„Ég ver ekki gerendur eineltis, ekki lengur“ – Helga Guðný rýfur þögnina

Helga Guðný skrifaði þessa færslu, hér fyrir neðan, á Facebook og við fengum leyfi til að birta hana. Við spurðum Helgu jafnframt hvað það var sem fékk hana til þess að láta verða af því að rjúfa þögnina: „Ég hef orðið fyrir aðkasti frá því ég byrjaði í grunnskóla. Krakkarnir hafa alltaf fundið eitthvað að mér og svo byrja ég í 8. bekk og þessi umtalaði kennari byrjar að kenna mér, ég ákvað að dæma hann ekkert fyrr en ég hef upplifað þetta sjálf. Hann kemur ógeðslega fram við mig. Ég þurfti að þola ógeðslegt einelti af hans hálfu og nemenda eftir að áttundi bekkur byrjaði og það versnaði bara og versnaði,“ segir Helga

„Ég skipti svo um bekk þegar hann kom úr leyfinu sínu í byrjun þessa árs. Ég hélt að allt myndi skána en eineltið hélt áfram að versna. Á Þriðjudaginn fékk ég bara gjörsamlega nóg eftir að húsið okkar var grýtt og ákvað að sýna fólkinu að ég væri ekki hrædd og skömmin væri ekki þolendanna.“

Hér er færslan frá þessari huguðu stúlku:

Hæhæ, Helga heiti ég og þið nennið eflaust ekkert að lesa þetta en þið sem nennið að gefa ykkur tíma, ég hef pælt í því að skrifa þetta síðan í gærkvöldi en það var yndisleg manneskja sem gaf mér kjarkinn til að skrifa þetta, takk fyrir það. Í gær varð dropinn sem fyllti mælirinn algjörlega. Það var grýtt eggi í glugga hjá okkur. Ég hef orðið fyrir einelti síðan ég byrjaði í grunnskóla og hefur það verið misslæmt en aldrei verið jafn slæmt og síðustu ca. 2 og hálfa árið og bara versnað og versnað. Á þessu skólaári hefur dótinu mínu verið stolið marg oft, ég verð fyrir því nokkrum sinnum í viku stundum að það er búið að bleyta skónna mína og fyrir ca 2-3 vikum síðan kom ég inn í stofu og var þá búið að hvolfa borðinu hjá mér, henda öllu úr töskunni og dreifa því um gólfið. Þegar ég kom inn í tíma var ég SVO niðurlægð. Ég var ný búin að skipta um bekk og þetta skeði. Frekar mikið social suicide ef ég á að vera hreinskilin.

Þegar ég byrjaði í áttunda bekk fékk ég nýjan umsjónakennara, og var hann þessi umtalaði kennari sem er nú útum allt í fjölmiðlum. Hann kom hörmulega fram við mig. Hann tók þátt í eineltinu, gerði lítið úr mér, braut trúnaðarbrest, útilokaði mig og kom ömurlega fram við mig við tilgangslausustu aðstæður.

Af öllu sem hefur komið fyrir mig innan veggja skólans fannst mér útilokunin alltaf verst af öllu. Það eina sem ég bað um var einn séns, að fólk gæfi sér tækifæri til að kynnast mér. Ég var ekki að biðja um vini. Ég var að biðja um tækifæri til að sýna það að ég væri venjuleg manneskja eins og þið. Manneskja sem væri líka á staðnum, ekki ósýnilegt blóm uppá vegg.

Eruð þið ánægð núna, það er ekki auðvelt að gera mig brjálaða en ykkur tókst að hrekja mig burt úr skólanum. Eruð þið ánægð núna? Þó þið séuð það kannski núna hugsa ég að þið eigið eftir að sjá virkilega eftir þessu eftir eitthver ár þegar ég er byrjuð að fylgja mínum helstu draumum. Þá sjáið þið kannski að ég er bara venjuleg manneskja eins og þið öll.

„Dreptu þig bara“

„Þú ert bara leiðinleg, ljót og þykist vera manneskja sem er lögð í einelti sem þú hefur aldrei verið! og fólk hatar þig svo mikið svo sakarðu fullorðið fólk um lygi!! Mella!“

„Hverjum er ekki drull hvort þú skerir þig, ert fokking kjánaleg. Finnst þér skrýtið að fólk geri gys af þér ahah! Ert bara ógeð“

Finnst ykkur þetta vera fallegt? Held að fáum finnist það. Hvað fáið þið útúr þessu? Einelti er greinilega óstöðvandi en réttlætið sigrar að lokum! En allavegana ég veit ekki afhverju en ég hef alltaf verið sár yfir þessu en í gærkvöldi sprakk ég gjörsamlega. Ykkur á eftir að þykja það virkilega sorglegt eftir eitthver ár að hafa rústað árunum fyrir mér sem eiga að vera „bestu ár lífs míns“. Ykkur á eftir að þykja leiðinlegt þegar þið eruð orðin fullorðin og komin með börn, á þeim tíma sem þið eigið að vera fyrirmynd fyrir börnin ykkar að þurfa að pæla í því að hafa hrakið mig burt úr skólanum.

Mig hefur langað að opna mig um þetta síðan í gær en ekki þorað því útaf ykkar viðbrögðum en vitið þið hvað? Ég er ekki hrædd við ykkur og verð það aldrei Skömmin er ykkar, ekki mín!

Takk fyrir mig, rjúfum þögnina!

SHARE