Grænmetislasagna og hvítlauksbollur

Hollt og gott lasagna frá Ljúfmeti.com

Grænmetislasagne

Grænmetislasagne

  • 1 laukur
  • 3 gulrætur
  • 1 kúrbítur
  • 200 g sveppir
  • 200 g spergilkál
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir
  • 2 litlar dósir tómatmauk
  • 2 tsk oregano
  • 2 tsk basil
  • 2 grænmetisteningar
  • salt og pipar
  • 1 stór dós kotasæla
  • 2-3 bollar vatn
  • lasagneplötur
  • rifinn ostur

Saxið laukinn, skerið kúrbítinn í bita og sneiðið gulræturnar og sveppina. Léttsteikið laukinn, kúrbítinn, gulræturnar og sveppina í ólívuolíu á pönnu og kryddið. Bætið niðursoðnum tómötum, tómatmauki, vatni og teningum á pönnuna og látið sjóða í 30 mínútur. Á meðan er spergilkálið skorið í bita og léttsoðið. Bætið því á pönnuna í lokin.

Smyrjið eldfast mót og setjið grænmetissósu í botninn, þá lasagnaplötur, kotasælu, aftur grænmetissósu og svo koll af kolli.  Endið á að strá vel af rifnum osti yfir. Bakið við 180° í um 40 mínútur.

 

Hvítlauksbrauð

Hvítlauksbrauð

Ég var búin að lofa uppskrift að hvítlauksbrauði sem ég baka alltaf með grænmetislagsagna. Það er nú ekki svo að ég sé alltaf að elda grænmetislasagna, síður en svo, en þegar það gerist þá er þetta hvítlauksbrauð nauðsynlegt með. Það er bæði hægt að gera þrjú snittubrauð úr deiginu eða bollur. Ég geri alltaf bollur og set rifinn ost yfir þær. Ef það er afgangur af brauðinu set ég hann í frystinn og hita svo upp næst þegar við erum með hakk og spaghetti. Gott!

Hvítlauksbrauð

 

Hvítlauksbrauðbollur

  • 1 pakki þurrger
  • 1½ bolli vatn
  • 1 msk sykur
  • 80 g rifinn ostur
  • 1 ½ tsk hvítlauksduft
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk basilíka
  • 1 tsk óreganó
  • 3 msk olía
  • 4-5 bollar hveiti

Leysið þurrgerið upp í volgu vatni. Bætið sykri, hvítlauksdufti, salti, basilíku, óreganó, olíu og hveiti saman við og hnoðið vel saman (ég nota hnoðarann á KitchenAid vélinni). Látið hefast í 30 mínútur á hlýjum stað. Mótið þrjú snittubrauð eða bollur úr deiginu og látið hefast aftur í 30 mínútur.  Penslið deigið með þeyttu eggi og stráið rifnum osti yfir. Bakið við 180° í 20-25 mínútur.

 

SHARE