Góður nætursvefn er lykillinn að góðri geðheilsu

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin þegar kemur að góðum nætursvefni. Sumir sérfræðingar vilja meina að geðheilsa okkar sé að stórum hluta undir því komin hversu góðan svefn við fáum. En flestir lenda einhverntímann í vandræðum með svefninn og aðrir eiga krónískt í vandræðum með hann. Ýmislegt er hægt að gera til þess að fá sem mest út úr hvíldinni.

*Farðu alltaf á svipuðum tíma að sofa og vaknaðu á svipuðum tíma. Líka í fríum. Það er erfitt en borgar sig, sér í lagi fyrir svefnvandamálagemlinga. Svefnrútínan á líka að vera svipuð, að þú gerir hlutina fyrir svefninn nokkurn veginn eins.

*Ef þú ert andvaka, stattu þá upp og gerðu eitthvað í smástund; fáðu þér vatnsglas eða kíktu í bók. Kvíðinn yfir því að sofna ekki getur valdið því að þú sofnir ekki, því er gott að blekkja líkamann aðeins og byrja upp á nýtt.

*Ekki fara pakksödd/saddur í rúmið en ekki heldur með garnirnar gaulandi. Passaðu þig að þamba ekki vatn fyrir svefninn svo þú þurfir síður að vakna til að pissa og mundu að bæði kaffi og áfengi hafa neikvæð áhrif á svefn.

*Rúmið er staður svefns og kynlífs. Allt annað, s.s. skrifa tölvupóst, vera í tölvuleik, hanga á Facebook, lesa, horfa á vídeó – þetta á að gera annars staðar en í rúminu. Raunar ætti að slökkva á öllum skjám og öðru áreiti a.m.k. klukkutíma áður en farið er í rúmið. Gangi ykkur vel með það.

*Ekki hafa of heitt í svefnherberginu. Best er að hitastigið sé um 15-19°C.

*Leggðu á þig smávegis vinnu við að finna sæng og kodda sem henta þér best. Prófaðu mismunandi kodda og sængur og athugaðu að þú gætir þurft að eiga sumar- og vetrarsæng. Sængurfötin geta líka skipt máli, gerviefni eiga ekki heima í neinu rúmi!

*Ekki hika við að nota alls kyns hjálpartæki; myrkragardínur, eyrnatappa, svefngrímu, jafnvel róandi tónlist og lavender ilmolíur. Allt sem hjálpar þér að ná góðri slökun.

*Að taka „leggju“ yfir daginn er gott og blessað en ekki allir þola það. Smávegis kría getur haft áhrif á nætursvefninn. Taktu frekar góða slökun án þess að festa svefn.

*Líkamsrækt hefur ótrúlega góð áhrif á nætursvefninn. Þið sjáið hvernig börn steinrotast eftir aktíva daga – sama á við um okkur fullorðna fólkið.

Úthvíld Nætursvefninn skiptir öllu máli fyrir góða líðan yfir daginn.

SHARE