt matarræði (og er í raun enn gert sum staðar). Fólk í ofþyngd kom í hrönnum og fékk matseðla í hendurnar og var ráðlagt að kaupa hin og þessi fæðubótaefni sem sum eru ekki lengur til (skrítið). Á meðan þessu var framfylgt þá var fólk að léttast en það var ekki að grennast! Það er stór munur þar á. Svo þegar þessum “kúr var lokið” Þá nær undantekningalaust bætti fólkið þeirri þyngd á sig aftur sem það missti ef ekki meira, á ljóshraða. Og í rauninni í enn verra ásigkomulagi en þegar það byrjaði! ÞAð er svona sem vítahringur verður til.

 

Það er erfitt fyrir fólk sem er með lágt sjálfsmat að mæta á fjölfarna líkamsræktarstöð og horfa á alla tálguðu kroppana í kringum sig. Gríðarlega margir upplifa mikinn vanmátt og skömm vegna  þess að því finnst það ekki eiga heima þarna og það þarf ekki nema þetta stundum til að draga allan merg úr fólki að það gefur skit í þessi markmið sín að koma sér form. Þetta er sorgleg staðreynd.

 

Svo er auðvitað fullt af fólki sem finnst þetta einfaldlega hundleiðinlegt! Það missir næstum því lífsviljann að þurfa að vera inn á hefðbundnum líkamsræktarstöðvum. Það er einfaldlega lítið við því að gera og hvet ég fólk eindregið til að finna sér þá tegund af líkamsrækt sem hentar betur að þeirra áhugasviði. Það er í mörgu að velja! Samt er þetta fólk að fjárfesta sér í árskortum vegna þess að því langar og er ef til vill undir samfélagslegri pressu að lýta betur út (ég kem að því betur hér að neðan). Þetta er staðreynd og hún er sorgleg!

 

Samfélagsleg pressa:

Ég segi það og skrifa það hérna að það eru vissir fordómar gagnvart feitu fólki í þessu þjóðfélagi sem við búum í! Ekki bara feitu fólki heldur líka fólki sem er of grannt! Þetta eru fordómar sem hafa verið búnir til vegna staðlaðar ímyndar hvernig manneskja á að lýta út og þetta er hræðileg staðreynd. Til mín hefur komið fólk og sagt að það verði eitthvað að gera í sínum málum vegan þess að yfirmaður þeirra hefði tjáð þeim að það væri farið að bæta utan á sig með þeim rökum að það væri ekki vél séð að fólk sem frontaði fyrirtækið liti illa út! Þetta heitir EINELTI.   Er siðgæði fyrirtækja virkilega að verða svona?

 Ég veit það að ef þú ert ekki hreysti uppmálað þá áttu ekki sama séns og hinn til dæmis þegar kemur að því að velja fólk úr í atvinnuviðtali! ÞAð er reyndar alveg ógeðsleg þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum 10 – 15 árum hvað þetta varðar og ég held að það sé kominn tími til að það verði ákveðin vitundarvakning í þjóðfélaginu að dæma ekki fólk eftir útlitinu einu.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Ath að ég er ekki eingöngu að tala um of þungt fólk, heldur á fólk undir högg að sækja sem er of horað!  Kjarni málsins er sá að flestir halda að þeir sem eru of þungir eða halda ekki staðlaðri líkamlegri ímynd eigi við meiri sálræna kvilla að etja vegna líkamsástands síns, alltaf heyrði maður mýtur um að feit börn ættu væru í meiri erfiðleikum með nám heldur en þau börn sem ekki voru feit. Þetta er allt saman rangt. Rannsóknir hafasýnt fram á hvað eftir annað að:  Ofþyngd eða mikil líkamsfita stuðlar ekki að neinum sálarmeinum. ÞAð er fólkið sem ber mörina utan á sér sem mætir meiri andúð og vandlætingu samfélagsins sem brýst út í félagslegri einangrun, vanmætti og skömm. Það sama á við um fólkið sem er of horað!  Það hefur reynt en ekki náð árangri vegna þess að þessu fólki er sýndur of oft mjög lítill skilningur og þolinmæði. Það er þetta fólk sem virðist eiga í fjárhagserfiðleikum og rannsóknir hafa sýnt að það sé vegna félagslegra áhrifa sem ég kem að hér að ofan.

Tilbúnar staðlaðar líkamsímyndir er hættuleg þróun. Það að þú átt að lýta svona og hinsegin út.  Ef ekkert breytist þá mun Íslenskt þjóðfélag verða að búa sig undir það að etja kappi við stór  samfélagsleg og heilbrigðistengd vandamál í framtíðinni. Það er mitt mat að við munum ekki ná tökum á heilsufarsvandamálum tengd ofþyngd fyrr en tekið verður alvarlega á samfélagslegu  þáttunum fyrst.

Það er mín ósk að stærri og smærri líkamsræktarstöðvar taki höndum saman og víkki starfsemi sína í samstarfi við fagfólk. Til að mynda geðlækna, sálfræðinga eða aðra sérfræðinga og bjóði upp á nýjung sem hefur verið að ryðja sér til rúms erlendis sem er

HAM – Líkamsrækt. Sem er byggð upp af Hugrænni atferlismeðferð samhliða æfingum og virðist það vera að gefa mjög góða raun fyrir þá einstaklinga sem þurfa að hreyfa sig af heilsufarslegum og greinilega líka samfélagslegum ástæðum.

Björn Þór Sigurbjörnsson einkaþjálfari Body.is

SHARE