Fengu hláturskast á óviðeigandi tíma – Jóhanna Vilhjálms í Yfirheyrslunni

Stebbi Karls

Jóhanna Vilhjálmsdóttir starfaði lengi vel á RÚV í Kastljósi og í Íslandi í bítið, en í dag starfar hún við ritstörf og er nýbúin að gefa út Heilsubók Jóhönnu. „Í þessari bók er ég í raun að fræða fólk um það hvernig matur getur haft áhrif á heilsuna okkar. Ég fjalla t.d. um það hvernig matur getur ýtt undir bólgur í líkamanum eða dregið úr þeim en bólgur eru undirliggjandi þáttur í flestum ef ekki öllum þeim sjúkdómum sem við eigum við í dag,“ segir Jóhanna. „Ég fjalla ítarlega um fitusýrur, vítamín, steinefni, mjólk, kjöt, sykur, hveiti, spelt, grænmeti, ávexti, andoxara, aukaefni í matvælum, glúten, ensím, góðar bakteríur, föstur og fleira. Ég lít á þessa bók sem hjálparrit fyrir þá sem hafa áhuga á því að stíga skrefin í átt að heilbrigðari lífsstíl.“

Jóhanna skellti sér í Yfirheyrsluna hjá okkur á Hún.is

Fullt nafn: Jóhanna Vilhjálmsdóttir

Aldur: 42

Hjúskaparstaða: Í sambúð

Atvinna: Síðustu misseri hef ég verið að skrifa bók

Hver var fyrsta vinnan þín? Skúringar og að selja happdrættismiða fyrir SÁÁ.

Manstu eftir einhverju ákveðnu tískuslysi frá unglingsárunum? Litið á unglingsárin í dag voru þau eitt allsherjar tískuslys með risa herðapúðum og permanenti – sem þótti náttúrulega ótrúlega flott þá – en fyrsta ár unglingsáranna var ég mest í Gerplugallanum mínum, hafði ekki mikinn áhuga á tísku og hef ábyggilega þótt eitt stórt tískuslys í honum.

Áttu leyndarmál sem mun fylgja þér til grafar? Ábyggilega fullt af þeim sem ég er löngu búin að gleyma – þannig að engin alvarleg leyndarmál sem ég bý ein yfir

Hefurðu farið hundóánægð úr klippingu og sagt ekki neitt við klipparann? Ég er búin að vera hjá henni Þórdísi vinkonu minni í bráðum 20 ár og við erum búnar að prófa alls konar hluti á mér – flesta liti og allar hársíddir og við höfum alveg getað rætt málin ef hárið er ekki alveg eins og ég vil hafa það. Annars er hún svo mikill snillingur að það er erfitt að verða hundóánægður hjá henni.

Kíkirðu í baðskápana hjá fólki sem þú ert í heimsókn hjá? Nei mér gæti ekki verið meira sama um baðskápa annarra.

Vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í? Þau eru ábyggilega nokkur – eitt þeirra var á fundi með forsætisráðherra Svíþjóðar í frekar litlu herbergi þar sem ég gat engan veginn haldið mér vakandi undir ræðu hans – annað sem ég man eftir var í Íslandi í bítið þar sem ég og Þórhallur fengum hláturskast á mjög óviðeigandi tíma þar sem verið var að ræða alvarlegt málefni.

Í hvernig klæðnaði líður þér best? Gallabuxum og peysu eða bol.

Hefurðu komplexa? Ég hef haft fullt af komplexum í gegnum tíðina en með aldrinum og auknum þroska hafa þeir mest megnis fjarað út.

Hver er besta setning eða orðtak sem þú hefur heyrt? Þær eru nokkrar – „Þegar ég skil að lífið snýst um að læra, get ég fundið ávinning í öllum aðstæðum.“ er ein þeirra.

Vefsíðan sem þú skoðar oftast? Undanfarið hefur það verið pubmed.com sem er má segja bókasafn viðurkenndra vísindalegra rannsókna og fræðirita.

Seinasta sms sem þú fékkst? „Stuuuuuð“ frá vinkonu minni sem var að fara í þriðja skiptið á Októberfest á þessu ári.

Hundur eða köttur? Í dag myndi ég segja hundur – hef samt aldrei átt hund en átt nokkra ketti í gegnum tíðina

Ertu ástfangin?

Hefurðu brotið lög?  Já – ekið of hratt.

Hefurðu grátið í brúðkaupi? Já og ég get tárast við hin ýmsu tækifæri – fréttum, bíómyndum o.s.frv.

Hefurðu stolið einhverju? Nei

Ef þú gætir breytt einu úr fortíðinni hvað væri það? Það er hitt og þetta sem maður hefði viljað gera öðruvísi en svo er ég á því að hlutirnir séu eins og þeir eigi að vera þannig að allt hafi sinn tilgang – þannig að ég held að ég myndi ekki breyta neinu.

Hvernig sérðu þig fyrir þér þegar þú ert komin á eftirlaun? Ég vona að ég geti starfað við ástríðuna mína fram á háan aldur þannig að ég veit ekki með eftirlaunin! En mig langar að njóta samvista með manninum mínum, börnunum okkar, barnabörnum og jafnvel barnabarnabörnum. Mig langar að búa a.m.k. part úr ári í sólríku, heitu landi umvafin fjöllum, grænum gróðri og nálægt hafinu – þar sem ég rækta mitt grænmeti, jurtir, ólívur, vínþrúgur og stunda jóga og náttúrulækningar – en hver veit?! Er að gera mitt besta svo að heilsan muni leyfa mér það!

1001268_10151790811779088_1922595182_n

SHARE