Er unglingurinn í neyslu?

teen drink joint

Nokkrar ábendingar til foreldra sem grunar að unglingurinn á heimilinu sé byrjaður í fíkniefnaneyslu

Ef foreldra grunar að unglingurinn á heimilinu sé kominn í óæskilegan félagsskap, jafnvel byrjaður í fíkniefna- eða áfengisneyslu, koma upp áhyggjur og ráðaleysi þeirra hvað skal taka til bragðs.

Hver þekkir unglinginn best?

Foreldrar og systkini eru yfirleitt þeir fyrstu sem sjá breytta hegðun viðkomandi unglings, sem hugsanlega er kominn í vímuefnaneyslu.

 

Sjá einnig: Ung kona tekst á við fíkniefnavanda

Hegðunarbreytingar

Við hassneyslu breytist unglingurinn, sem ef til vill hefur verið í virku félagsstarfi, íþróttum, o.s.frv. Hann missir áhugann og verður hálf sinnulaus gagnvart fjölskyldu, skóla og nánast öllu. Oft breytist vinahópur, hljómlista- og fatasmekkur. Einnig getur eigið hreinlæti orðið bágborið, þ.e.a.s. baðferðum fækkar svo og sinnuleysi gagnvart því að skipta um föt reglulega. Námsárangurinn fer dvínandi svo og skólasókn og algengt er að menn flosni upp úr skólanum eða vinnu. Svefnvenjur breytast sem leiðir til þess að erfiðara verður að vekja unglinginn á morgnana. Skapferli breytist oft, hann verður uppstökkur og skapverri. Mataræðið breytist og viðkomandi fer að verða sólginn í sælgæti, gosdrykki og önnur sætindi. Í fyrstu er neytandinn var um sig, felur efni og tól vel en sinnuleysið eykst með aukinni neyslu, þannig að ekki er eins varlega farið með efnið/tólin.

Á varðbergi!

Það sem foreldrar geta gert til þess að kanna nánasta umhverfið á/við heimili unglingsins er sára einfalt. Foreldrar verða að vera á varðbergi og vita að hverju þeir eiga að horfa eftir. Er föt unglingsins eru tekin til þvotta er hægt að leita í vösum. Hægt er að skoða yfirhafnir, úlpur, útisamfestinga og jakka. Eins þegar gengið er frá hreinum fatnaði í skápa og skúffur í híbýlum unglingsins. Þegar hreingerning stendur yfir á heimilinu er hægt að skoða ýmislegt í herbergi unglingsins. Þá er tilefni að færa hluti, hátalara-box, rúm, skáp og s.s. þá hluti sem hægt er að geyma á bak við eða undir. Skipta þarf um ljósaperur stöku sinnum og til þess þarf oft að taka niður ljósakúpla, sem er ákjósanlegur staður til að geyma smáhluti. Losa þarf úr ruslafötu og þá er gott að vita að hverju á að leita.

 

Sjá einnig:„Hann hélt hann væri klárari en dópið“

Notið ímyndunaraflið!

Það má segja að mitt í óreglunni sé ein regla sem er höfð í hávegum. Það er að öll þau tól og tæki, sem viðkomandi notar eru einhversstaðar vel varðveitt. Þessu er hægt að ganga út frá sem gefnu. Séu tækin ekki í herberginu eða inni í húsinu/íbúðinni þarf að gera leit á lóðinni við húsið, við ruslatunnur, í blómabeði, o.s.frv.

Hvers á að leita?

Eitt af því sem viðkomandi er kærast er hasspípan.
Hasspípan er gjarnan heimatilbúin en hægt er að búa til hassreykingapípu úr nánast öllu. Eina sem þarf er auðugt ímyndunarafl. Einnig er hægt að kaupa þar til gerða pípu í verslunum hér borginni. Einnig eru venjulegar reykjarpípur notaðar. Þá er hægt að krumpa saman Coke dós og gera síðan lítil göt á neðri hluta dósarinnar (síu/sigti) þar sem efnið er sett á og tendrað í til reykinga. Eftir notkun á dósinni er henni kastað. Tómur vindlingapakki er ákjósanlegur fyrir þá sem eru að meðhöndla fíkniefni, t.d. hass. Plastið utan um pakkan sjálfan er notað til að geyma efnið í. Úr bréfinu er hægt að búa til lítil „umslög“ sem eru þekkt sölupakkning fyrir sterkari efni, amfetamín, kókaín og þ.h. Bréfið inni í pakkanum, sem er með álhúð er notað til þess að verma tóbaksblandað hassið. („kokka í eina feita“). Það er gert með loga af kveikjara eða kerti og má þá sjá brúnan brunablett bréfmegin á pappírnum. Lítil box, dósir og kassar eru hlutir sem notaðir eru til geymslu fyrir fíkniefni. Algengt er að neytendur noti filmubox með loki. Litlar ílangar vogir, ca. 1 sentimetri í þvermál, eru notaðar af seljendum og neytendum til þess að kaupa ekki köttinn í sekknum. Þessar vogir eru kallaðar „grammavogir“ eða „PESOLA-vogir“. Þær eru til í ýmsum lengdum og mismunandi að lit (Pasellitir) en alltaf sama þvermálið, ca. 1 sentimetri. Hassmolinn er skafinn niður með litlum hníf áður en efnið er hitað og blandað saman við tóbakið, eins og áður er getið um. Fremst á hnífsblaðinu er svört tjörukennd drulla. Skál er notuð til þess að blanda saman hassinu og tóbakinu. Þegar hass er keypt er molinn vafinn í plasthimnu, eins og sett er yfir matarílát sem geymd eru í ísskáp. Oft má finna slíka plasthimnu í vösum á flíkum svo og ruslafötum. Hafa má í huga vindling sem búið er að taka tóbakið úr. Eins „fílter“ af vindlingi sem búið er að slíta af vindlingnum sjálfum. Eftir langvarandi notkun á hassi virðist sem minnið fari að þverra. Einfaldir hlutir eins og símanúmer og heimilisföng festist ekki í minni viðkomandi. Þess vegna er útbúin síma- eða minnisbók sem ætíð er gengið með.

Haldið ró!

Ef foreldrar fá vissu fyrir því að unglingurinn sé byrjaður í fíkniefnaneyslu er brýnt að halda ró sinni og fá faglega ráðgjöf um hvað skuli taka til bragðs. Þegar vissan er fyrir hendi þá getur það komið fyrir að foreldrar hafn i staðreyndinni og neiti að horfast í augu við orðinn hlut í stað þess að ráðast strax á vandann.

Hvert get ég leitað?

Hægt er að leita til skólans, kennara, skólasálfræðinga, skólahjúkrunarfræðinga, námsráðgjafans og fleiri. Utan skólans er hægt að leita til félagsþjónustunnar, lögreglu, presta eða ráðgjafa tengda meðferðastöðvum.

Einnig er hægt að fá aðstoð hjá fjölskyldumiðstöð Rauða krossins 

 

Fleiri heilsutengdar greinar eru á doktor.is logo

SHARE