Grænar gallabuxur og jakki í stíl – Jónas Sigurðsson í Yfirheyrslunni

Jónas Sigurðsson er löngu orðinn landsmönnum þekktur fyrir tónlist sína og einlægan og fallegan flutning hennar. Um þessar mundir fagnar Jónas útgáfu nýrrar plötu sinnar, Þar sem himinn ber við haf, en plötuna vann hann í samstarfi við Lúðrasveit Þorlákshafnar. Í tilefni útgáfu plötunnar verða haldnir stórfenglegir tónleikar dagana 19. og 20. október kl 21:00 í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn. Hægt er að fá miða á tónleikana á Miðakaup.is

Jónas segir okkur örlítið frá sér í Yfirheyrslunni að þessu sinni:

Full nafn: Jónas Sigurðsson
Aldur: 38 ára
Hjúskaparstaða: Giftur
Atvinna: Kerfisfræðingur/Tónlistamaður

Hver var fyrsta atvinna þín?
– Ég byrjaði að vinna í saltfiskverkun foreldra minna, líklega 11-12 ára. Eitthvað svoleiðis. Eftir það vann ég í fiski öll sumur og með skóla.

Mannstu eftir einhverju ákveðnu tískuslysi frá unglingsárunum?
– Já ansi mörgum reyndar, vinir mínir minna mig t.d. gjarnan á grænar gallabuxur og grænan gallajakka í stíl sem mamma keypti á mig í stórútsölumarkaði nokkrum. Þessu gekk ég í lengi vel.

Áttu leyndarmál sem mun fylgja þér til grafar?
– Nei

Hefurðu farið hundóánægð/ur úr klippingu og sagt ekki neitt við klipparann?
– Einu sinni fékk ég hermanna-brodda hjá dönskum klippara sem reyndist úlfur í sauðargæru. Hann var vígbúinn belti með yfir hundrað skærum og tilheyrandi tólum. Leit út eins og fagmaður en reyndist fúskari undir fögru skinninu. Þegar ég leit í spegilinn í miðju verkinu og sá hálfkláraða broddaklippinguna brá mér svo mikið að ég spurði “bíddu er þetta ekki aðeins of mikið?” og hinn svaraði án þess að hugsa “tja, ekki get ég sett hárið á þig aftur!”. Ég fór sem sagt mjög óánægður úr þeirri klippingu og kvartaði því miður ekki. Ég er enn að naga mig í handabökin að hafa ekki staðið upp í hárinu á þessum danska fúskara. Eftir það hef ég bara hleypt Íslendingum í hárið á mér.

Kíkirðu í baðskápana hjá fólki sem þú ert í heimsókn hjá?
– Nei, því miður.

Vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í?
– fyrir utan klippinguna og græna heildressið? jú, þó nokkuð mörg önnur ansi slæm. Ekkert sem ég vil deila með þjóðinni.

Vefsíðan sem þú skoðar oftast?
Facebook. Eru þeir ekki nánast búnir að taka yfir internetið? Svo YouTube.

Seinasta sms sem þú fékkst?
– “Landsbankinn SMS-audkennisnumerid thitt er: 41992”

Hundur eða köttur?
– Köttur eða pug. Sem sagt: dýr með sjálfstæðan vilja og ríkt af leti.

Ertu ástfangin/n?
– Já.

Hefurðu brotið lög? 
– Já. Vill helst ekki telja það upp. Það yrði líklega ansi vandræðalegur listi.

Hefurðu grátið í brúðkaupi?
– Já. Oft.

Hefurðu stolið einhverju? 
– Já, því miður gerði ég það. Ég hef reynt að bæta fyrir það.

Ef þú gætir breytt einu úr fortíðinni hvað væri það? 
– Það væri þau skipti sem ég hef komið illa fram við fólk. Sérstaklega þá sem standa mér næst.

Hvernig sérðu þig fyrir þér þegar þú ert komin á eftirlaun?
-Ég væri rosalega til í að vera æðrulaus og ferskur eins og rokið. Fagna aldrinum og væntanlegum endalokunum. Ekki fúll og í mótþróa við allar breytingar eins og maður getur of auðveldlega orðið ef maður passar sig ekki.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here