„Ég trúi ekki að ég sé að gera þetta!“

Mér finnst gaman að ferðast. Ég hef gaman að flugferðum erlendis og get ekki sagt að ég sé flughrædd, ekki þannig séð. Ég horfði á myndina Alive 150 sinnum þegar ég var krakki, en sú mynd fjallar um fótboltalið sem lendir í því að brotlenda uppi á fjalli og hvernig þeir fáu sem lifðu af, fóru að því. Þeir þurftu meðal annars að borða mannakjöt til þess að ná upp kröftum og svoleiðis og er þessi mynd sannsöguleg og mjög átakanleg en samt sem áður endar hún vel fyrir suma farþega vélarinnar.

Í seinustu viku fór ég svo til útlanda með dóttur mína og því fylgdi auðvitað mikill spenningur og eftirvænting en alltaf og nú meina ég ALLTAF þegar ég fer til útlanda, koma sömu hugsanirnar upp í kollinn þegar ég er búin að finna sætið mitt og er að fara að koma mér fyrir: „Ég veit að flugslys eru ekki algeng, EN ætli þessi flugvél sé að fara að hrapa í dag?“, „það eru allir svo áhyggjulausir að sjá hérna, erum við öll eitthvað klikkuð?“ og fleiri svona hamfarahugsanir.

Mér finnst nefnilega ekkert rökrétt við það að svona stór járnklumpur með stórum hreyflum eigi að geta haldist á lofti og flogið svona lengi og svona langt, fullur af fólki og farangri. Ég er auðvitað ekki búin að læra neitt um þetta og auðvitað veit ég ekki hvernig þetta allt saman virkar. Held það myndi samt ekkert hjálpa mér að fá skýringarmyndir af því hvernig þetta gerist því mér finnst þetta allt saman ekki eiga að vera hægt. Risa járnhlunkur að fljúga og lenda og allt þetta, án stórslysa, er bara alveg ótrúlegt. Við getum ekki hoppað af húsþaki eftir mjög langt tilhlaup og svifið, hvað sem við gerum, þyngdaraflið kemur í veg fyrir það.

Súrefnisgrímurnar kann ég á en veit ekki hvenær og við hvaða aðstæður þær eiga að notast. Þær falla niður úr loftinu þegar við eigum að nota þær og við eigum að setja þær á okkur, fyrst okkur sjálf og svo aðra. En hvað er að gerast þegar svoleiðis gerist, loftþrýstingurinn fellur já, en í hvaða aðstæðum er það? Getur það bara gerst allt í einu? Erum við að fara að hrapa þegar það gerist?

En eins og ég segi, þá er ég ekki flughrædd, svona yfirleitt. En eitthvað er það sem mér finnst ógnvekjandi við þetta allt saman, þessar hugsanir rúlla í gang þegar komið er að flugtaki og mér líður í smá stund eins og ég sé að gera STÓR mistök.

En 7-9-13 það hefur ekki enn gerst og ég er á leiðinni fljótlega út aftur. Hlakka mikið til en ég mun örugglega setjast í sætið mitt, spenna beltið og hugsa: „Ég trúi ekki að ég sé að gera þetta!“

 

SHARE