Hefur lést um 60 kg með hjálp OA samtakanna

Saga mín sem feits manns er ekki löng. Ég fitnaði hratt. Fór úr kjörþyngd í mikla ofþyngd á örfáum árum. Ég var íþróttamaður áður en missti skyndilega alla stjórn á neyslu minni á mat og sælgæti. Varð tvöfaldur og næstum þrefaldur venjulegur maður. Nánast án þess að taka eftir því – en líka gerði ég mitt besta til að horfast ekki í augu við hvað var að gerast. Seinna komst ég reyndar að því að ég hafði alltaf átt í óeðlilegu sambandi við mat, allt aftur í barnæsku þar sem ég tróð á mig sælgæti hvar sem ég komst í það, stalst í skápana á heimilinu og eyddi fyrstu peningunum sem ég aflaði að stórum hluta í mat.

Margir vildu hjálpa mér sem sáu hvernig ég varð stöðugt þyngri og þyngri. Fjölskylda, vinir, heilbrigðisstarfsfólk og jafnvel ókunnugir. Allir þessir vildu gefa mér góð ráð um matarræði og hreyfingu, en allt kom fyrir ekki. Mikið af þessu voru töfralausnir, sumt var byggt á góðum vísindum en vandinn var að ekkert af þessu átti í raun við minn vanda. Minn vandi var að ég var orðinn fíkill gagnvart mat og ég var algjörlega varnarlaus. Ég er ekki eins og hinn venjulegi maður sem getur haft nammidag einu sinni í viku. Ef ég byrja á poka af einhverju góðu þá hætti ég ekki fyrr en hann er tæmdur. Maturinn er nauðsyn. Viljastyrkurinn hefur ekkert að segja.

 

Sjá einnig: „Ég var búin að reyna óteljandi megrunarkúra“

Oft fór ég út í búð eða sjoppu rétt fyrir lokun því ég var búinn að reyna að beisla viljastyrkinn allt kvöldið en treysti mér á endanum ekki til að vera án matar og sælgætis inn í nóttina. Sólarhringsopnun verslana var þá sem betur fer ekki orðin eins algeng og nú. Ég át svo þar til að ég gat varla komið meiru niður og svaf illa og vaknaði með svarta bauga daginn eftir. Átið einangraði mig félagslega, ég átti aldrei almennileg föt sem pössuðu á mig og ég sinnti eigin hreinlæti ekki nægilega. Ég átti erfitt með að feisa fólk í vinnunni, hvít lygi var mín leið, ég óttaðist að hitta fólk úr fortíðinni því ég var uppfullur af sektarkennd og eftirsjá vegna þess sem hafði komið fyrir mig. Hví hafði ég, þessi efnilegi maður, klúðrað lífi sínu og tækifærum svona. Beinlínis étið sig út á jaðar samfélagsins.

Ég eyddi miklum tíma í að hugsa um fortíðina, annað fólk, hvað mér fyndist um það og hvað það væri nú að hugsa um mig. Í bland dreymdi mig svo dagdrauma um allt það góða sem ég myndi upplifa um leið og ég grenntist. Sór kannski að nú væri komið nóg. Nú skyldi ég snúa þessu við. Ég ætti allt undir því að það tækist. Því miður dugðu þessar heitstrengingar ekki til. Jafnvel í þúsundasta skiptið sem ég hét því að hætta að borða sykur þá var ég kominn inn í skáp eða út í búð bara hálftíma síðar.

Ég vissi vel hvernig ég gæti grennst. Þessi vísindi eru vel þekkt og hálfgerð klisja: Maður þarf að borða minna og hreyfa sig meira. Þetta hafði ég heyrt þúsund sinnum frá ótal aðilum. Mig skorti því ekki þekkingu, ég var ekki heldur með hæg efnaskipti eða stór bein eða afleiðingar af sjaldgæfum hormónasjúkdómi. Ég bara gat ekki horfst í augu við sjálfan mig og líf mitt án þess að vera stöðugt að deyfa mig með mat. Ég var á flótta frá sjálfum mér, ég fyrirleit mig og röddin í höfðinu á mér sagði mér stöðugt hluti um sjálfan mig sem voru svo ljótir að ég myndi ekki segja þá við nokkurn annan mann. Mig skorti leið til að losna undan þessum hugsunum, leið til að byrja að þykja vænt um mig á ný. Elska sjálfan mig eins og ég var orðinn, tæp 200 kg. Ég var því opinn fyrir því þegar mér var bent á OA-samtökin, að taka á móti hvaða leið sem væri fær til að ég gæti losnað úr þessu helvíti sem líf mitt var orðið. Mér var tekið opnum örmum og sagt að þekking mín skipti engu. Vandamál mitt væri að ég hefði engan kraft, ég væri máttlaus gagnvart matarfíkninni rétt eins og þau. Fólk eins og við gæti ekki bara tekið sig á og farið í megrun. Við værum ólík öðrum að þessu leyti. Þetta hitti í mark hjá mér. Ég vissi að ég vildi læknast, ég vildi grennast meira en nokkuð annað, af hverju hafði mér þá ekki tekist að virkja þennan einlæga vilja. Það small í höfðina á mér að viðurkenna einfaldlega fullkominn ósigur. Ég gæti ekki sigrað í þessari baráttu. Ég tók leiðsögn reyndari félaga í OA-samtökunum. Enginn þar vildi selja mér duft, pillur, bækur eða líkamsræktartæki. Þeir voru fólk sem hafði líka misst tökin og áttað sig á því að 12 spora leiðin gæti hjálpað þeim að laga til líf sitt og fá kraft til þess að hætta að borða hömlulaust, einn dag í einu.

 

Sjá einnig: Borðar þú til að gleyma? – 10 atriði sem lýsa tilfinningalegu ofáti

Leið mín var ekki bein og breið en krafturinn sem ég uppgötvaði strax í upphafi sporagöngunar í OA hefur aldrei yfirgefið mig og án hans væri ég ekki 60 kg léttari í dag en ég var. Án hjálparinnar sem ég fékk í OA hefði ég ekki heldur fengið allt það stórkostlega sem er í lífi mínu í dag; fjölskylda sem er sameinuð á ný, fjöldi vina, kona sem elskar mig, vinna þar sem ég nýt virðingar og velgengni, fjárhagsleg gæfa og sönn hamingja hvern dag. En fyrst og fremst þakklæti. Óendanlegt þakklæti. Því ég var að sönnu á leið fram af bjargbrúninni en var kippt til baka og það er svo magnað að þetta er í boði fyrir alla þá sem eru jafn illa staddir og ég var.

Fyrsta skrefið gæti verið að koma á opin afmælisfund OA miðvikudaginn 2.mars klukkan 20:00 – 22:00 í Mengi, sem er á Óðinsgötu 2, 101 Reykjavík og heyra fleiri sögur eins og mína. Hver veit. Það er undir þér sjálfum komið. Eina skilyrðið er að hafa löngun til að hætta hömlulausu áti.

OA-afmeliD
ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is. Ef þú hefur áhuga á að deila þinni reynslu, skoðun eða upplifun máttu senda hana á thjodarsalin@hun.is.

SHARE