Fær skýrari sýn á lífið í útlöndum

Brynhildur sagði upp vinnunni og bókaði ferð til Asíu ásamt kærastanum sínum. Hún veit ekkert hvað tekur við að ferðalagi loknu en ætlar að reyna að finna út hvað hana langar að gera þegar hún verður stór.

„Ég var búin að vera að hugsa hvort ég væri ánægð í vinnunni og hvort mér þætti raunverulega gaman. Og kannski ekki búin að vera alveg nógu sátt. Ég er nefnilega alin upp þannig að maður eigi að vakna á hverjum degi, vera glaður og hlakka til alls sem tekur við,“ segir lögfræðingurinn Brynhildur Bolladóttir sem sagði á dögunum upp vinnunni sinni á auglýsingastofu og bókaði sér flugmiða til Asíu ásamt kærastanum sínum. Hann missti sjálfur vinnuna fyrir skömmu og við það fór Brynhildur að ókyrrast enn frekar. Það var því ekki um annað að ræða en að gera eitthvað í málinu.

„Við fórum saman í ferðalag til Níkaragva og Kosta Ríka í nóvember og ég var bara ekki búin að fá nóg þegar við komum heim þaðan. Ég fann að mig langaði að ferðast miklu meira,“ segir Brynhildur sem tók sér ekki frí eftir menntaskóla til að ferðast, líkt og margir gera, heldur fór hún beint í lögfræði í Háskóla Íslands. Henni finnst hún því eiga smá ferðlagapakka inni.

Planið er að vera úti í tvo mánuði, en þau eru þó ekki búin að skipuleggja ferðina í þaula. Það eina sem er öruggt er að þau ætla að ljúka ævintýrinu á októberfest í München með stórfjölskyldu Brynhildar.

„Svo verður bara að koma í ljós hvað gerist þegar ég kem heim aftur. Ég er ekki smeyk núna en ég verð það pottþétt þegar nær dregur. Það koma eflaust upp peningaáhyggjur og fleira. Þetta reddast samt pottþétt allt,“ segir hún hlæjandi. „Ég þarf líka bara smá tíma til að finna út hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Ég er menntaður lögfræðingur og vann aðeins sem slíkur, en var ekki viss um að það væri fyrir mig. Svo fór ég að vinna á auglýsingastofu og er ekki heldur viss hvort það er fyrir mig. Ég þarf bara að finna sjálfa mig.“

Brynhildi finnst hún einmitt fá svo skýra sýn á lífið þegar hún er í útlöndum og því finnst henni Asíureisa tilvalinn vettvangur fyrir þessa naflaskoðun. „Manni líður eins og maður finni einhvern sannleika þegar maður fer í burtu. Þegar maður vaknar á hverjum degi bara til að vera til, skoða eitthvað nýtt, fá sér gott að borða og fara svo að sofa. Þetta er ekki líf sem ég myndi vilja lifa að eilífu en ég held að það sé stundum hollt að sinna sínum eigin duttlungum og þörfum.“

Eftir að Brynhildur sagði frá ákvörðun sinni um að hætta í vinnunni og fara í langt ferðalag hafa margir komið að máli við hana og tjáð henni hvað hún sé hugrökk. Sjálfri finnst henni það hins vegar ekki, allavega ekki vegna þessarar ákvörðunar. „Mér finnst ég bara vera að gera það sem maður á að gera. Ég efast ekki um þessa ákvörðun. Ég er ung, klár og dugleg og það mun allt reddast. Ég trúi því staðfastlega,“ segir Brynhildur sem efast ekki um að hún fái einhverja vinnu þegar hún kemur heim. Þó ég sé lögfræðingur þá er ég ekki of góð fyrir neitt starf. Það hlýtur einhver að vilja ráða mig í vinnu,“ segir hún kímin.

Mynd/Rut

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE