Fyrirtækið Betri Árangur hjálpar fólki að breyta um lífsstíl og ná ótrúlegum árangri – Ótrúlegar árangursmyndir

Katrín Eva, Maggi Bess og Alexandra Sif Nikulásdóttir eru fólkið á bak við fyrirtækið Betri Árangur en þau sérhæfa sig í því að hjálpa fólki að ná markmiðum sínum, breyta lífsstíl sínum til hins betra og komast í gott líkamlegt form. Þær Katrín og Alexandra birta reglulega myndir af fólki sem hefur náð frábærum árangri í þjálfun hjá þeim og eru þessar myndir svo sannarlega hvatning fyrir marga.

Ég heyrði í Katrínu og spurði hana hvernig þetta hófst allt saman:
Við Maggi byrjuðum með fjarþjálfunina í lok sumars 2010. Þá vann ég í fullu starfi í álverinu og hafði gengið lengi með þessa hugmynd, en við fengum mjög mikið af póstum frá fólki sem vildi leiðbeiningar um að komast í form, en við vorum þá bæði keppnisfólk í vaxtarrækt og fitness. Maggi á þar rúmlega 20 ára feril að baki og er enn að, en ég stuttan en farsælan og er í pásu vegna barneigna.”

Hlutirnir gerðust hratt og aðsóknin varð fljótt mjög mikil:
“Ég bjó til mína útgáfu af fjarþjálfun. Aðsóknin varð mikil alveg frá upphafi og ég hætti því í álverinu þar sem ég vann áður tveimur mánuðum eftir að þjálfunin fór af stað til að geta sinnt þessu. Fimm dögum eftir að ég hætti í öruggu starfi með góðar tekjur komst ég að því að ég væri ólétt og þá var að hrökkva eða stökkva. Ég einsetti mér að leggja allt mitt í þjálfunina og það hef ég svo sannarlega gert og sé sko ekki eftir því! Að vinna við það sem maður hefur áhuga á og að upplifa gleði og árangur daglega er sennilega eitthvað sem alla dreymir um.

Haustið 2011 bættist Alexandra Sif fitnessdrottning í hópinn og þær stöllur hafa unnið hörðum höndum að því að hjálpa fólki að láta drauma sína rætast:
“Alexöndru höfðum við þjálfað frá grunni og hún var ein af þeim fyrstu sem komu í þjálfun til okkar. Eftir að hún hóf störf hefur þjálfunin tekið stakkaskiptum enda er hún með metnaðinn í botni og  þjálfunin væri ekki á þeim stað sem hún er í dag ef hún væri ekki með okkur. Ég var að drukkna undan álagi, hafði einungis náð að hafa opið fyrir umsóknir tvisvar á árinu og því kom hún inn akkúrat á réttum tíma. Hún hefur komið með marga góða punkta til viðbótar og við eiginlega vinnum allan sólarhringinn að því að skrokkavæða landann. Ég kalla hana vélmennið því hún er mennskt vélmenni og passar uppá að allt sé í orden.”


Alexandra og Katrín hafa séð um þjálfunina alfarið undanfarin tvö ár og þjálfa konur eingöngu þar sem Maggi hefur haft nóg að gera að hugsa um ung börn þeirra hjóna:
“Við erum eingöngu með konur í þjálfun og planið hefur verið frá þeim tíma sem Alexandra byrjaði að bæta Magga aftur inn, en það hefur bara ekki gefist tími til þess, hvorki af minni hálfu né Magga, hann er alltaf í fæðingarorlofi að hugsa um krílin og þetta blessaða fæðingarorlof er alltaf að lengjast.” Segir Katrín en þau hjónin eiga nú von á þriðja barninu.

Aðspurð hvað þær leggi mestu áherslu á þegar konur koma til þeirra í þjálfun segir Katrín að það sé heilbrigður lífsstíll fyrst og fremst en þetta veit ég sjálf þar sem ég hef áður verið í þjálfun hjá þeim og ég bæði borðaði hollari mat og meira magn af mat en ég var vön, það kom mér á óvart:

“Það sem við leggjum mesta áherslu á er að kenna heilbrigðan lífsstíl. Þrátt fyrir að við séum öll í sporti sem krefst mikilla öfga þá þarf að kunna þennan gullna meðalveg til að ná að halda sér í formi á milli móta án mikillar fyrirhafnar. Við viljum kenna þeim sem leita til okkar að borða hollan og næringarríkan mat og hvernig hægt er að móta líkamann með lóðum. Við erum sérstaklega þekktar fyrir að kenna góðar æfingar fyrir rassinn, hjá okkur er það upphaldspartur kvenmannslíkamans og því gaman að það sé tekið eftir því.”

Mikilvægt að gefa sér góðan tíma, megrunarkúr varir aðeins í skamman tíma:

“Það sem okkur finnst mikilvægast að konur temji sér þegar þær ákveða að breyta lífshætti sínum til betri vegar er að gefa sér góðan tíma í það. Það er gott að spyrja sig einnar spurningar þegar lesið er um eitthvað sem á að virka til að td. grennast. ,,Er þetta eitthvað sem ég get hugsað mér að gera það sem eftir er?” Ef svarið er já, þá ertu að leggja af stað í lífstílsbreytingu, ef svarið er nei þá er þetta kúr og kúr varir aðeins í skamman tíma…. Hvað ætlarðu þá að gera eftir hann? Taka upp fyrri lífshætti aftur? Þetta er mögulegt með því að skipta óhollustu út fyrir hollari kosti og okkur finnst það skipta máli að hafa það mat sem er hægt að kaupa hvar sem er og öll fjölskyldan getur borðað saman. Með því að velja alltaf hollari kostinn og kunna sér hófs, þá er auðvelt að vera alltaf í formi án mikillar fyrirhafnar. ”

Mikilvægt að setja sér markmið og fylgja þeim eftir:

“Við biðjum alltaf um markmið í upphafi skráningar og tímaviðmið, sem við svo útskýrum hvort að sé raunhæft eða ekki þegar viðkomandi byrjar í þjálfun. Við leggjum upp með ef markmiðið er þyngdartap að missa ca. eitt og hálft kíló á 3 vikna fresti og með því að búta niður háleitt markmið niður í smærri áfanga verður þetta allt saman svo miklu auðveldara. Við fylgjum þessu eftir með því að láta viðkomandi mæla sig á 3 vikna fresti og taka myndir af sér á 6 vikna fresti. Það er sennilega það sem hvað flestum finnst erfiðast sem sækja um hjá okkur, þe. að senda myndir af sér til okkar á nærfötunum einum fata. En eftir á þakka þær fyrir það því það er ótrúlega gaman að fylgjast með breytingunum.”

Katrín átti tvö börn með stuttu millibili og nú á hún von á þriðja barninu, hún er því ýmsu vön en Katrín og Alexandra hafa sjálfar gengið í gegnum mest allt sem þær kenna og það er traustvekjandi fyrir fólk sem sækir um hjá þeim:

“Það er dálítið fyndið að segja frá því en allan þennan tíma sem við höfum verið að þjálfa þá hef ég verið annað hvort ólétt, eða nýbúin að eiga. Ég átti mitt fyrsta barn Ísabellu Bess vorið 2011 og varð svo aftur ólétt fljótlega aftur, 14 mánuðum seinna fæddist sonurinn Ísak Auðunn Bess sumarið 2012 og nú er ég aftur ólétt og á von á mér í lok árs 2013.”

“Við getum því leiðbeint konum með góðri samvisku því við höfum gengið í gegnum flest af því sem við kennum. Ég hef grennt mig um 15 kg, byggt mig upp, köttað mig niður, keppt í skrokkakeppnum, fætt börn og haldið mér í formi á meðan, og komist í form eftir meðgöngur. Alexandra hefur þyngt sig og mótað, þyngt sig svo verulega og köttað sig niður, keppt margsinnis, fyrst í módelfitness svo í fitness og hún heldur sér í frábæru formi allt árið um kring.”

Öðlast mikla reynslu og læra af konunum sem þær þjálfa:
“Reynslubankinn okkar er orðinn ansi vænn, en reynslan sem við öðlumst með því að hjálpa svona mörgum konum er ómetanleg, við lærum nefnilega líka fullt af þeim. Þetta eru stúlkur og konur með mismikla reynslu æfingalega séð, búsettar út um allt land og margar hverjar erlendis. Við höfum náð frábærum árangri í öllum “markmiðaflokkunum” okkar, hvort sem þær eru að leitast eftir að grennast, byggja sig upp, koma sér í form eftir barnseignir, osfrv. Við höfum einnig þjálfað yfir fimmtíu flottar stúlkur fyrir fitnesskeppnir sem hafa náð afrekum eins og að verða Íslandsmeistarar, Bikarmeistarar og Arnold Classic meistari.”

“Helsta hvatningin sem við getum gefið öðrum er að renna í gegnum árangursmyndaalbúmið okkar” Segir Katrín en í albúminu sem við munum birta hér sjáum við myndir af allskyns konum sem leita til okkar, bæði konum sem vilja þyngjast  og konum sem vilja styrkjast og grennast á sama tíma.

Það sem er frábært við þær stöllur er að þær hvetja fólk til að lifa heilbrigðu líferni. Þær fara ekki út í öfgar í mataræði og leggja mikið upp úr því að fólk borði ekki of lítið heldur nóg af hollum og góðum mat. Í prógramminu sem ég fékk hjá þeim á sínum tíma var ég fyrst gapandi yfir magninu af mat sem þær vildu að ég borðaði yfir daginn, mér fannst þetta svo rosalega mikill matur. Málið var bara að hann var hollur og góður og ég hreyfði mig og lyfti með. Þetta eru einkaþjálfarar sem vilja ekki neina megrunarkúra og vilja ekki að konur séu að svelta sig. Þarna leggja þær áherslu á að maður sé hraustur og byggi upp vöðva, það er ekki verið að reyna að segja konum að vera horaðar, heldur hraustar og það kann ég að meta, svo aðlaga þær plön sín eftir hverri manneskju, sumir vilja þyngjast og bæta á sig vöðvamassa meðan aðrir vilja grennast og styrkjast.  Prógrammið þeirra er til að mynda gott fyrir fólk sem á það til að gleyma að borða eða borðar of lítið, þær eru duglegar að minna mann á að maður þarf að muna eftir því að borða svo að líkaminn sé hraustur og maður kemst ekkert upp með það að svindla á því hjá þeim þar sem maður fær gott aðhald og það er það sem fólk leitar eftir þegar það leitar til þeirra. Það sem mér finnst skipta aðalmáli er að fólki líði vel í eigin skinni, hvort sem þú ert smágerður eða stórgerður, svo lengi sem fólki líður vel og er heilbrigt þá er markmiðinu náð!

Hér eru nokkrar myndir af konum sem hafa náð þeim árangri sem þær vildu.

SHARE