Fimm merkilegar konur sem stóðu með sjálfum sér!

Hér verður fjallað um fimm konur sem hver á sinn hátt fóru sínar eigin leiðir í lífinu og buðu samfélaginu byrginn – Þær stóðu með sjálfum sér! Það er við hæfi að fjalla um þessar merkilegu konur á Hún.is. 

 

1. DEBORAH MOODY

 

Lafði Deborah Moody var landnemi í „nýja“ heiminum, Ameríku. Hún fæddist 1580 á Englandi inn í auðuga fjölskyldu og sigldi til nýlendunnar í Massachusetts 1638, þá orðin ekkja. Yfirmenn kirkjunnar á Englandi höfðu mikið við framferði hennar að athuga af því að hún lét ekki skíra börn sín og taldi að fólk gæti látið skíra sig þegar það væri orðið fullorðið og vissi hvað það væri að gera. Á þessum tíma gat verið mjög hættulegt fyrir fólk að lenda upp á kant við kirkjunnar menn og hún ákvað að sigla til Ameríku. Hún seldi allar eigur sínar, fékk greitt fyrir í gullpeningum og þessa gullpeninga saumaði hún inn í pilsin á kjólum sínum. Hún hafði ekki verið lengi í Boston þegar henni lenti saman við „feðurna“ í nýlendunni af sömu ástæðum og kirkjunnar menn á Englandi ávítuðu hana. Vegna skoðana sinna var hún dregin fyrir dóm og ákvað þá að flytja til New York. Með henni fór hópur fólks sem var eins þenkjandi og hún og sætti sig illa við yfirgang púrítananna sem réðu flestu í nýlendunni. Deborah fékk úthlutað landsvæði sem hún nefndi Gravesend (eftir heimabæ sínum á Englandi) og ákvað að stofna þar bæ. Til þess fékk hún leyfi landstjórans. Hún bauð alla þá velkomna sem óskuðu eftir að setjast að þar hver svo sem trú þeirra væri eða litarháttur. Þarna var hún bæjarstjóri, skrifaði lög og reglur fyrir bæjarbúa og stjórnaði fundum. Hún ákvað skipulag bæjarins og má enn sjá hvernig hún skipulagði bæinn. Gravesend er nú hverfi í Brooklyn í New York borg. Deborah keypti eyju eina af Lenape indíánum sem þar áttu heima og ræktuðu þar maís og tóbak með meiru. Nú heitir eyjan Coney Island og þar eru skemmtigarðar og  góðar baðstrendur.

 

 

2. CYNTHIA ANN PARKER

Cynthia Ann Parker fæddist í Illinois 1825. Fjölskylda hennar flutti sig til Texas og nam þar land. Skömmu eftir að þau voru þangað komin réðust Comanche Indíánar á byggðina og rændu fimm manns, þeirra á meðal Cynthiu sem þá var 10 ára. Að nokkrum tíma liðnum skiluðu þeir fólkinu aftur, öllum nema Cynthiu. Hún var hjá Comanche fólkinu í tuttugu og fimm ár.  Þar leið henni vel og þótti mjög vænt um fólkið sem hún bjó með, fjölskyldu sína. Reynt var að tala hana til og fá hana til að snúa aftur til foreldra sinna, henni var jafnvel boðið fé ef hún vildi koma sjálfviljug en hún hafnaði því. Þegar hér var komið sögu átti hún þrjú börn með eiginmanni sínum, höfðingjanum Nocoma og hjá þeim vildi hún vera en hafði öðru hverju samband við blóðfjölskyldu sína. Árið 1860 gerði herdeild í Texas árás á Comanche fólkið og þá tóku þeir Cynthiu og drengina nauðuga með sér en dóttir hennar, sem var kornabarn varð eftir.

Drengjunum tókst fljótlega að sleppa og snúa heim til sín. Hún reyndi hvað eftir annað að flýja og fara heim til manns síns en alltaf náðist hún aftur og var þá farið með hana heim til foreldra hennar. Svo frétti hún að annar sonur hennar og litla dóttir hennar væru bæði dáin og þá var eins og hún missti alveg móðinn og hún dó skömmu síðar, aðeins 43 ára gömul. En sagan af hugrekki Cynthiu og kjarki lifir.

 

Sonur Cynthiu, Quannah varð höfðingi Comanche manna og barðist við riddalið Bandaríkjanna allt til ársins 1874. Þá var hann sendur í útlegð til Oklahóma en hélt höfðingjatign sinni til dauðadags, 1911. 

 

3. CHARLOTTE/CHARLENE PARKHURST

 

Charley Parkhurst var einn þekktasti og eftirsóttasti ekillinn í Villta Vestrinu. Hann var lágur vexti en mjög sterkur og öflugur. Tekið var til þess að jafnvel þegar hann var hættur ekilstörfum var daglegur afrakstur hans í skógarhöggi meiri en það sem yngri menn hjuggu. En þegar HÚN dó varð fólk sem hafði þekkt Charley lengi furðu lostið að frétta að Charley var kona.

Charlotte Darkey Parkhurst fæddist í New Hampshire árið 1812. Þegar hún var á barnsaldri klæddist hún strákafötum og vann á bóndabæjum við skepnuhirðingu og lærði að aka vagni- sem gat verið þó nokkuð flókið. Flótlega fór af honum/henni  það orð að hún væri mjög fær ekill. Hún var hrædd um að upp kæmist að hún væri kona og flúði eða flutti sig til Californiu. Þar gerðist hún ekill og var mjög eftirsótt. Upp komst um kynferði hennar en þeir sem komust að hinu sanna þögðu yfir því. Hún lést árið 1879 og þá komust læknar að hinu sanna um hana. Enn fremur kom þá í ljós að hún mun einhvern tíma hafa eignast barn. En margt er á huldu um ævi þessarar konu og verður sennilega aldrei ljóst.

4.  MARY FIELDS – Mary á póstvagninum

 

Mary Fields var þræll, fædd í Tennessee 1832.

Fátt er vitað um æskuár hennar en hún var mjög hænd að Dolly, dóttur „eiganda“ síns. Þær ólust upp saman. Dolly gekk í klaustur  í Toledo, Ohio og Mary fór með henni þangað og fékk vinnu við klaustrið. Dolly, sem tók sér nafnið systir Amadeus var send til Montana  til að boða indíánabörnum kristna trú og Mary fór á eftir henni. Hún fékk vinnu á kristniboðsstöðinn og var sett í mjög erfið störf.

Mary Fields var 1.86m á hæð, reykti vindla og drakk með körlunum og kom sér aldrei undan slagsmálum. Einhverju sinni kvartaði einhver karlinn yfir því að „þessi rígmontni svarti kvenmaður“ fengi meira kaup en hann og þegar hún heyrði þetta stökk hún af stað til að drepa hann. Upp hófst skotbardagi, sá kvartsári særðist lítillega en Mary var rekin. Hún reyndi fyrir sér í veitingarekstri sem ekki gekk. Þá fékk hún vinnu hjá póstinum. Áður hafði aðeins ein kona fengið vinnu við að koma póstinum til viðtakenda og furðaði ýmsa að svört kona skyldi vera ráðin í starfið. Mary var komin á sextugsaldur þegar hún fékk starfið hjá póstinum og frægt var hvað hún var dugleg og fylgin sér að koma póstinum í réttar hendur því að oft þurfti hún að fara erfiðar leiðir í misjöfnu veðri. Fólk kallaði hana Mary á póstvagninum. Mary hætti að bera út póst þegar hún var sjötug og þá opnaði hún þvottahús. Enn var hún sjálfri sér trú. Einhver viðskiptavinur kvartaði yfir þjónustunni og hún rotaði hann, 72 ára konan!

5. PEARL HART

 

Pearl Taylor fæddist í Ontario kringum 1871. Hún átti ósköp venjulega barnæsku en þegar hún var orðin unglingur varð hún ástfangin af Frederick Hart og stakk af með honum. Hart var ofbeldisfullur  drykkjumaður og sá á engan hátt fyrir Pearl eins og þá var vaninn að karlar gerðu og Pearl var mjög vonsvikin. Hart fékk vinnu við fjölleikahús í Chicago og var starf hans í því fólgið að hann átti að auglýsa sýningarnar á götum úti og fá fólk til að koma. Þar kynntist Pearl frábærum konum, skyttunni  Annie Oakley og baráttukonunni Júlíu Ward Howe. (Júlía var dóttir dr. Howe sem var frægur læknir í Boston og fyrsti skólastjóri Perkins skólans fyrir blinda í Boston. Af Júlíu er mikil saga sem ef til vill verður sögð á síðunni seinna!) Pearl fór frá manni sínum og flutti til Colorado. Þau hittust öðru hverju, nægilega oft til þess að saman áttu þau þrjú börn. Loks kom þar sögu að Pearl sleit samvistir að fullu við mann sinn og flutti til Arizona. Þar komst hún í tygi við útlaga að nafni Joe Boot og með honum fór hún að stunda ýmis konar lögbrot. Fljótlega eftir að þau tóku saman rændu þau farþegavagn og höfðu 450 dollara upp úr krafsinu og með það flýðu þau.  Fljótlega náðist í þau,  Hart var í karlmannsfötum og farið var að kalla hana „ræningjafrúna“. Þetta fannst henni þó nokkuð skemmtilegt og gerði í því að láta fjalla um sig í blöðunum hvenær sem færi gafst. Hún játaði sekt sína en var ekki dæmd því að fólk fann til með henni.

Dómarinn sem var ekki sáttur við að þurfa að sleppa henni fyrir ránið dæmdi hana fyrir ólöglega byssueign í fimm ára fangelsisvist. Boot var dæmdur í  þrjátíu ára fangelsisvist en slapp og sást aldrei aftur á þessum slóðum. Pearl kom sér mjög vel í fangelsinu og var þar í miklu uppáhaldi og þegar hún hafði setið inni í átján mánuði var hún náðuð. Hún átti eftir að verða fræg á leiksviði og í sýningum um Villta Vestrið en svo hvarf hún af sjónarsviðinu. Ekki er vitað um síðustu æviár hennar.

SHARE