Foreldrum ber að leggja út fyrir skólabókum barnanna – Dæmi eru um það að unglingar sjá alfarið um að kaupa inn fyrir skólann sjálfir

Nú eru skólarnir byrjaðir og umboðsmanni barna þótti ástæða til þess að ítreka það við foreldra að þeim beri skylda til þess að standa straum af kostnaði vegna námsgagna fyrir börnin. Dæmi eru um að unglingar sem hafa verið í vinnu í sumar taki þátt í kostnaði við bókakaup með foreldrum sínum eða sjái alfarið um að kaupa inn fyrir skólann sjálfir. Umboðsmaður barna vill því árétta það að foreldrum ber skylda til að sjá börnum fyrir þessum gögnum. Foreldrum ber skylda til að sjá til þess að börn þeirra njóti menntunar og þeim ber einnig að framfæra börn sín til 18 ára aldurs. Í því felst að foreldrum ber að sjá þeim fyrir því sem þau þurfa til að lifa, þroskast og njóta réttinda sinna. Hér fyrir neðan er tilkynningin í heild sinni

Foreldrum ber að leggja út fyrir skólabókum

Rétturinn til menntunar eru ein mikilvægustu grundvallarréttindi barns. Þessi réttur er m.a. verndaður í 28. gr. Barnasáttmálans og íslenskri löggjöf um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þá er í 28. gr. barnalaga fjallað um inntak forsjár en í forsjá felst m.a. skylda foreldra til að sjá til þess að börn þeirra njóti menntunar og starfsþjálfunar í samræmi við hæfileika þeirra og áhugamál og nái þannig að þroska hæfileika sína á þann máta sem best hentar hverju barni. Foreldrum ber einnig að framfæra börn sín til 18 ára aldurs. Í því felst að foreldrum ber að sjá þeim fyrir því sem þau þurfa til að lifa, þroskast og njóta réttinda sinna.

Þessa dagana er mikið að gera í bókabúðum og skiptibókamörkuðum enda er skólastarf að hefjast. Kaup á bókum og ritföngum getur verið stór biti fyrir heimilin og dæmi eru um að unglingar sem hafa verið í vinnu í sumar taki þátt í kostnaði við bókakaup með foreldrum sínum eða sjái alfarið um að kaupa inn fyrir skólann sjálfir. Umboðsmaður barna vill því árétta að það er hlutverk og skylda foreldra að leggja út fyrir þessum innkaupum í samræmi við ofangreind sjónarmið laga. Sjálfsaflafé og gjafafé barna er eign þeirra sjálfra og eiga þau að ráða hvernig því er varið, helst í samráði við foreldra. Ef foreldrar geta ómögulega lagt út fyrir bókum og ritföngum ættu þeir að hafa samband við félagsþjónustu sveitarfélaganna eða hjálparstofnanir.

SHARE