Helgarsteikin sem allir verða að prófa

Þessi hægeldaði svínabógur kemur af blogginu hennar Tinnu Bjargar. Steikin er elduð í sex klukkustundir við vægan hita og verður þess vegna alveg svakalega mjúk og ljúffeng. Ég skora á ykkur að prófa þessa um helgina.

Sjá einnig: Dýrindis sósa með helgarsteikinni

IMG_2944bbb

Hægeldaður svínabógur

1 svínabógur

sjávarsalt

svartur pipar

Season All

2-3 dl vatn

Skerið rifur í skinnið á svínabóginum næstum niður að kjöti og nuddið miklu sjávarsalti vel inn í rifurnar. Kryddið kjötið á öllum hliðum með Season All og svörtum pipar. Setjið svínabóginn í djúpa ofnskúffu og eldið í 40 mínútur við 220° eða þar til skinnið hefur breyst í stökka puru.
Lækkið hitann niður í 150°, leggið álpappírsörk yfir kjötið og setjið það aftur inn í ofn.
Eldið kjötið áfram í 4 klukkustundir og 50 mínútur og undirbúið grænmetið á meðan.

Hellið vatni í ofnskúffuna eftir um 4 klst. og látið krauma með kjötinu í 50 mínútur.
Til að fá örugglega stökka puru er gott að byrja á að setja bóginn á hvolf í fat með 2 cm djúpu vatni og elda í ofni við 170° í 30 mínútur. Þessar 30 mínútur dragast þá frá þeim tíma sem bógurinn er eldaður við 150°. Þetta er þó ekki nauðsynlegt skref.

Sjá einnig: Góð nautasteik er það fallegasta sem maður sér á diskinum fyrir framan sig

IMG_2946

Ofnbakað grænmeti

300 g skalottlaukur

300 g gulrætur

400 g kartöflur

1-2 laukar

1 askja litlir sveppir

svartur pipar

Season All

timjan

basilíka

oregano

2 lárviðarlauf

Afhýðið skalottlauk, lauk og gulrætur. Þvoið kartöflur og sveppi. Skerið kartöflur, smáar í tvennt og stærri í fernt þannig að bitarnir séu allir svipað stórir. Skerið lauk í fernt og gulrætur eftir endilöngu og í bita á stærð við kartöflurnar. Mikilvægt er að grænmetisbitarnir séu svipaðir að stærð svo þeir bakist jafnt í ofninum. Athugið að skalottlaukur og sveppir eru hafðir heilir.
Þegar svínabógurinn hefur eldast í samtals 5 1/2 klukkustund er hann tekinn út úr ofninum og færður á fat. Hellið mestum hluta soðsins úr ofnskúffunni í skál en skiljið eftir 3-4 msk.
Blandið skalottlauk, gulrótum, kartöflum, lauk og lárviðarlaufum saman í ofnskúffuna og veltið upp úr afganginum af kjötsoðinu. Kryddið með svörtum pipar, Season All, timjan, basilíku og oregano.
Hækkið hitann á ofninum í 200°. Leggið svínabóginn ofan á grænmetið í ofnskúffunni og eldið áfram án álpappírs í 30 mínútur.

Þegar kjötið hefur eldast í samtals 6 klukkustundir er það tilbúið. Takið svínabóginn af ofnskúffunni, setjið á fat og breiðið álpappír yfir á meðan sósan er löguð.
Kryddið sveppi með Season All og setjið í ofnskúffuna með grænmetinu. Eldið grænmetið áfram í 30 mínútur þannig að það verði örlítið stökkt og fallega brúnað. Þegar grænmetið er tilbúið, setjið það í framreiðslufat, takið frá restina af soðinu í botni ofnskúffunnar og hellið í soðskálina.

Sjá einnig: Bragðmikið kúskús salat með ofnbökuðu grænmeti, avocado og parmesan osti – Uppskrift

IMG_2958

Brún sósa

500-600 ml vatn

kjötsoð

svínakraftur eftir smekk

2 lárviðarlauf

svartur pipar

1 1/2 dl vatn

3/4 dl hveiti

brúnn sósulitur

Við sósugerðina þarf maður svolítið að prófa sig áfram og smakka til.

Byrjið á að fleyta sem mestri fitu ofan af kjötsoðinu. Sjóðið soð og vatn saman í potti ásamt lárviðarlaufum úr ofnskúffunni. Hristið saman hveiti og vatn og hellið smátt og smátt í sósuna til að þykkja hana. Látið krauma í nokkrar mínútur á meðan sósan þykknar. Dekkjið sósuna með nokkrum dropum af brúnum sósulit.

Ef sósan er of bragðlítil, smakkið hana til með svínakrafti og svörtum pipar.

SHARE