Heimaæfingar skila góðum árangri

Þú þarft hvorki að borga fúlgur fjár né fara út úr húsi til að komast í form.

Ef þú hefur ekki tíma til að fara í ræktina, finnst það óþægilegt, hefur ekki efni á því eða færð ekki barnapössun, er vel hægt að gera æfingar heima við og ná jafn góðum árangri. Það eina sem þú þarft er þunn dýna, handlóð, gúmmíteygjur og lítil trappa eða skemill.
Heimaæfingar eru ekki bara fyrir byrjendur, eins og margir halda, enda er hægt að gera æfingar á mismunandi erfiðleikastigum. En best er að fara rólega af stað.
Eini gallinn við heimaæfingarnar er sá að manni hættir til að fara frekar í tölvuna eða setjast fyrir framan sjónvarpið en að fara í æfingagallann og sækja lóðin. Það er auðvelt að svindla. Þess vegna er mikilvægt að skrá æfingarnar inn á dagatalið sitt og ekki hvika frá þeim nema eitthvað komi upp á. Gott er að hafa fastar æfingar alltaf á sama tíma sólarhringsins, kannski tvisvar til þrisvar í viku. Jafnvel oftar. Ef þú heldur það út í þrjár vikur þá er mjög líklegt að sú hugsun, að sleppa æfingu, hætti að hvarfla að þér.

Þá er gott að reyna að hafa æfingarnar fjölbreyttar og ekki gera alltaf þær alltaf í sömu röð. Það er vissulega aðeins meira takmarkandi að gera æfingar heima en í sal fullum af líkamsræktartækjum, en það þýðir ekki að þú þurfir að hafa æfingarnar einhæfar.

Gættu þess að hita létt upp fyrir hverja æfingu og gera teygjur í lokin. Alls ekki sleppa þessu. Það sem þú gerir á æfingunni í dag eykur bæði lið- og styrkleika á æfingunni á morgun.
Hér eru hugmyndir að nokkrum æfingum sem auðvelt er að gera heima fyrir með einföldum búnaði.
Hnébeygjur
Gerðu 3×12 hnébeygjur með lóð og fætur í sundur.
Rasslyftur
Liggðu á dýnu og lyftu rassinum upp 3×12.
Hnélyftur
Í þessari æfingu er hægt að nota litla tröppu eða skemil. Stígðu upp á tröppuna og lyftu hnjánum upp 3×12.
Teygjuganga
Gakktu til hliðar 3×12 með gúmmíteygju utan um fæturna. Slíkar teygjur fást í flestum verslunum sem selja líkamsræktarvörur.
Beygðu þig með lóð
Hafðu lóð í báðum höndum, beygðu þig fram og lyftu lóðunum upp og niður.

 

Heimildir: Fréttatíminn

SHARE