Heilsa og vellíðan í vaktavinnu

Mikilvægi andlegrar og líkamlegrar heilsu er aldrei of oft ítrekað. Fyrir fólk sem stundar vaktavinnu er ekki síður mikilvægt ef ekki mikilvægara að ítreka mikilvægi þess að huga vel að heilsunni. Rannsóknir sýna að vaktavinnufólk fær allt að 7 klst. minni svefn á viku en aðrir. Langvarandi hvíldarskortur getur leitt af sér lakari andlega og líkamlega heilsu. Ef ekki er hugað að viðhaldi heilsunnar er hætt við að kvillar geri vart við sig sem annars hefðu jafnvel ekki gert það. Má þar nefna andlega kvilla eins og þunglyndi, félagsfælni, áfengis- og lyfjamisnotkun, átraskanir og líkamlega kvilla eins og stoðkerfisvandamál og meltingartruflanir.

Með markvissri uppbyggilegri hreyfingu má auka þol, þrek og svefn og þar af leiðandi bæta andlega og líkamlega líðan auk þess að afköst aukast með reglulegri hreyfingu.

Líkamsklukkan

Líkamsklukkan er það „tæki“ sem stjórnar mynstri svefns og vöku. Það er manninum eðlislægt að vakna í dögun og sofna þegar rökkvar. Á meðan aðrar lífverur kjósa jafnvel að vaka á nóttunni. Á nóttunni framleiðir líkaminn náttúrulegt svefnlyf sem nefnist melatónín. Þetta efni er hormón sem hjálpar okkur að sofa. Þegar við vökum og sofum á skjön við líkamsklukkuna getur komið óregla á starfsemi hormónakerfisins og framleiðsla hormóna eins og melantóníns fer úr jafnvægi.

Sjá einnig: „Við náum ekki endum saman“ – Hjón sem starfa sem kennarar

Talið er að það taki líkamsklukkuna 5 – 7 daga að endurstilla sig, þó er mjög einstaklingsbundið hvernig gengur að aðlagast óreglulegum svefni.

Mataræði

Í aðstæðum sem teljast venjulegar er oftast tiltölulega auðvelt að neyta fæðu reglulega og á tímum sem teljast eðlilegir. Í vaktavinnu getur hinsvegar oft verið erfitt að finna gott jafnvægi á neyslumynstri. Hætt er við að máltíðum sé sleppt úr og færri og stærri máltíðir verða fyrir valinu og oftar en ekki verður fæðuvalið ekki nógu gott og ofþyngd þá oft fljót að láta á sér kræla.

Til að halda kjörþyngd og fá öll nauðsynleg næringarefni þarf að passa vel uppá að sleppa ekki úr máltíðum. Rannsóknir sýna að vel reynist að borða áður en farið er að sofa eftir kvöld- og næturvaktir og borða litlar máltíðir á næturvöktum. Með því að borða reglulega helst brennsla og blóðsykur í jafnvægi og við verðum hressari.

Félagslegar aðstæður – tengsl

Samkvæmt rannsóknum finnst flestum erfitt að samræma vaktavinnu og félagslíf. Einhleypir með börn eru líklegri til að finnast það erfiðara en öðrum. Sumir einangrast og þróa með sér félags- og sálræna kvilla. Reynslan sýnir einnig að vaktavinna hentar verr þeim sem eru að eðlisfari kvíðnir og hafa tilhneigingu til að hafa áhyggjur.

Sjá einnig: Átt þú við svefnvandamál að stríða?

Viðhorf til vaktavinnu skiptir miklu máli, ef viðhorfið er jákvætt eru minni líkur á neikvæðum áhrifum vinnu á óreglum tímum og óreglulegum hvíldartíma. Viðhorf eru mismunandi eftir félagshópum og kynslóðum.

Jákvæðu hliðarnar á vaktavinnu eru meðal annars lengri frí inni á milli vaktatarna og frí í miðri viku sem þeir sem eru í dagvinnu fá að öllu jöfnu ekki. Þar af leiðandi er hægt að líta á vaktavinnu sem sveigjanlegan vinnutíma.

 

Fleiri heilsutengdar greinar á doktor.is logo

 

SHARE