Fordómar – hættum að þykjast

Fordómar hafa skaðleg áhrif á heilsu og líðan þeirra sem þeir beinast gegn en einnig hinna sem bera þá.  Það er þess vegna allra hagur að vekja sem flesta til vitundar um eðli þeirra og orsakir, hvernig þeir birtast og hvaða afleiðingar þeir hafa.   Þegar við dæmum einstaklinga fyrirfram á grundvelli alhæfinga og staðalmynda er um fordóma að ræða.

Fordómar eru hættulegir og særandi þegar þeir hafa áhrif á hegðun okkar og leiða til mismununar. Einstaklingur, sem er dæmdur út frá fyrirfram gefnum alhæfingum um tiltekinn hóp, er um leið sviptur möguleikanum á að sýna hver hann eða hún er í raun og veru, sjálfsmyndin brotnar og einangrun og einmanaleiki fylgja í kjölfarið. Fordómar eru því ekki skaðlausar skoðanir, heldur hafa bein áhrif á líf og líðan þeirra sem fyrir þeim verða. Fordómar eru þrálátir og því getur verið erfitt að berjast gegn þeim. En fordómar eru hvorki meðfæddir né eðlilegt atferli mannsins.  Þeir eru lærðir og með því að viðurkenna þá og gera sér grein fyrir sínum eigin fordómum má læra að losna við þá.

Sjá einnig: Hættum að dæma mæður sem gefa svöngum börnum sínum brjóst

Mikilvægt er að við tökum þá afstöðu að vera upplýst um fordóma, horfast í augu við þá og ræða eðli þeirra. Með því öðlumst við víðsýni og umburðarlyndi og drögum úr skaðlegum áhrif þeirra.

Viðurkennum eigin fordóma 

Fordómar vinna gegn okkur sjálfum.  Við þurfum ekki að vera hrædd við útlit fólks. Við þurfum ekki að vera hrædd við framandi tungumál og menningu, ólíkar skapgerðir eða geðheilsubresti. Við þurfum ekki að vera hrædd við fordóma. Þeir eru til staðar, innan í okkur og innan í öðrum. Viðurkennum þá!

 

Ég veit það

og þú veizt það,

og ég veit

að þú veizt

að ég veit

að þú veizt það,

samt látum við

eins og við

vitum það ekki.

 

Látalæti e. Jón úr Vör

 

Rætur fordóma eru oft á tíðum þekkingarleysi og skilningsleysi.  Fordómar gefa þeim sem fyrir þeim verða ekki sömu tækifæri og öðrum sem við höfum ekki fordóma gagnvart.

Mér er minnisstæður einstaklingur sem ég kynntist fyrir mörgum árum á geðdeild Landspítalans. Þessi einstaklingur var með geðklofa sjúkdóm en í afar góðu jafnvægi þegar þetta var, skarpgreindur maður sem hafði svo sannarlega mikið að gefa.  Eitt sinn þegar við vorum að ræða saman um lífið og tilveruna, sagði hann: ,,Hættu að þykjast!”  Ég ætti ekki að þykjast vera einhver vinur hans því það væri ég svo sannarlega ekki.  Hann væri þess fullviss að ef hann myndi hitta mig úti á götu eftir að hann útskrifaðist af deildinni myndi ég ekki heilsa honum.  Hann hafði upplifað mikla fordóma annarra í sinn garð og hann fann hvernig fólk forðaðist hann á götu.

Fleiri frábærar greinar má finna á doktor.is logo

 

Það var svo mörgum árum síðar að ég mætti honum á götu.  Hann var þá greinilega mjög veikur og varla þekkjanlegur, enda vildi hann örugglega ekki láta þekkja sig.  Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var komin inn í bíl að þarna hafði ég mætt þessum gamla vini mínum ofan af geðdeild og ég hafði ekki heilsað honum.  Ég hafði ekki heilsað vegna þess að ég þekkti hann ekki en ég spyr mig enn í dag að því af hverju ég þekkti hann ekki.  Var það kannski vegna eigin fordóma? Varaðist ég að horfa framan í þennan mann sem ég mætti þarna, vegna þess að ég hafði fordóma gagnvart því hvernig hann leit út?

 

 

 

Ég veit að þú ert með fordóma og ég veit að þú veist að ég er með fordóma.  Samt látum við sem við vitum það ekki.   Skoðum eigin fordóma og viðurkennum þá, þá fyrst getum við horfst í augu við þá og tekið ákvörðun um að sleppa þeim.

 

 

 

SHARE