Fimm undursamleg fegrunarleyndarmál sem má laga í eldhúsinu

Máttur náttúrunnar er gífurlega heilandi og hægt er að laga nærandi seið úr daglegum neysluvörum sem finna má í hverju sæmilega búnu eldhúsi. Og hér er ekki átt við nærandi og innihaldsríkar máltíðir, heldur rakakrem, andlitsmaska, hráefni í mýkjandi fótaböð og undursamlega líkamsmaska sem fara dásamlega undir sturtunni. 

Við sem lifum á öld lífrænnar dýrkunnar og látum vart ofan í okkur það innihaldsefni sem skaðlegt getur verið líkamanum – ættum þó oftar að líta okkur nær, því hörundið er stærsta líffæri líkamans  – sjálft eldhúsið býr yfir töframætti og þar er að finna nærandi innihaldsefni sem með litlum tilkostnaði né fyrirhöfn má laga á örskammri stundu; mýkir, nærir og græðir. 

Mjólk

Laktósasýra er afar mýkjandi fyrir hörundið og þannig er fersk nýmjólk tilvalin í fótabað heima fyrir. Prófaðu að velgja einn líter af mjólk í potti, blanda saman við ylvolgt vatn og láttu renna í fótabaðið. Mjólkin nærir hörundið og mýkir harða og erfiða fleti eins og á hælum og tábergi áður en ráðist er til atlögu við sjálfa fótsnyrtinguna að fótabaðinu loknu.

Grófmalaðar kaffibaunir

Það skyldi varla koma á óvart að grófmalaðar kaffibaunir geta orkað frískandi á hörundið og fjarlægt dauðar húðfrumur, örvað blóðrásina og jafnvel fjarlægt litabletti sem sitja fastir á hörundinu eftir erfiðisvinnu. Blandaðu saman rúmum desilítra af grófmöluðu kaffi saman við lífræna ólífuolíu (jafnvel má setja skeið af púðursykri eða grófu salti saman við) og nuddaðu blöndunni vel og vandlega inn í hörundið áður en þú stígur inn í sturtuna. Dásamleg leið til að hefja nýjan dag.

Eplaedik

Jafnar sýrustig húðarinnar. Svo einfalt er það. Blandaðu saman örlitlu magni af eplaedik við vatn (þynntu blönduna meir ef þú ert með þurrt hörund) og vættu í bómullarhnoðra. Þar með ertu komin með frábært andlitsvatn. Strjúktu yfir andlitshörundið þegar þú hefur fjarlægt farðann og finndu ferskleikann á hörundinu. Yndislegt.

Jarðarber

Jarðarber eru auðug af C-vítamíni og gott betur en það, frábært tannhvíttunarefni. Og þau geta líka fjarlægt tannstein. Stappaðu niður eitt ágætt jarðarber, stráðu örlitlum matarsóda (farðu varlega í matarsódann) og smyrðu á tannburstann. Burstaðu tennurnar upp úr blöndunni.  Ef þú treystir þér til er best að leyfa efnablöndunni að vinna sitt gagn í litlar fimm mínútur – einu sinni í viku.

 Haframjöl

Jú. Hér er átt við gamla og góða ORA haframjölið. Það sem finna má í flestum eldhússkápum og fæst í næstu matvöruverslun. Vissir þú að haframjöl er nærandi, flýtir fyrir endurnýjun húðarinnar, nærir og frískar þreytta húð?

  

2 dl haframjöl

1 egg

1/2 dl vatn

1/2 dl hunang

Smelltu öllu í blandarann (eða maukaðu með töfrasprota) berðu blönduna á hreint andlitshörundið og leyfðu maskanum að vinna sitt verk í u.þ.b. Fimm mínútur eða þar til þú finnur að hörundið fer að taka við sér. Hreinsaðu af með volgu vatni og njóttu. 

SHARE