Fæturnir eru stoðir líkamans

Þeir eru undirstaða líkamans, eins og allir vita, og í öllum eðlilegum tilfellum eru það þeir sem hafa borið okkur á þá staði sem við höfum farið um og förum frá vöggu til grafar ef allt er eðlilegt.

 

Það er ekki þar með sagt að við höfum virt fætur okkar að sama skapi, það er langt því frá.

Fátækt, sparnaður, níska, forgangsröðun og ekki síst tískubylgjur kynslóðanna, hafa þar ráðið miklu. Þeim hefur að jafnaði verið haldið ofan í lokuðum skóm, oft og tíðum þröngum, skældum, ljótum og óþægilegum daginn út og daginn inn, hvort sem þeim líkaði betur eða verr.

Sjá einnig: Nuddaðu fætur þínar – Ótrúlega gott!

Mörg okkar, sérstaklega þeir sem eru komnir á efri ár, bera glögglega merki þessarar meðferðar á fótum sínum og koma þar inn í afleiðingar frá uppvexti eldra fólks eins og kal á fótum, sem var nokkuð algengt, og skófatnaður eins og kúskinnsskór sem voru hannaðir eins og eftir nýjustu tísku nútímans; þröngir, þunnir og támjóir.

 

Ef skótíska liðinna alda er skoðuð er það með eindæmum hvað hún hefur oftast verið támjó en ekki hönnuð eftir lagi fótarins. Þetta hefur trúlega þótt frá örófi alda fallegra og dæmi hver fyrir sig.

 

Fótavandamál

 

Orsök fótameina er mjög oft skófatnaður sem veldur óeðlilegum núningi og orsök núningsins er oft og tíðum tábeinsskekkjur vegna sina og/eða liðbandaveikleika.

 

Vörn líkamans er siggmyndun til að verja áreitta svæðið. Þar sem áreitið heldur áfram snýst vörnin upp í andhverfu sína þannig að siggmyndunin fer að þrýsta sér niður í neðri lög húðarinnar og þá oftast dýpra á einum punkti á áreitta svæðinu þannig að það verður eins og örvaroddur af siggi sem smýgur dýpra. Þetta kallast líkþorn, dauð sigghúð sem er komin niður í neðri lög húðarinnar þar sem taugaþræðir liggja og veldur þetta sársauka.

 

Verk fótaaðgerðafræðingsins er m.a. að hreinsa þetta sigg eða líkþorn í burtu. Ef áreitið heldur áfram kemur líkþornið að sjálfsögðu aftur svo að það sem verður að gera er að komast fyrir áreitið, og þá helst með hlífðarmeðferðum, sílíkon-meðferðum, innleggjum og svo framvegis.

 

Af þessu má sjá að líkþorn hafa ekki rót en það er spurning sem fótaaðgerðafræðingar eru oft spurðir. ”Ertu búinn að ná rótinni?” Vörtur hafa rót, þær eru vírus og nærast á okkur. Þar þarf að drepa rótina til að uppræta meinið.

 

Sveppir eru einnig algengt vandamál sem setjast m.a. á fæturna, bæði húð og neglur.

 

Yfirleitt er auðvelt að uppræta sveppi úr húð með kremameðferð en ef sveppurinn er kominn í neglur þarf á lyfjameðferð að halda sem er miklu meiri og alvarlegri meðferð.

Sjá einnig: Hvaða áhrif hefur sykursýki á fætur?

Ráðlegg ég eldra fólki að spyrjast vel um hjá læknum áður en lagt er upp í þá meðferð ( þá skiptir máli á hvaða lyfjum öðrum viðkomandi er) hvernig áhrif þau lyf hafa á sveppameðferðina og hvernig þau verka saman á lifrina. Gott er að fara fram á lifrarskoðun áður en meðferð hefst. Víða erlendis eru miklar kröfur gerðar á skoðun og ástandi líkamans fyrir lyfjameðferð á sveppum og fólki kynntar aukaverkanir sem kunna að myndast í meðferð.

 

Niðurgrónar neglur, naglaþykknun og naglrótarvandamál eru meðferðir sem koma daglega upp á borð fótaaðgerðafræðinga og eru þar til gerðar spangarmeðferðir, fræsun o.fl. sem eru til ráða. Þannig mætti lengi telja.

 

 

Tágómar og tanngómar

 

Sílíkon-hlífðargóm er hægt að líkja við tanngóm. Hann er notaður að degi til en tekinn af á nóttunni. Andstætt tanngómnum er hann mjúkur og sveigjanlegur.

 

Tágómurinn er sérhannaður fyrir hvern og einn eins og tanngómurinn. Hlutverk hans er að vera hlíf gegn líkþornum, stuðla að táréttingu, t.d. bognum tám, tám sem liggja hver undir annarri. Sílíkonið hefur gert kraftaverk hjá fólki sem hefur lamast á tám sem vilja kreppast saman. Þetta ber sérstaklega góðan árangur ef meðferðin er gerð eins fljótt og auðið er eftir lömun.

 

Fólk getur notað alla venjulega skó þótt það sé með tágóm, en ef ekki þá notar viðkomandi of litla skó eða gómurinn hefur verið gerður of stór.

 

 

Daglegar æfingar

 

Gerðu hverja æfingu minnst 10 sinnum tvisvar á dag

 

  • Snúðu ökklunum 10 sinnum rangsælis og réttsælis.
  • Beygðu ökklann upp og niður.
  • Krepptu og réttu úr tánum.
  • Glenntu tærnar í sundur og dragðu þær saman.
  • Tíndu hluti upp af gólfinu með tánum.
  • Ef þú getur, settu annan fótinn upp á hnéð, snúðu ökklanum og hverri tá með hendinni.
  • Settu fingurna milli tánna til að glenna þær betur í sundur.
  • Gerðu allt sem þér dettur í hug sem gæti verið gott fyr ir fæturna.
  • Kreistu saman rasskinnarnar og andaðu frá þér um leið. Þegar þú getur ekki meira losarðu um rassvöðvana og dregur djúpt inn andann. Endurtaktu þetta 10 sinnum tvisvar á dag. Það örvar blóðstreymið í fótunum, er gott fyrir kalda fætur og hentar vel fólki sem situr mikið við tölvu eða hreyfir sig lítið. Ódýr og árangursrík æfing.

 

Um mikilvægi fótaæfinga er aldrei of oft kveðið. Það getur skipt sköpum fyrir líkamsástand okkar um aldur og ævi hvernig við þjálfum fætur okkar. Því miður er ástand yngri kynslóðanna oft og tíðum bagalegt. Nú eru að koma upp vandamál sem ekki hafa þekkst áður og skapast það af skófatnaði, alltof góðum skófatnaði sem börnin fá áður en þau komast af skriðaldrinum. Fæturnir og jafnvægið fær ekki að stælast og þjálfast eins og eðlilegt er fyrstu tvö árin. Þau eru komin í göngugrindina í fílaskónum sínum með stífum botni og neðsti liðurinn sem hreyfist er hnjáliðurinn. Það er margt meira um þessi mál að segja sem ekki á heima hér. Þetta verða m.a. vandamál framtíðarinnar þegar þessir fætur fara að gefa sig og verða gamlir og lúnir.

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE