Fermingardagurinn minn og hin sívinsæla fermingarmynd

Ég fermdist fyrir mörgum árum og sökum þess hversu afskekkt ég bjó, þá var fermt 18. júní en ekki um páskana, eins og tíðkast á flestum stöðum. Það var nefnilega þannig í sveitinni að vegurinn var ófær, nánast, frá október/nóvember og fram í maí, svo það var ekki í boði að ferma neitt fyrr en vegurinn var orðinn fær, eins og gefur að skilja.

Mér fannst ég auðvitað alveg brjálæðislega þroskuð og fullorðin, 13 að verða 14 ára, þið getið rétt ímyndað ykkur!

Fyrir ferminguna fór ég til Reykjavíkur og valdi mér fermingarkjól með móðursystur minni. Ég man að við fórum í 17 á Laugaveginum og ég valdi túrkisbláan kjól úr sundbolaefni en það var eitt það allra vinsælasta það árið. Það voru annað hvort sundbolaefniskjólarnir eða skósíðir þröngir kjólar. Svo voru allar stelpurnar með stóran síðan kross í allskonar litum. Ég fékk mína fyrstu hælaskó sem voru ekki beint dömulegir en ég stílaði upp á að geta notað þá við gallabuxur líka, eftir ferminguna.

Gestirnir í fermingunni sem komu frá öðrum stöðum á landinu voru flestir næturgestir svo ég fékk alveg frekar langa veislu og hún var haldin heima hjá okkur. Ég fór ekki í förðun og hafði aldrei plokkað á mér augabrúnirnar, eins og sést á myndinni, er með fínar samvaxnar augabrúnir. Ég var ekki með gloss og átti ekki maskara, hafði aldrei notað neinar snyrtivörur og kunni ekki neitt á svona. Mér fannst hinsvegar ótrúlega merkilegt að kona frænda míns sem er hárgreiðslukona og greiddi mér og maðurinn hennar átti flotta myndavél og tók myndir af mér. Frábær og yndislegur dagur sem endaði þannig að ég fór út með vinum mínum í körfubolta.

Mér hefur aldrei þótt fermingarmyndin mín neitt sérstök og ég frekar lúðaleg en seinustu ár hefur sú tilfinning breyst.

Frændi minn sem tók myndirnar lést úr krabbameini 49 ára gamall og það gerir myndirnar enn dýrmætari. Svona var ég sem unglingur og mér þykir bara nokkuð vænt um þessa sveitastelpu. Hún var ekki hipp og kúl heldur bara ósköp venjuleg.

Gjörið svo vel kæru lesendur! Hér er mín fallega mynd!

ghjghghbj

Ég vil endilega, í tilefni páskanna, hvetja ykkur sem flest til að pósta ykkar fermingarmyndum á Instagram með Hashtaginu #hun_insta.

Gleðilega páska, ást og friður í hvert hús.

SHARE