Gerðu bílinn skínandi hreinan að innan

Notaðu lítinn svampbursta til þess að ná á milli rifa í viftum í bílnum. Einnig geturðu notað pensil en ryksugaðu jafnóðum svo að rykið þyrlist ekki bara upp og setjist annars staðar í bílnum.

Farðu djúpt í alla vasa, hirslur og króka bílsins og sæktu allt rusl og drasl – það er ótrúlegt hvað getur leynst í myrkustu hornunum – sér í lagi ef börn eru í spilunum.

Töfrasvampur frá Blindravinnustofunni virkar ótrúlega vel á mælaborðið, sér í lagi ef það eru fastir blettir sem nást illa af með tusku. Töfrasvampurinn virkar vel á sparkför barnanna sem virðast stundum vera um allan bíl. Það virkar líka vel að nudda vel með tannbursta ef óhreinindin ligga þeim mun dýpra.

Ef það eru gæludýrahár sem virðast nánast hafa gróið föst við bílsætin er gott ráð að spreyja vel í sætin með sápublönduðu vatni og skafa svo fast með gluggasköfu.

Notaðu lítinn bursta til að ná kuski og mylsnu upp úr skilum og saumum á áklæði sæta bílsins.

Ef litir eða annar ófögnuður hefur bráðnað í sætin geturðu notað straujárn og dagblöð til þess að ná því úr. Leggðu blaðið á blettinn og straujaðu hægt yfir.

Ef þú vilt forðast að nota mikið af sterkum efnum er gott ráð að blanda matarsóda og ediki við vatn og þrífa bílinn að innan með svampi og þessari blöndu.

Þrífðu gluggana að innan með dagblöðum og strjúktu yfir með hreinum þurrum klút.

Það borgar sig að vera með almennilegar mottur hér á norðurhjara veraldar – annars kemur auðveldlega gat á þær, gólfið verður rennblautt þegar þú ferð að bera snjóinn inn í bíl og gólfteppið fer að lykta illa. Þrífðu motturnar með því að skrúbba þær vel með uppþvottabursta og sápu. Leyfðu þeim að þorna áður en þú færir þær aftur inn í bíl.

 

Heimildir: Fréttatíminn

SHARE