Hárvöxtur í andliti hjá konum – Hvað er til ráða?

Með aldrinum fá flestar konur hárvöxt á óæskileg svæði á andlitinu. Þetta er mjög mikið feimnismál hjá flestum konum og margar eru alveg miður sín vegan þessa. Mér þykir mál til komið að opna þessa umræðu því flestar munum við ganga í gegn um þetta og er þetta mun algengara en fólk gerir sér grein fyrir og þarf ekki að vera svona mikið feimnismál.

En hvað er til ráða? Sumar konur vilja alls ekki eiga við þessi hár og láta þau vera, í mesta lagi klippa af þeim til að stytta þau. Einnig eru konur sem fara í vax í andlit en þá fjarlægjast auðvitað hvítu, fíngerðu hárin sem eru á andlitinu, með þessum grófari. Sumar tala um að þeim finnist hárvöxturinn hafa aukist eftir að þær byrjuðu að vaxa þau, en engin leið er að vita hvort þau hefðu aukist hvort sem þau hefðu verið vöxuð eða ekki.

Háreyðing með rafmagni er ein önnur leið en það er gert þannig að lítilli nál er stungið meðfram hárinu ofan í hársekkinn og hann brenndur. Mikilvægt er að ná hárinu á réttum tíma því annars mun það koma aftur. Þetta hentar sérstaklega vel þeim sem fá eitt og eitt hár á stangli því þetta er tímafrekt og ekkert sérlega gott.

Önnur leið er að fara í laser. Hann virkar þannig að laserinn leitar eftir litafrumunum í hárinu og því er nauðsynlegt að hárið sé töluvert dekkra en húðin. Ef litamunurinn er ekki nægur virkar hann hreinlega ekki. Einnig tala þeir sem framkvæma laserinn um að það fáist betri árangur hjá þeim sem ekkert hafa átti við hárin og þá sérstaklega með vaxi.

Í þessum efnum verður hver kona að finna það sem hentar sér og það sem hentar einni hentar ekki endilega þeirri næstu. En munum bara það að þetta er eins eðlilegt og að hafa hár á höfðinu og þetta er ekkert sem við ráðum við, þetta er bara verkefni sem hver og ein verður að finna lausn á, sem hentar sér.

Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi þetta, eða annað tengt snyrtifræði, endilega sendu fyrirspurn á inga@hun.is

 

Gangi ykkur vel!

SHARE