Er legslímuflakk það sama og hægðatregða? – Opið bréf til landlæknis

Opið bréf til landlæknis og lækna og hjúkrunarteymis kvennadeildar LSH
– Er legslímuflakk það sama og hægðatregða?

Í janúar s.l. var dóttir mín mikið veik, hún endaði á bráðamóttökunni í Fossvogi og var þar í rúman sólarhring þar sem hún var sprautuð með verkjalyfjum á nokkurra tíma fresti. Verkirnir sem hún glímdi við voru nánast óbærilegir. Fyrir tveimur árum var henni sagt að hún væri mjög líklega með legslímuflakk eftir ítrekuð verkjaköst tengd blæðingum.
Í janúar fékk hún enn eitt kastið og eftir þennan rúma sólarhring á BMT var hún flutt yfir á kvennadeild LSH. Í upphafi þeirrar innlagnar taldi ég hana í góðum höndum og fannst hún vera komin á besta stað sem hún gæti verið á undir þessum kringumstæðum. Glansinn fór hins vegar fljótlega af og við tók erfitt tímabil, sérstaklega fyrir hana. Læknateymið á kvennadeildinni taldi að verkirnir sem hún glímdi við væru nú ekki komnir til vegna legslímuflakks, hlustuðu reyndar aldrei á dóttur mína þegar hún ítrekað reyndi að segja þeim hvers kyns var. Að þeirra mati var þetta bara bull og skýringin á þessum heiftarlegu kviðverkjum var fyrst um sinn líklega botnlangabólga og kallað til skurðlæknateymi sem útilokaði botnlangabólguna. Næst voru það nýrnasteinar og hún send í ómun. Þar voru nýrnasteinarnir útilokaðir. Þá var hún greind með svona mikla hægðatregðu sem orsakaði þessa kviðverki.

Þegar þarna var komið hafði hún varla borðað matarbita í nokkra daga en hins vegar tekið mikið af verkjalyfjum, bæði í æð og um munn. Þar sem hennar kviðverkir voru sagðir vera vegna hægðatregðu var hætt að gefa henni verkjalyf. Hún lá á sjúkrahúsi, í keng af verkjum, kúgaðist, kastaði upp og grét. Hún var algjörlega buguð.

Þar kom að mér blöskraði hvernig tekið var á hennar málum og ég æsti mig. Krafðist þess að fá að tala við lækni sem ég fékk. Eftir það samtal var ákveðið að gera kviðarholsspeglun á dóttur minni morguninn eftir. Þessi ákvörðun var tekin af vakthafandi lækni á kvennadeild LSH klukkan að ganga 22 og dóttir mín látin fasta frá miðnætti.

Morguninn eftir hringir hún í mig. Búið að fresta aðgerðinni um óákveðinn tíma. Læknirinn sem var þá kominn á vakt var ósammála því að gera kviðarholsspeglun enda stelpan bara með hægðatregðu. Þegar ég spurði hjúkrunarfólk á kvennadeild hvort ekki væri þá hægt að aðstoða hana við að losa um hægðatregðuna var svarið einfaldlega „Nei“
Ég æsti mig aftur og krafðist þess aftur að fá að tala við lækni. Þegar læknirinn kom spurði ég einfaldlega hvað væri í gangi? Kvöldið áður hefði verið ákveðið að gera aðgerð á dóttur minni til að komast að því hvort hún væri að glíma við legslímuflakk eða ekki og þá í framhaldinu hægt að veita meðferð í samræmi við það en daginn eftir væri ekki talin þörf á því. Mér virtist hver höndin vera upp á móti annarri og hvort sjúklingurinn ætti að þjást fyrir það eitt að læknarnir væru ósammála. Hún, læknirinn, viðurkenndi að það væri búinn að vera ágreiningur á milli lækna varðandi hvað væri að hjá dóttur minni og eftir að hafa rætt málin smá stund var ákveðið að taka stelpuna í kviðarholsspeglun, hún var enn fastandi þannig að það var hægt að fara strax í aðgerð.
Í aðgerðinni kom í ljós að hún var með legslímuflakksbletti í kviðarholinu. Þarna fékk dóttir mín smá uppreisn æru.

Rétt fyrir páska fær hún annað kast. Þar sem hún hafði verið kvödd á kvennadeildinni í janúar með þeim orðum að koma beint til þeirra þegar hún fengi annað kast fór hún beint þangað og fékk þar góðar móttökur. Fór beint í verkjastillingu og var inni í nokkra daga.

Í síðustu viku kom þriðja kastið á þessu ári. Minnug orða hjúkrunarfræðings þegar hún yfirgaf kvennadeildina þarna um páskana hringdi hún beint þangað á miðvikudaginn þegar verkirnir voru orðnir óbærilegir. Fékk þau svör þar að hún skyldi nú bara leita til læknavaktarinnar, það væri ekkert hægt að gera fyrir hana á kvennadeildinni. Hún fer sárkvalin niður á bráðamóttöku, gat ekki rétt úr sér. Þar tekur á móti henni hjúkrunarfræðingur sem hringir beint á kvennadeildina þegar hún heyrði hvað var að og jú, við máttum koma þangað. Þar tekur á móti henni læknir sem skoðar hana, tekur blóðprufu og þvagprufu segir henni svo að hún sé með hægðatregðu og það sé ekkert hægt að gera í því.
Jafnvel þó það komi skýrt fram í sjúkraskrám dóttur minnar að hún sé með legslímuflakk og verkirnir hafi verið svo sárir að hún gat ekki rétt úr sér, varla gengið og ekkert borðað frá því á mánudag annað en verkjalyf þá var ekkert hægt að gera fyrir hana á LSH. Ekkert.
Við fórum heim, verulega ósátt. Hún grét, kúgaðist, kastaði upp, lá með hitapoka, tók verkjalyf og fjölskyldan skiptist á að vera heima hjá henni. Oftar ein einu sinni leist okkur ekkert á hana og vildum fara aftur á bráðamóttökuna eða fá lækni heim en hún þverneitaði. Sagðist aldrei ætla á kvennadeildina aftur.

Ég spyr því landlækni, lækna og hjúkrunarteymið á kvennadeild LSH hvort það sé venjulegt að konur í verkjakasti vegna legslímuflakks séu sendar heim og sagt að losa um hægðatregðuna?

Margrét K. Björnsdóttir

SHARE