Frítíminn með fjölskyldunni: Engar helgar eru beint venjulegar

„Fjölskyldan á Brúsastöðum er sennilega ekki dæmigerð enda búum við örlítið fyrir utan bæjarmörkin og erum með hænur í garðinum, auk þess að vera með lítið athvarf í bílastæðinu með villiköttum sem tekur upp töluverðan tíma húsfreyjunnar,“ segir María Krista Hreiðarsdóttir, einn eigenda lífsstílsverslunarinnar Systur og Makar.

María Krista segir engar helgar vera beint venjulegar hjá fjölskyldunni, en hún á þrjú börn ásamt eiginmanni sínum, Berki Jónssyni. „Ef við viljum gera eitthvað með drengjunum sem búa enn heima, Mána 16 ára og Nóa 12 ára, þá er það helst að skjótast saman í bíó og mögulega innbyrða einhverja óhollustu á undan á vel völdum veitingastað borgarinnar. Máni stundar „downhill“ hjólasport af kappi, svo slíkar keppnir eiga hug hans allan og eru yfirleitt haldnar um helgar. Pabbi hans er duglegur að fylgja honum eftir í því, ég læt hins vegar duga að fylgjast með stráksa á Fésbókinni enda með hjartað svoleiðis í buxunum þegar drengurinn hendir sér niður grýttar brekkur á fjallahjólinu,“ segir María kímin.

Nói, yngri sonur Maríu og Barkar, er meira fyrir tölvuleiki en hjólreiðar. „Hann eyðir alltof miklum tíma fyrir framan skjáinn og mamman er stundum með svíðandi móral yfir því, en við trúum því að hann verði fræg YouTube-stjarna sem komi til með að halda fjölskyldunni uppi þegar líður á,“ segir María og hlær.

„Sumar helgar nýtum við í sumarbústaðnum okkar í Hvalfirði sem við eigum ásamt systur minni og mágkonu. Fullkomin helgi væri líklega að vera þar öll saman, vakna á svipuðum tíma, borða góðan morgunmat og slaka vel á. Það myndi toppa helgina ef elsta dóttirin, Mekkín, væri með í för en hún stundar nám í hjúkrun í Kaupmannahöfn og við sjáum alltof lítið af þessari elsku.“

SHARE