Ertu umferðardólgur?

Ég hef lent í því tvisvar núna nýlega að ökumenn í umferðinni virðast vera alveg að tapa sér úr geðshræringu og reiði. Fyrra skiptið átti sér stað á Vesturlandsvegi á leiðinni frá Mosfellsbæ til Reykjavíkur. Það var mikil umferð og bílarnir voru margir og umferðin fór álíka hratt á báðum akreinum.

Ég færði mig á ákveðnum tímapunkti yfir á vinstri akrein því ég var að koma að hringtorgi þar sem ég ætlaði nánast heilan hring svo það var betra fyrir mig og alla að ég myndi vera á innri hring. Fyrir aftan mig var þá svartur Range Rover sem byrjaði að blikka og blikka ljósunum á mig og ég sá það í baksýnisspeglinum. Ég ákvað að halda bara áfram því það var að styttast í hringtorgið. Þá fór ökumaðurinn framfyrir mig og þar NEGLDI hann niður svo ég var næstum því búin að aka aftan á jeppann. Mér brá svakalega og bíllinn fyrir framan keyrði á um 40 km hraða og stoppaði alla umferð. Ég átti ekki til orð! Er fólk alveg að tapa sér? Ég fór þá yfir á hægri akrein og ætlaði að fara við hliðina á jeppanum en þá gaf hann í og keyrði á leifturhraða í burtu.

Seinna atvikið átti sér stað á Miklubrautinni að morgni og þá var ég á vinstri akrein. Ég stoppaði á rauðu ljósi og var rétt lögð af stað þegar bíllinni fyrir aftan byrjaði að flauta á mig. Hann bókstaflega lág á flautunni. Ég skipti yfir á hægri akreinina um leið og ég gat og bílstjórinn lág á flautunni meðan hann keyrði framhjá mér og um leið og hann sleppti flautunni gaf hann mér fingurinn.

Ég veit að margir hugsa örugglega núna: „já hún hefur keyrt alltof hægt og verið fyrir“ en það var alls ekki þannig. Ég keyri yfirleitt mjög greitt og hef oft verið sökuð um að keyra of hratt ef eitthvað er.

Í bæði þessi skipti var mér mjög brugðið og fékk dúndrandi hjartslátt og það tók smá tíma að jafna mig. Ég var í sjokki og var ótrúlega hissa á þessari framkomu. Ég skil bara ekki hvað fólki gengur til.

Til ykkar sem eruð umferðardólgar vil ég segja þetta: Slakið á og sýnið lágmarkskurteisi. Ég er nokkuð viss um að þið mynduð ekki vera svona dónaleg í samskiptum við fólk, auglitis til auglitis, er það nokkuð?

Elskum friðinn!

SHARE