„Hann vildi ekki sofa hjá mér!“ – Leið eins og ég væri ekki þess virði

photo by Ambro

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Ég hef lengi velt því fyrir mér að skrifa hér inn í Þjóðarsálina en mín saga er örugglega ekki einsdæmi þó lítið sé talað um svona í daglegu lífi.

Árið 2006 byrjaði ég með manni sem ég hélt að væri allt sem ég vildi. Hann var góður við mig og sá ekki sólina fyrir mér og ég og mín hvatvísi ákváðum að byrja að búa með honum eftir um 2 mánuði.

Það var margt að í þessu sambandi, hann drakk of mikið og þetta kom mjög fljótlega í ljós. Það er samt ekki það sem mig langar að segja ykkur frá, heldur það að maðurinn vildi ekki sofa hjá mér nema endrum og eins.

Hann vildi alltaf minna og minna kynlíf

Það verður að koma fram að ég hef sjálf mikla þörf fyrir kynlíf og nýt þess mikið. Við erum ekki að tala um að ég sé eitthvað afbrigðilega kynferðisleg en svona annan eða þriðja hvern dag hefur alltaf hentað mér mjög vel í sambandi. Það var hinsvegar ekki raunin með hann. Fyrst um sinn var þetta mjög reglulegt og oft eins og er í byrjun í flestum samböndum. Svo fór hann að vilja minna og minna kynlíf. Ég veit ekki hvort þetta var partur af andlega ofbeldinu sem hann beitti mig eða hvort hann hafi verið hreinlega kynkaldur.

Ég hef alltaf lagt mikið uppúr því að vera í formi, ekki bara þegar ég er einhleyp, heldur líka þegar ég er í sambandi, svo þetta var ekki það, að ég væri búin að sleppa mér í „sambandsátið“ og bæta á mig einhverjum kílóum eða neitt þannig.

Við vorum búin að vera saman í um ár þegar þetta fór að vera raunverulegt vandamál.

„Hann kallaði mig greddupöddu“

Ég hafði alltaf frumkvæði og þá meina ég ALLTAF! Ég prófaði einu sinni að hafa ekki frumkvæði og það varð bara til þess að ekkert kynlíf var stundað á okkar bæ í töluverðan tíma. Ég reyndi að tala um þetta við hann og það hafði ekkert að segja. Hann kallaði mig „greddupöddu“ og fleira í þeim dúr og þó það hafi verið „góðlátlegt“ þá leið mér samt þannig. Mér leið eins og ég væri skítug, sorgleg, grátbiðjandi gröð kelling! Það er ekkert svakalega gott fyrir sjálfstraustið hjá ungri konu sem ekki er orðin þrítug.

Það litla kynlíf sem við stunduðum var farið að vera glatað líka. Ég hugsaði alltaf, „eins gott að njóta þess því næsta skipti verður ekki á næstunni“ og „Er hann að fíla þetta eða er hann bara að gera þetta fyrir mig?“. Ég velti vöngum yfir því endalaust hvort að ég væri illalyktandi, óaðlaðandi, andfúl eða bara hreint út sagt léleg í rúminu. Var hann hættur að vera hrifinn af mér? HVAÐ VAR AÐ MÉR? Ég var ekki að ná þessu! Ég hafði aldrei vitað til þess að þetta væri svona hjá pörum, að konan vildi meira kynlíf en karlmaðurinn.

Var í kynþokkafullum undirfötum en ekkert gerðist

Í eitt skiptið var ég ein heima og hafði verslað mér sexy náttkjól, kveikti á kertum og beið eftir honum upp í rúmi. Þegar hann kom heim kom hann í herbergishurðina og lét eins og hann vissi ekki hvað væri í gangi. Hann sagði að hann væri svo þreyttur og ætlaði að fara upp í sófa að horfa á sjónvarpið áður en hann færi að sofa. WHAT!!!  Þetta var ein mesta niðurlæging sem ég hafði upplifað. Ég var svo hissa að ég lá heillengi uppi í rúmi og hugsaði hvað ég ætti að gera. Ég fór svo inn á bað og fór í bómullarnáttfötin mín, burstaði tennurnar og fór að sofa.

Ástæðan fyrir því að ég vil deila þessu með ykkur er sú, að það er algengt í samböndum að annar aðilinn hafi meiri kynhvöt en hinn. Um þetta þarf að tala! Þetta olli mér rosalega miklum særindum og særði stoltið mitt alveg svakalega og með hverju skiptinu hjó þetta skarð af sjálfstraustinu mínu, sem undir lokin var orðið mjög takmarkað.

 

SHARE