Góðkynja stækkun blöðruhálskirtils

Hvað er góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli?

Blöðruhálskirtillinn er lítill kirtill á stærð við valhnetu. Hann er einungis í karlmönnum og liggur neðan við þvagblöðruna og liggur þvagrásin í gegnum kirtillinn og fram í liminn. Kirtillinn myndar sæðisvökva sem blandast sáðfrumunum frá eistunum við sáðlát. Með aldrinum stækkar kirtillinn og einkenna vegna stækkunar fer að gæta milli fimmtugs og sextugs og er talið að um 50% karlmanna á þessum aldri hafi góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli. Tíðnin vex svo með hækkuðum aldri.

Hvaða einkenni koma fram við stækkun á blöðruhálskirtli?

Helsta einkenni góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli er truflun á þvaglátum. Þessum einkennum má gróflega skipta í tvennt, annarsvegar vegna teppu sem stækkuninn veldur og hinsvegar vegna ertingar sem verður á blöðruna. Mikilvægt er að hafa í huga að eftirfarandi einkenni geta einnig átt við um aðra sjúkdóma, þ.á.m. illkynja breytingar í blöðruhálskirtli og því alltaf mikilvægt að leita læknis ef þeirra verður vart.

Einkenni sem verða vegna teppu:

  • Lítil eða slöpp þvagbuna.
  • Bunubið, þ.e.a.s. bíða þarf eftir bununni þannig að þrátt fyrir að einstaklingurinn þurfi að pissa getur staðið á því að takist að koma bununni af stað.
  • Þvagleki.
  • Truflun á þvaglátum, þannig að erfitt er að tæma þvagblöðruna og eftir þvaglát er tilfinning að blaðran sé ekki enn tóm.
  • Þvagteppa.

Einkenni sem verða venga ertingar:

  • Þvagleki
  • Tíð þvaglát bæði á daginn og á nóttinni.
  • Skyndileg þvaglátaþörf, í sumum tilvikum eiga menn erfitt með að komast á salerni þar sem aðdragandinn er mjög stuttur.
  • Sviði eða sársauki við þvaglát.

Sjá einnig: Viðbrögð við greiningu krabbameins

Geta fylgikvillar orðið alvarlegir?

Í sumum tilfellum getur stækkunin haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Stækkun á blöðruhálskirtli getur valdið bráðri þvagteppu, þ.e. vegna þrýstings á þvagrásina kemst þvag ekki úr blöðrunni og hún yfirfyllist. Bráð þvagteppa er sársaukafull og því er mikilvægt að meðhöndla hana strax, bæði vegna verkja en einnig vegna þess að yfirfull þvagblaðra getur valdið skemmdum á nýrum. Einnig getur stækkun á blöðruhálskirtli smám saman minnkað blöðrutæmingu og blaðran þenst út og getur valdið skemmdum á nýrum. Aðrir fylgikvillar geta verið síendurtekin blöðrubólga og steinamyndun í þvagblöðrunni.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Læknirinn byggir sjúkdómsgreininguna á nokkrum athugunum. Sjúklingur er spurður ákveðinna spurninga sem hjálpa lækninum að meta hversu mikil einkennin eru. Stundum er þörf á að fylgjast með hversu tíð þvaglát eru og þau eru þá skráð og er þá einnig nauðsynlegt að fylgst með vökvainntöku. Til þess að meta stærð kirtilsins þreifar læknirinn á blöðruhálskirtlinum og er það gert með því að læknirinn setur fingur upp í endaþarm sjúklings. Þá er oft mælt PSA (Prostata Specific Antigen) í blóði sem getur gefið vísbendingar um eðli vandans. Einnig er rannsakað þvag og metin starfsemi nýrnanna með blóðsýni.

Í sumum tilfellum er frekari rannsókna þörf og eru þá m.a. gerðar þvagflæðimælingar og mælt hversu vel blaðran tæmist. Ómskoðun af nýrum eða röntgenmyndataka getur einnig reynst nauðsynleg og í sumum tilfellum er gerð speglun á þvagrás og blöðru.

Sjá einnig:Héldu að krabbamein væri þungun – Konan lést

Hver er meðferðin?

Ef einkenni góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli eru væg þarf ekki neina sértæka meðhöndlun og þarfnast því stór hluti þeirra karlmanna sem hafa góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli engrar meðferðar. Þó er reglubundið eftirlit hjá lækni alltaf nauðsynlegt þar sem fylgst er með því hvort einhver breyting verði á stækkuninni. Við alvarlegri einkenni er meðferð nauðsynleg. Fyrsta meðferð felur oft í sér að sjúklingi eru gefin lyf með það fyrir augum að minnka einkennin.

Hvaða skurðaðgerðir eru í boði?

Í sumum tilfellum getur reynst nauðsynlegt að gera aðgerð og er þá hluti af hinum stækkaða kirtilvef fjarlægður. Algengasta aðgerðin (TURP) er gerð með speglun. Þá er farið upp í þvagrásina í gegnum þvagrásaropið og þvagrásinni fylgt upp að kirtlinum þar sem hluti af vefnum er skrældur burt. Ef blöðruhálskirtillinn er mjög stór getur skurðaðgerð gegnum kviðvegg verið nauðsynleg, þó er það afar sjaldgæft í dag.

Skurðaðgerð er áhrifamesta meðferðin sem beitt er í dag en það er þó alltaf hætta á fylgikvillum líkt og við allar skurðaðgerðir.

Algengustu fylgikvillar aðgerðar eru:

  • Hluti sæðis fer upp í þvagblöðruna við sáðlát í stað þess að fara út um þvagrásina. Þessi hluti sæðisins getur því komið út um þvagrásina við næstu þvaglát.
  • Hjá hluta sjúklinga minnkar kyngetan.
  • Ef hringvöðvi þvagblöðrunnar skaðast vegna aðgerðarinnar getur þvagleki orðið varanlegur. Þetta er þó sjaldgæft.
  • Þrenging getur orðið í þvagrásinni vegna örvefs sem myndast eftir að kirtilvefur hefur verið skrældur burtu. Þetta er hægt að laga með minniháttar skurðaðgerð.

Endingartími skurðaðgerðar (TURP) er góður. Þó er stundum þörf á annarri aðgerð. Eftir tíu ár hafa u.þ.b. 20% þurft að gangast undir aðra skurðaðgerð á meðan 80% búa við góðan árangur.

Í sumum tilfellum hentar ekki sjúklingi að fara í aðgerð á blöðruhálskirtli en engu að síður nauðsynlegt að opna þvagrásina. Í þessum tilfellum getur hentað að setja nokkurs konar rör (stent) upp í þvagrásina og er því komið fyrir í þvagrásinni á móts við blöðruhálskirtilinn og þannig hægt að auðvelda losun blöðrunnar.

Einnig getur þvagleggur hjálpað til við að tæma þvagblöðru hjá þeim sjúklingum sem ekki er treyst í TURP aðgerð. Þá er þvagleggurinn ýmist þræddur í gegnum þvagrásina og upp í blöðruna eða hann er lagður í gegnum kviðvegginn og blaðran tæmd reglulega. Annar möguleiki er að kenna sjúklingi að setja upp þvaglegg í gegnum þvagrás og kenna honum þannig að tæma þvagblöðruna í hvert sinn sem blaðran þarfnast tæmingar og því ekki nauðsynlegt að þvagleggurinn sé alltaf til staðar inn í blöðrunni.

 

SHARE